Archive for the ‘Útivist og ferðalög’ Category

Fjallganga næstu helgi

febrúar 26, 2008

Þar sem Una mun yfirgefa mig aðfaranótt laugardagsins næstkomandi verð ég að finna eitthvað til að dreifa huganum þann sama dag. Mér segir svo hugur að þó ég segðist ætla að gera eitthvað voðalega merkilegt, eins og að læra, þá yrði eitthvað lítið um efndir.

Því hef ég afráðið að klífa einhverja hrúgu á suður-, suðvestur- eða vesturlandi, um næstu helgi. Annað hvort á laugardeginum eða sunnudeginum. Þeir sem vilja koma með eru boðnir velkomnir. Þegar hef ég sett mig í samband við stórmenni á borð við MDN og ÁH, sem báðir eru að hugsa sinn gang. Þess má geta að eins og veðurhorfur eru nú er ekki von á öðru en fullkomnu gönguveðri, sé fólk rétt klætt. Eins stigs frost og andvari, 1 m/sek. Hálfskýjað. Þetta er kjörið.

Ekki er ráðgert að leggja á nein stór fjöll,  enda snjór á fjöllum og ekki hægt að fara hratt yfir. Dagsljósið ennþá takmarkað. Þeir hólar sem mér hefur dottið í hug að rölta á eru: Vífilfell, Hengillinn, Keilir eða kannski eitthvað í Borgarfirði. Hvað það ætti að vera veit ég svo sem ekki, en ekki skortir hólana þar heldur.

Uppástungur eru vel þegnar.

Sú hugmynd hefur komið upp…

október 25, 2007

…að í janúar ferðist ég um Úkraínu, Rúmeníu, Ungverjaland, Tékkland, Pólland, Þýskaland og Danmörku.

Hvernig væri það?

Kominn heim

október 2, 2007

Á sunnudagskvöld snerum við Una heim frá för okkar til Króatíu. Nú hafa því bæst þrjú lönd í annars fátæklegt landasafn mitt, en mér hefur alltaf þótt asnalegt að telja ekki með þau lönd sem maður hefur séð að einhverju leyti. Það eina sem ég tel ekki með eru lönd sem ég hef fujsískt komið til en aldrei farið út fyrir flugvallarbygginguna. Ég hef því komið til: Noregs, Bandaríkjanna (New York, Flórída, Minnesota, Nevada, Kaliforníu), Kanada, Englands, Frakklands, Portúgals, Grikklands, Tyrklands, Ítalíu, Slóveníu og Króatíu.

Já þið lásuð rétt. Ég hef aldrei komið til Danmerkur. Ég hef aðeins millilent einu sinni á Kastrup. Einnig hef ég millilent á Arlanda, en tel mig þó ekki hafa komið til Svíþjóðar heldur. Formlega.

Króatía var afar næs. Ekki get ég sagst hafa kynnst öllu landinu en fékk nokkuð góða tilfinningu fyrir Istríu, skaganum sem gengur út í norðanvert Adríahafið. Króatía er mjög greinilega á menningarlegu áhrifasvæði Ítalíu og Þýskalands. Á opinberum skiltum er tungumálaröðin þessi: Króatíska, Ítalska, Þýska, Enska. Ætli það markist ekki af því að Ítölsk áhrif í gegnum söguna hafa verið meiri, en áhrif Þjóðverja meiri í seinni tíð, svona túrismaáhrif. Við dvöldum í bænum Poréč (Boreddsj) en fórum einnig til bæjarins Rovinj (Róvin) sem gengur í raun undir tveimur nöfnum, enda jafnoft kallaður Rovigno.

Tungumálakunnátta heimamanna er að því er mér virtist best í þýskunni. Þeir voru hræðilega lélegir í ensku, fyrir utan hótelstarfsmenn og þjóna á betri veitingahúsum, en ég heyrði þá eiginlega aldrei tala ítölsku. Ítölsk áhrif eru mikil á matargerðina, enda gera þeir mikið af pizzum og pasta og gera ís (sladoled) sem líkist víst þeim ítalska nokkuð. Allt þetta var mjög gott hjá þeim. En svo eru það þýsku áhrifin, sem birtast í því að ég þurfti að beita fyrir mig menntaskólaþýsku þegar ég keypti mér sundskýlu og sandala. „Vieviel für diese Badehose? Nein, das ist zuviel. Und diese? Ja ok, achtzich Kunen. Die Frau kauft die Schuhe für mich, ich habe kein geld. Danke schön.“

Einnig birtust þau í herfilegu úrvali matar á flestum ódýrari veitingastöðum við ströndina. Er það svo, ég spyr, er það svo, að þegar maður rís upp af sólarbeði sínu, dasaður og útataður í sólarvörn, að maður segi við sjálfan sig: Ég held ég fari og fái mér vínarsnitzel eða pönnusteikt svínakjöt með tómatsósu. Er það svo? Nei. Svo er ekki. Eftir göngu meðfram ströndinni næstsíðasta daginn fékk ég til dæmis að gæða mér á smjörsteiktum kjötfarshleifi með tómatsósu.

