Archive for the ‘Umræðan’ Category

Það eina…

desember 5, 2007

…sem er leiðinlegra en ofstækisfullur femínisti, er ofstækisfullur andfemínisti. Þar færðu sko leiðinlegt helvítis pakk.

Karl og kona

október 21, 2007

Innkoma Steinunnar Jóhannesardóttur rithöfundar í Silfur Egils í dag var hlægileg. Hjá henni kom fram sá (mis)skilningur að allar mannlegar athafnir og hugsanir skilgreinist af því hvað stendur í lagabálkum. Með því að gera hjónaband að stofnun sem ekki skilgreinist af kynferði þeirra sem eiga aðild að því telur hún að verið sé að afmá kynhlutverkin úr samfélaginu. Þetta er bull. Svo kom hún með einhver hálfköruð „svona hefur það alltaf verið og því ætti það alltaf að vera þannig áfram“ rök. Að sjálfsögðu tók hún þó fram að hún væri fylgjandi öllum réttarbótum fyrir samkynhneigða, eins og fólk gerir undantekningarlaust þegar það mælir gegn þeim.

Það var eitthvað annað þegar Gunnar í Krossinum mætti. Óháð því hvaða skoðanir hann hefur, sem ég er oft á tíðum ósammála, þá er ekki hægt að neita því að hann er með eindæmum mælskur maður og það er mjög gaman að hlusta á hann. Hann segir það sem honum finnst, umbúðalaust, og dregur ekki dul á að hann er bókstafstrúarmaður og siðapredikari. Þannig að jafnvel þó svo Gunnar hefði kallað samkynhneigða kynvillinga og talað um sódómisma kom hann langt um betur út úr þættinum en rithöfundurinn Steinunn. Reyndar var hann ekki þar til að ræða um samkynhneigð heldur nýju Biblíuþýðinguna, og ræddi aðallega um hana.

Fimmaur í lokin: Er ekki við hæfi að Svandís Svavarsdóttir verði kölluð REI-kafarinn?

Mótorhjól

júní 30, 2007

Þessi mótorhjólaumræða er einhvern veginn alltaf eins. Fyrst segja allir að mótorhjólamenn séu vondir. Svo er talað við ranga mótorhjólamenn (þessa á chopperunum) sem koma málinu ekkert við. Þeir segja: „Hey, við erum nú ekki allir svona vondir.“ Svo er það búið. En fíflin á racer-hjólunum halda alltaf áfram að keyra eins og bjánar.

Einnig virðist þetta alltaf bara snúast um hraðann, en auðvitað ætti þetta líka að snúast um það hvernig þeir fara ekki eftir neinum reglum að því er virðist. Fara yfir á rauðu, virða ekki biðskyldu, fara á milli bíla á ljósum og framfyrir og svo framvegis

Engilsaxneska

apríl 27, 2007

Í bakþönkum Fréttablaðsins í dag kemur fram að menn fái almennt aulahroll þegar Valgerður Sverrisdóttir talar engilsaxnesku. Það er ekki skrýtið, enda kannski ekki viðbúið að utanríkisráðherrann sé mjög góður í fornensku.

Annars svaf ég ljómandi vel í nótt, þakka ykkur fyrir.

Byssur og frelsi

apríl 19, 2007

Kaldhæðnisgæsalappir opnast

Sjálfsagt er að allir fái að ganga með byssur alls staðar. Það er nauðsynlegt að réttur fólks til lífs sé ekki skertur með löggjöf sem hindrar vopnaburð. Mér finnst til dæmis ótækt að takmarka löglegan vopnaburð við ákveðnar tegundir vopna. Af hverju ætti að vera löglegt að ganga með eina 9mm innan á sér en ekki AK-47? Fyrir því eru engin rök. Upp geta komið aðstæður þar sem nauðsynlegt er að geta skotið nokkrum skotum á sekúndu og venjuleg skammbyssa kæmi að takmörkuðum notum. Segjum t.d. að inn í skólastofu gangi þrír menn vopnaðir tveimur skammbyssum hver í þeim tilgangi að myrða alla í skólastofunni. Sex skammbyssur. Þjálfaður nemandi sem situr á aftasta borði með sína hríðskotabyssu gæti við slíkar aðstæður tekið þá alla út á einu andartaki. Að öðrum kosti, ef réttur hans til lífs hefði verið takmarkaður með byssulöggjöf að einhverju leyti myndi hann ekki geta varið sig og því falla í valinn.