Ef ekki hefði verið fyrir hinn ágæta króatíska Pivo (bjór) hefði maður ekki látið bjóða sér þetta. Helstu tegundir af króatískum Pivo sem smakkaðar voru, voru Union, Ozjujsko og Favorit. Allt mjög góður bjór.

Einnig komumst við að því að kjörið hvítvín með sjávarréttum og pasta er hið Istríska Malvazija hvítvín. Sérlega létt og leikandi, ávaxtakennt og auðvelt í drykkju, borið fram vel kælt. Þeir gera fín vín þarna. Tókum auðvitað með okkur heim tvær flöskur, eina Malvaziju og eina Cabernet Sauvignon, einnig Istríska.

Það kom mér hins vegar á óvart hversu hátt verðlagið þarna var. Það var bara alls ekkert svo ódýrt. Tvær manneskjur úti að borða á flottasta staðnum í bænum gátu alveg farið með 10.000 kall á einu kvöldi, með víni og svona.

Skemmtileg upplifun átti sér stað á miðvikudaginn. Þá vorum við í Rovinj og það gerði mikið þrumuveður og úrhellisrigningu, afbrigðilega mikla fyrir árstímann. Í gamla bænum þar er stór hæð og jafnframt engin niðurföll eða holræsi, enda bærinn frá tímum Rómarveldis og gangstéttirnar líka. Á hálftíma breyttust götur í árfarvegi og stigar breyttust í fallegar fossaraðir sem minntu á Ísland. Skemmst er frá því að segja að við urðum hundblaut á leiðinni á rútustöðina.

Hvað á að gera um helgina…

ágúst 2, 2007

…þetta er algengasta spurning vikunnar. Í mínu tilfelli verður líklega keyrt austur í Hvamm, rétt hjá Hellu. Þar langar mig til að vera í miklum rólegheitum.

Lambhagafossar í Hverfisfljóti

júlí 5, 2007

…eru fá-rán-le-ga flottir.

Margt hefur gerst

maí 26, 2007

…síðan ég skrifaði hér síðast, bæði í landinu og hjá mér. Ekki ætla ég að telja það allt upp, en m.a. kláraði ég prófin, kaus, varð nokkuð ánægður með niðurstöðuna, fór í hringferð um landið, fékk útlendinga í heimsókn, fór í ferð um gullna hringinn og um suðurland að Vík.

Vinnan byrjar á þriðjudag. Ég á afmæli á morgun.

Ég mæli með:

Íslandi. Þeir sem ekki hafa farið þangað drífi sig sem fyrst.

Ég er svona 95% viss…

maí 2, 2007

…um að ég kaupi mér svona hjól eftir prófin sem afmælisgjöf til mín frá mér (áhugasamir mega hjálpa til með frjálsum framlögum). Þetta kostar einhvern 55.000 kall.

Hjól frá Markinu

Helstu upplýsingar um græjuna: (þetta hljómar mjög vel en ég veit ekkert hvað þetta þýðir)

Fjöldi gíra: 24

Stell: Ál 6061

Afturskiptir: Shimano Alivio

Framskiptir: Shimano FD-M330

Skiptihandföng: Shimano EZ-fire plus

Dempari: Suntour XCR læsanlegur 100mm

Gjarðir: 26″ Rigida ZAC 19 SL tvöfaldur ál

Bremsur: V-bremsur Scott Comp ál

Dekk: 26 x 2,0 Scott Manx 27 tpi

Sunnudagur í Skorradal

janúar 21, 2007

Ég hafði það af að vakna klukkan 07:30 í morgun og keyra Unu í vinnuna. Svo keyrði ég áfram út úr bænum og upp í Skorradal. Það er asnalega langt síðan ég hef komið þangað. Það var síðasta sumar. Til skammar. Þar hitti ég Davíð móðurbróður minn í fjósinu og hitti köttinn Púka sem nú er að verða 13 ára held ég. Hann var í fullu fjöri í dag, rétt eins og þegar ég var 14 ára í sveit á Grund. Og reyndar gerði hann nákvæmlega það sama núna og hann gerði alltaf þá. Að bíða eftir manni ofan á fjöl við fremstu jötuna og reyna að klóra í mann þegar maður gekk framhjá. Gott að hann er bara sáttur við sama gamla brandarann eins og 1997.