En það eru ekki bara háskólar sem ættu að aflétta banni við skotvopnaburði. Ég nefni einnig til sögunnar barnaskóla og leikskóla. Börnin eru það verðmætasta sem við eigum og því er hvergi mikilvægara að starfsmenn séu vel vopnum búnir en einmitt þar. Ef árásarmaður heldur innreið sína í leikskóla með það í huga að myrða öll börn og starfsmenn leikskólans er nauðsynlegt að hægt sé að grípa til varna. Að öðrum kosti eru börnin okkar berskjölduð fyrir árásum ofbeldishneigðra geðsjúklinga. Það ætti því einmitt þar að vera sjálfsagt að starfsmenn séu búnir bæði skammbyssu, hníf og hríðskotabyssu öllum stundum eða slíkur búnaður sé í það minnsta tiltækur víðsvegar um viðkomandi stofnun. Að sama skapi ætti ekki að takmarka rétt foreldra sem sækja börn sín á leikskólann til þess að fara með vopn sín þangað inn. Hvað er árás er gerð einmitt þegar foreldrar eru að sækja börn sín? Á þá að hindra þá í því að vernda sín eigin börn frá morðóðum byssumönnum? Það er það sem forræðishyggjumenn vilja.

Dæmi: Börnin á Kirkjubóli eru í hádegismat. Inn gengur morðóður brjálæðingur vopnaður hríðskotabyssu með fjöldamorð á börnum í huga. Vel þjálfaður starfsmaður, búinn hríðskotabyssu getur þá hafið skothríð í átt að árásarmanninum þegar í stað og komið í veg fyrir harmleik. Allir eru ánægðir. Enginn er látinn nema sá sem ætlaði að valda öðrum skaða. Vildu menn kannski að börnin á Kirkjubóli yrðu myrt? Það vildu forræðishyggjumenn. Þeim er nefnilega sama um börnin.

Kaldhæðnisgæsalappir lokast

Engin lognmolla

apríl 18, 2007

Það er engin lognmolla í fréttunum þessi dægrin. Skotárásin í fyrradag, stórbruni í dag, kjarnorkumál Írana í algleymingi og…

…forvarnarstarf læknanema, Ástráður, hlýtur forvarnarverðlaunin 2007. Þarna má á myndinni sjá Ómar Sigurvin, strigakjaft, taka við verðlaununum fyrir hönd Ástráðs.

Ýmislegt

mars 28, 2007

The Jerry Springer Show

Ég hef átt í deilum við félaga minn undanfarið. Þær snúast um það hvort þáttur Jerry Springer sé leikinn eða ekki. Hann heldur því fram að þetta sé ekta, en ég tel að mest af þessu sé leikið.

Spaugstofan og þjóðsöngurinn

Kastljóss-Sigmar átti ágætis líkingu í því máli á blogginu sínu. Hann telur að menn ættu að setja Múhameð spámann þar inn í staðinn fyrir þjóðsöng og fána. Góður punktur hjá honum. Svo átti einhver annar þá ábendingu að virðing er áunnin og það er í raun fjarstæðukennt að lögbinda sjálfa virðingu fólks fyrir ákveðnum fyrirbærum. Annað hvort virðir fólk þau eða ekki. Ég get ekki séð að það sé beinlínis gert. En í lögum um þjóðsönginn er öll önnur meðferð á honum en sú hefðbundna bönnuð og í 1. mgr. 12. gr. fánalaganna er í það minnsta blátt bann við því að menn óvirði fánann í orði eða verki.

Engu að síður er þetta tvíeggjað sverð. Eða margeggjað (marg-eggjað, ekki mar-geggjað) ef slíkt sverð hefur einhvern tíma verið til. Ég er margklofinn í þessu máli, í herðar niður jafnvel.