Þarna hitti ég líka frænda minn og frænku, Melkorku Sól og Davíð Pétursbörn. Þau eru lík foreldrum sínum og ansi sniðugir krakkar. Davíð var ekki farinn að tala neitt að ráði síðast þegar ég sá hann.

Svo fór ég inn á Vatnsenda og hitti Magnús Norðdahl og Auði Kömmu. Við Magnús skelltum okkur svo í tveggja tíma göngutúr upp á Skorradalshálsinn en ofan af honum sáum við yfir Borgarfjarðardalina og norður að Baulu, en einnig var þetta nýtt og skemmtilegt sjónarhorn á Skarðsheiðina. Hún hefur mörg andlit. Þetta var kærkomið tækifæri til þess að prófa hina nýkeyptu mannbrodda. Þeir eru auðvitað snilldargræjur og ég sé ekki eftir þeim kaupum þó ég viti vel að það hafi verið okrað heldur mikið á mér við það tækifæri. Á göngunni komumst við á slíkan stað að hvert sem við litum sáum við hvergi merki um tilvist mannkynsins (fyrir utan okkur sjálfa), aðeins grjót, fjöll, snjó og himin. Það var þægilegt.

Við hlustuðum svo á landsleikinn í útvarpinu á leiðinni í bæinn og gerði það ferðina síst ánægjulegri. Svo var endaði dagurinn í pizzuveislu úti í Garðabæ og almennu tsjilli.  Sunnudagar eru uppáhaldsdagarnir mínir.

Sunnudagur á Suðurnesjum

janúar 14, 2007

Í dag fórum við Una í bíl- og göngutúr um suðurnes. Byrjað var á því að fá brúklegan bíl lánaðan. Því næst var haldið á bensínstöð þar sem 140 lítrum af olíu var dælt á bílinn. Ekki þýðir að verða uppiskroppa. Svo var haldið suðrettir og beygt til vinstri inn á Grindavíkurafleggjarann. Keyrðum til Grindavíkur.

Þangað hef ég ekki komið síðan ég man ekki hvenær. En svo virðist sem þar sé almenn gríðarlega snjóþungt því þar eiga allir stóra jeppa og þar aka allir um á vélsleðum eins og ekkert sé eðlilegra. Held ég hafi séð um 8 vélsleða á þeim 5 mínútum sem ég var innan bæjarmarka. Jafnmarga bíla sá ég. Við keyrðum svo að litlu fjalli sem heitir Festarfjall og er rétt austan við bæinn. Það gengur í sjó fram og er brimsorfið. Það tók enga stund að ganga upp á það, en þar tókum við flottar myndir sem ég birti kannski þegar ég hef komið þeim yfir á tölvuna.

Hér er ágætismynd sem við tókum uppi á Festafjalli. Dálítið eins og stillimynd á Omega samt! Sól

Þarna var gaman að djöflast á bílnum í snjónum (enginn gróður var skaðaður í ferðinni). Svo keyrðum við aftur í gegnum Grindavík og vestrettir út að Reykjanesvita og framhjá Reykjanesvirkjun og komum svo framhjá Höfnum til Keflavíkur. Ég fann fyrir tómleikatilfinningu þegar ég keyrði framhjá Höfnum. Erfitt að lýsa því en, kannski hægt að hugsa sér að ef maður deyr, en fer hvorki til helvítis né himna þá fari maður í Hafnir. Nú blöskrar einhverjum. Það er samt fallegur staður á sérstakan hátt. Verst fyrir íbúana að þar virðist vera rennibraut fyrir þotur niður á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.

Svo keyrðum við á alþjóðahringtorgið sem býður upp á þá skemmtilegu valmöguleika: Reykjavík – Heimurinn – Sandgerði. Við völdum Sandgerði. Keyrðum þangað útettir og á móti okkur tók illviðri sem varð hvergi annars staðar vart en einmitt í Sandgerði og Garði. Það var léttskýjað alls staðar annars staðar. Meira að segja í Keflavík. Við skrensuðum í gegnum Sandgerði og keyrðum svo að Hvalsnesi þar sem Íslandsvinurinn Wilson Muuga heldur til. Það kom mér á óvart hversu ótrúlega langt uppi í fjörunni skipið er. Þetta er ekki nema smá spotti. Það var líka spotti þarna sem bundinn hafði verið utan um stórgrýti og náði alveg út í skipið. En það er víst ekkert grín að komast svona smávegalengd þegar það gerir kolvitlaust veður. Það fékk danski sjóliðinn sem fórst þar um daginn að reyna. Sá maður verður að teljast hafa verið sérlega óheppinn með yfirmenn.