Nú er það svo að fyrirbæri eins og þjóðsöng og þjóðfána mun ákveðinn hópur virða og halda mikið upp á. Næstum því óumflýjanlega mun einhver annar hópur innan samfélagsins fyrirlíta þessi fyrirbæri með jafnafgerandi hætti og fyrri hópurinn virðir þau. Annar hópurinn gerir sína afstöðu ljósa, og þá þarf hinn hópurinn að gera sína afstöðu ljósa, t.d. með því að setja upp pípuhatt í fánalitunum. Það gæti haft í för með sér álíka fána- og þjóðsöngsmenningu og er í Bandaríkjunum, þar sem heiður þessara fyrirbæra er hafður í hvað mestum hávegum. Menn klæðast fánajakkafötum og fánapípuhöttum og keyra um á bílum í fánalitunum og dreifa plakötum og miðum með fánanum á. Á hverjum íþróttaviðburði er fundin út ný leið til þess að þjösnast á þjóðsöngnum (sem fjallar um fánann nb.) með nýjum hætti – allt til þess að sýna ást fólks á föðurlandinu.

Nú gæti ég auðvitað sagt að mér væri alveg sama þótt sú yrði niðurstaðan, enda séu þetta bara skurðgoð sem ekki eigi að dýrka. En ég held að svarið sé samt á þá leið að mér sé ekki sama. Þessi bandaríski fánakúltúr hefur lengi farið í mínar fínustu. Ég verð samt að hafa þann fyrirvara á að ég veit ekki hvort fánamenningin þar vestra er vegna skorts á reglum um þetta, eða út af einhverju allt öðru.

Ég gæti semsagt verið fylgjandi reglum um þessi atriði af því að ég nenni ekki einhverjum hallæriskúltúr með þessi fyrirbæri. Hins vegar væru ástæðurnar ekki þær að ég og Una höfum alltaf fánahyllingu við sólarupprás og fellum tár saman þegar þjóðsöngurinn er sunginn á Laugardalsvelli. Grínið hjá Spaugstofumönnum særði mig ekki, mér fannst það frekar fyndið reyndar.

Þróunarkenningin

Skv. þessari mynd sem ég veit ekki hvort er áreiðanleg trúir minnihluti Bandaríkjamanna á þróunarkenninguna. Nú á ég líka í vandræðum með að gera það upp við mig hvort þessi og þessi séu að leika í grínþætti eða hvort þeir eru í alvörunni að reyna að sannfæra einhvern. Úff.

Ýmislegt

mars 20, 2007

Þessi færsla er ekki hugsuð sem samfelld pæling, bara nokkur atriði sem ég hef verið að pæla í undanfarna daga:

Víglundur Þorsteinsson sagði í Silfrinu á sunnudaginn eitthvað á þessa leið: 

,,Það er ekkert út frá Ríó-yfirlýsingunni og  þeim glóbölu skuldbindingum sem við höfum undirgengist sem þjóð sem segir annað en að Kárahnjúkavirkjun sé vatnsaflsvirkjun, uppfylli í einu ög öllu skuldbindingar um sjálfbæra þróun. Þá fóru menn að rífast og segja lónið fyllist á 400 árum. Og þá segi ég bara á móti, bíddu það má þá bara finna á 400 árum nýtingarmöguleika á leirnum og eðjunni sem sest til í lóninu. Það eru ýmsir kostir örugglega til í því…[]…það er ábyggilega ýmislegt sem hægt er að finna. Það eina sem ég er að segja…taka þessa umræðu úr þessum þraspotti og nálgast hana út frá uppbyggilegri framtíðarsýn. Ég ætla bara að segja þetta nákvæmlega svona: Ef við ekki nýtum okkar orkulindir á þessari öld og komandi öldum þá göngum við til baka og stopp á stóriðjuframkvæmdum og frestun á stóriðjuframkvæmdum þýðir stöðnun og stöðnun snýst svo yfir í samdrátt og samdráttur þýðir kauplækkun, samdráttur þýðir fækkun starfa, verðhjöðnun, verðlækkun á fasteignum…”

Áhugavert að Víglundur geti tekið “eitthvað annað”-pólinn eða ”þetta reddast”-pólinn þegar hann ræðir um hálandaleðjuna. Voðalega svipað því að segja “já menn verða bara að vinna við eitthvað annað en stóriðju”.

Við gerum bara eitthvað, þetta reddast mar. Þar af leiðir: Kárahnjúkavirkjun fellur undir sjálfbæra nýtingu auðlinda skv. Víglundi.

Framtíðarlandið vill að landsmenn og þingmenn skrifi undir sáttmálann sinn. Einhverjir hafa veitt því athygli að sáttmáli er oftar en ekki einhvers konar tvíhliða gerningur en ekki plagg sem einn semur og lætur aðra skrifa undir. Það er eitthvað til í þessu, enda sáttmálinn kannski helst til efnismikill. Gat nú gerst, menn eru eflaust svo innblásnir á fundum að þeir geta ekki sett tappann í byttuna.

Fyrsti punkturinn er blaður, og þriðji punkturinn veldur deilum. En annar punkturinn er góður. Af hverju ekki að láta hann duga? Það er heilbrigð skynsemi að skoða fyrst hverju maður ætlar að halda, og fórna svo rest, en ekki öfugt. Flestir ættu að geta skrifað undir punkt númer tvö. Þingmenn og borgarar vilja hins vegar yfirleitt ekki skrifa undir eitthvað sem þeir eru ósammála eða eitthvað sem þeim þykir vera innihaldslaust blaður og “eitthvað annað”-málflutningur. 

Andri Snær er hins vegar mjög sáttur við sáttmálann og segir að það sé þá bara þeirra mál sem ekki vilji skrifa undir hann ef þeir finna einhvers staðar deal-breaker. Þeir verði þá bara að rökstyðja þá ákvörðun sína. Núnú…ég hélt að tilgangurinn væri sá að ná samstöðu um eitthvað, ekki að finna frumlega leið til þess að geta haldið áfram að rífast um ókomin ár…

Framtíðarlandið eru reyndar samtök sem vilja draga umhverfisverndarumræðuna upp úr þraspottinum eins og Víglundur, eða gefa sig út fyrir það. Lyfta henni á hærra plan. Hugmyndirnar í sáttmálanum eru góðra gjalda verðar. Hins vegar er markaðsfræðingurinn þeirra ekki að hjálpa til með því að hanna þetta “grátt eða grænt” slagorð og merki. Það setur annað-hvort-eða brag á málflutninginn og fólk sem nennir varla að lesa sáttmálann er ekki heillað með þessu merki. Malbik eða blóm, veldu!

Um mitt blogg og annarra

mars 12, 2007

Undanfarin misseri hef ég mjög litla nennu haft í að skrifa um stjórnmál og almenn málefni sem eru í umræðunni hverju sinni. Nokkrum sinnum hef ég skrifað slíka færslu og svo strokað það allt út því mér finnst ég engu hafa við að bæta o.s.frv. Það er frekar að ég skrifi um eitthvað sem mér finnst smávægilegt.

En ég les nú moggabloggið eins og aðrir og mun nú hafa alltof mörg orð um það. Um Smáralindarbæklinginn mætti segja, eins og einhver er eflaust búinn að segja, að þrátt fyrir ofsafengna framgöngu lektorsins góða er forsíðumyndin dálítið skrýtin. Sennilega hefði ég ekki leitt hugann að því nema vegna þess að umræðan kom upp, en myndin sendir að mínu mati samtímis út ósamræmanleg skilaboð. Þetta er fermingarþema og fermingin gengur víst út á að komast í fullorðinna manna tölu (eða er eitt skref á þeirri leið).