Þarna borðuðum við nestið okkar og drukkum heitt súkkulaði. Þetta var kaldhranalegt pikknikk svo ekki sé meira sagt. Súkkulaðið geymdum við í hitabrúsa sem Una fékk frá verktakafyrirtækinu Eykt. Brúsinn virkaði ljómandi vel og hélt súkkulaðinu rjúkandi heitu frá því að við hituðum það klukkan hálfellefu þar til við drukkum það að ganga fimm.

Mynd hér af skipinu: (Wilson Muuga).

Við slógum því föstu að kirkjan þarna úti við Hvalsnes sé kirkjan sem var í Mýrinni.

Vil ég að lokum þakka almættinu fyrir að hafa skapað Reykjanesskagann. Ef það hefði ekki tekið sér tíma til þess hefði dagurinn í dag ekki verið svona skemmtilegur.

Óviðjafnanlegur sunnudagur

september 25, 2006

Í gær hélt ég í gönguferð upp að Glym, hæsta fossi landsins. Þar hef ég farið áður en ekki á nákvæmlega þessum árstíma. Nú eru haustlitirnir í óðaönn við að sturla náttúruæsta Íslendinga og toga upp úr þeim gífuryrði um fegurð föðurlandsins. Ég er þar engin undantekning. Ekki var ég einn á ferð, enda komu með mér Una Sighvatsdóttir, Ásdís Eir Símonardóttir og Anna Samúelsdóttir. En gönguferðin var farin undir yfirskriftinni – „Frelsum kvenþjóðina frá áfengisbölinu“.

Þessi gönguleið er fullkomin. Þetta byrjar á smá upphitun, gengið er eftir engjum í nokkrar mínútur þar til komið er að Botnsá, rennandi út úr gljúfri. Til þess að komast niður að ánni er gengið í gegnum helli (það er alltaf ævintýralegt að ganga í gegnum helli). Niður úr hellinum hleypur maður stjórnlaus og lendir í rauðgulu birkikjarri. Út úr kjarrinu kemur maður við árbakkann. Þar hefur verið komið fyrir trjádrumbi sem liggur af stórgrýti einu í ánni og yfir á hinn bakkann. Þegar yfir er komið tekur hinn eiginlegi göngutúr við. Gljúfurbarmurinn er genginn stall af stalli, ofar og ofar. Sífellt kemur fossinn betur í ljós og stöðugt minnkar áin á botni gilsins. Að lokum er toppnum náð og þá er kjörið að fá sér samloku, banana og kókómjólk í dúnmjúkum mosa. Þá er maður farinn að sjá Esjuna á ný og Hvalfjörðinn, Akrafjallið og Leirársveitina alveg út að Faxaflóa. Við þetta tækifæri skartar stóriðjan á Grundartanga sínu fegursta og blæs reykhringjum til afþreyingar.

Göngumenn tóku svo til við að komast yfir Botnsána fyrir ofan fossinn. Hún leynir sannarlega á sér hvað þetta varðar. Úr fjarlægð virðist hún varla ná nokkrum manni í ökkla en þegar betur er að gáð vantar alls staðar herslumuninn á að hægt sé að stikla yfir hana með góðu móti. Einn göngumaður stiklaði það þó í skjóli vatnsþolins göngutaus. En þegar ferðafélagið hætti við vegna kvenlegs eðlis þurfti hann að fara aftur til baka. Þá var prófað að vaða yfir á iljunum en það er lítt skemmtilegt. Úti í miðri á tók sig upp kvenlegt eðli í göngumanninum og hann skellti sér í skóna uppi á nibbu og stiklaði restina.

Niðurleiðin var löðurmannleg og engin blaðra hefur komið í ljós á iljum mínum. Ég mæli með því við alla sem eiga nokkra klukkutíma lausa að þeir skelli sér í þessa náttúruperlu og komi blóðinu á hreyfingu í fersku lofti og frábæru útsýni. Ég myndi birta myndir með færslunni ef ég kynni það.

Eftir göngutúrinn kíktum við á Hvalstöðina til þess að sjá hvort þar væri allt komið á fúllsvíng fyrir komandi átök. En ekki var þar mann að sjá. Við rennuna þar sem dýrin eru dregin upp synti mikill fjöldi seiða (ég er ekki viss, held þetta hafi verið ýsuseiði) sem spriklaði í yfirborðinu og gaman var að fylgjast með. Annars ekki mikið að sjá þar.

Svo var haldið heim á leið í kvöldsólinni.  Frábær dagur í alla staði.