Klæðnaðurinn á stelpunni er fullorðinslegur og kannski meira í átt við klæðnað á 18-20 ára manneskju en fermingarbarni (háir hælar, háir sokkar, þröngar buxur usw.) en stellingin er á sama tíma einhvers konar vísun í Línu langsokk að sögn fulltrúa Smáralindar. Persónulega fannst mér stellingin ekki kynferðisleg. En svo er stelpan umkringd einhverjum böngsum og taufígúrum. Og hvað er þá myndin að sýna? Maður veit það ekki alveg, stelpu sem hermir eftir Línu langsokki, leikur sér að böngsum en klæðir sig samt eins og hún sé tvítug. Slík mynd gefur einhvers konar blendin skilaboð og býður upp á hvers kyns túlkun, saklausa og ekki svo saklausa. Það ræðst af þeim sem á horfir. Þá hefði verið betra að leggja áherslu á „námsmanninn“ eða „íþróttamanninn“ eða einhvern æskilegan hluta af lífi unglings sem ætlar sér að verða eitthvað í lífinu; mynd sem er flott en jafnframt eindregin og býður aðeins upp á þá túlkun átti að koma áleiðis og enga aðra. Unglingur er þegar allt kemur til alls einhvers konar millistig á milli barns og fullorðinnar manneskju og því þýðir ekkert hálfkák þegar kemur að þeim skilaboðum sem við gefum þeim, og þeim skilaboðum sem við látum gefa frá sér.

Ætli málið sé ekki bara að myndin á forsíðunni sé frekar vanhugsuð (eins og viðbrögð lektorsins) og kannski frekar innantóm. Það er alveg hægt að gagnrýna þessa mynd, svo mikið er víst.

Sami lektor talar á blogginu sínu um Kastljósið og hvernig það blandar saman sorglegum umfjöllunarefnum og léttara efni. Við lesturinn skynjaði maður að slíkt virðist fara mjög í taugarnar á henni. Að viðtöl við þolendur ofbeldis væru sýnd í sama þætti og dansatriði eða viðtal við leikskáld um nýtt leikrit þótti henni ekki gott. Þannig væri verið að þvinga fólk til þess að hlæja ofan í þjáningar Breiðavíkurdrengjanna, og að Breiðavíkurmálið væri sett í „skemmtilegt samhengi“!

Þessu er ég ósammála. Áhorfendur hafa í fyrsta lagi fjarstýringu við höndina og geta lækkað í tónlistaratriðinu eða skipt um stöð ef þeir eru eftir sig eftir alvarlegt viðtal. Það gerði ég í það minnsta eftir einhver Breiðavíkurviðtöl. Í öðru lagi er það ekkert samhengi að eitt atriði komi á eftir öðru. Það er einkenni þáttar eins og Kastljóss, samanborið við t.d. leikið efni, að næsta atriði er einmitt ekki í neinu samhengi við það sem á undan fór. Í tilfelli Kastljóssins virkar það ágætlega. Breiðavíkurviðtöl voru ekkert „álegg í samloku skemmtiatriða“ eins og hinn meistaralega ósmekklegi lektor hélt fram á blogginu sínu.

En það er samt samræmi í þessu hjá henni, þ.e. skoðun hennar á Kastljósinu og viðbrögð hennar við fermingarbæklingnum. Viðbrögðin voru ofsafengin og vanhugsuð, og hvort tveggja særandi fyrir stelpuna á myndinni og mjög til þess fallin að grafa undan málstað og trúverðugleika róttækra feminista og væta „bitrar piparjúnkur“-stimpilinn úr bleki. Það er því óhentugt fyrir hana að jafnólík atriði séu sýnd hvert á eftir öðru í Kastljósinu. Þau krefjast þess að hún dansi með fyrir framan sjónvarpið þegar salsaatriðið er í gangi, gráti svo með ekkasogum yfir viðtalinu, skellihlæi svo að leikna innslaginu og slái sér á lær í lokin. Þetta er henni ofviða, hún nær sér ekki úr „samhenginu“ og hlær í gegnum allt viðtalið (ósmekklegt hjá mér?).

Ég efast um að það hefði verið betra hjá Kastljósinu að helga heilan langan þátt málinu og sýna öll viðtölin á einu eða tveimur kvöldum, svo bloggarar eins og lektorinn gætu sest við lyklaborðið að lítt athuguðu máli og viðhaft stóryrði og fúkyrði. Þess í stað var umfjölluninni dreift á mörg kvöld og fólk látið átta sig á því sem var verið að segja frá smátt og smátt.

Kannski hefði verið betra að sýna henni myndina af forsíðu fermingarbæklingsins smátt og smátt, einn bita úr púsluspilinu á hverju kvöldi, og leyfa henni að átta sig á myndinni smátt og smátt. Þá hefði hún kannski ekki þurft að taka færslurnar sínar út af blogginu og skapa sér slæma ímynd.