Archive for the ‘Skólinn’ Category

Öggi

janúar 9, 2008

Maður sendir email. Pósturinn virkar þannig að viðtakandinn sér nafn manns í skilaboðalistanum hjá sér, eða netfangið sem sent er úr. Netfangið er samhljóða nafni manns. Maður ávarpar viðtakandann. Maður kemur erindinu á framfæri.  Maður skrifar undir:

Kveðja,
Önundur.

Viðtakandi svarar. Viðtakandi ávarpar mann:

Sæll,
Ögmundur.

Manni fallast hendur.

Frasi kvöldið fyrir próf

desember 19, 2007

Þetta fer allt einhvern veginn á endanum, þó svo margur efist um það á tímabili.

Háskólatorgið

október 17, 2007

Tillögur þær sem ég sendi inn í nafnasamkeppni um háskólatorg voru eftirfarandi:

Draslið fyrir aftan Lögberg – Bakgarður (heimilislegt og notó)
Draslið á milli – Miðgarður (vísun í norræna goðafræði (og gamla búð á Garðatorgi þar sem nú er Hagkaup), þykir það ekki alveg megasmart?)
Draslið hjá Odda – Forgarður (minnir svolítið á helvíti, sem gæti talist neikvætt, tek það á mig).
En þetta var heildstæð tilltaga.

Niðurstöður urðu hins vegar þær að húsin munu heita Háskólatorg, Tröð og Gimli. Háskólatorg er náttúrulega nafn sem ekki á að veita peningaverðlaun fyrir. Í það minnsta ekki Gunnari Páli Baldvinssyni.  Þar að auki eru 100.000 krónur slík upphæð að enginn hefur gott af því að öðlast hana einn. Fólk verður einfaldlega brjálað af því að handleika svo fáránlega háar upphæðir. Réttara hefði verið að skipta þessu niður á milli allra hálfvitanna sem sendu inn nafnið „Háskólatorg“ í samkeppnina.

Tröð er svo annað slysið. Hvernig á nútímafólk að nota svona orð? ,,Zælar. Nei, ég verð kominn eftir fimm beibí, er bara í fekkin Tröð núna. Ok. Blenzig.“ Nú er bleik brugðið ef mönnum þykir þetta ganga upp.

Gimli, snobbað fyrir Vestur-Íslendingum. How low can you go? Þetta eru afkomendur liðhlaupa og föðurlandssvikara.

Rectum Háskóla Íslands segi af sér hið snarasta.

Próflok nálgast

maí 9, 2007

Í fyrramálið er síðasta prófið. Þá hef ég þreytt fimm próf síðan á mánudaginn í síðustu viku. Nokkuð þétt próftafla enda bara fimm skyldukúrsar teknir og þeir virðast raða þeim öllum fyrst á töfluna, en valið kemur svo á eftir. Ég held að þetta hafi farið ágætlega hingað til og hagfræðikrossaprófið í fyrramálið skelfir mig svosem ekki.

Næstu vikur eru svo nokkuð rækilega skipulagðar, en það fyrsta sem ég geri verður að fara í klippingu og láta skerða makkann. Eins og kunnugir vita er ég með eindæmum hárprúður maður.

Uppvöxtur litla trés

apríl 29, 2007

Þar sem ég sit hér við gluggann í lesherberginu og þykist vera að læra sé ég að tréð sem ég fékk úr garði foreldranna síðasta vor er byrjað að laufgast. Mér tókst nefnilega að taka gríðarlega stóran moldarhnaus með því og það hefur sennilega ekkert tekið eftir því að það er ekki lengur í Garðabænum, heldur niðri í miðbæ. Eflaust skemmir heldur ekki fyrir að loðni, flækti, kaldi og hrakti fresskötturinn úr næsta húsi skítur reglulega í beðið og leggur þannig sitt af mörkum.

Ég er orðinn gersamlega sjúkur í sumarið. Þessi próf eru að flækjast alveg svakalega mikið fyrir mér. Get ég ekki tekið þau seinna bara?

Ég er búinn að ákveða hvað ég geri eftir prófin. Þann ellefta verð ég í vinnunni, þann tólfta kýs ég og þann þrettánda fer ég í hjólreiðatúr eitthvað út fyrir borgarmörkin. Fjórtánda til átjánda verð ég í vinnunni vonandi og þríf húsið á kvöldin. Helgina nítjánda til tuttugasta ætti maður kannski að smella sér á Kárahnjúka með einhverjum góðum mönnum.

Svo eigum við von á amerískum og hondúrískum (?) gestum í vikunni þar á eftir. Það eru þau Lasheena og Pablo. Planið er að sýna þeim eitthvað skemmtilegt, láta þau synda í Seljavallalaug og grilla fyrir þau og svona, áður en þau halda áfram í Evrópuför.

Seljavallalaug

Aaaahhhh! Sumar. Núna. Takk.

Tölvulaus lærdómur

apríl 26, 2007

Undanfarna daga hef ég lært án tölvunnar. Hef farið upp á hlöðu einungis með eina námsbók, eina stílabók og tvo penna. Þetta er að gefast mjög vel. Hins vegar var hann ekki að gera sig, svakalegi hausverkurinn sem ég fékk um kaffileytið í dag. Hann einbeitti sér helst að hægra auganu í mér. Það virtist ætla út úr höfðinu þegar verst lét. Það var slæmt því í heildina stefndi dagurinn í að verða svakalegur hvað afköst varðar. Voltaren og svefn gerðu út af við hausverkinn, en einnig daginn. Kannski maður nái nokkrum blaðsíðum núna.

Fæðing ritgerðar

apríl 11, 2007

Útvíkkun 10. Þetta er allt að koma. Bara anda, anda, anda. Og anda, anda, anda.

Tveir kaffibollar og súkkulaði klukkan 01.00 koma mér greinilega langt inn í nóttina. Ég er  bara furðulega hress. Þetta var reyndar hressilegt kaffi. Göróttur drykkur.

Úúúú

febrúar 14, 2007

Færustu heimspekingar reita nú hár sitt yfir stöðunni sem ég er í:

Ég nenni ekki á árshátíð skorarinnar því ég þekki engan í skorinni.

Ég þekki engan í skorinni af því að ég fer ekki á árshátíðina.

Það er enginn tími

desember 14, 2006

Já ég skila ritgerðinni eftir svona tvær vikur. Segjum þrjár. Hún kemur allavega fyrir kennslulok. Pottþétt fyrir prófið samt…eða jólin. Segjum fyrir áramót bara. Allir sáttir bara?

9000 manns – ein ruslafata

nóvember 13, 2006

Una er alls kostar ósátt við smæð ruslatunnunnar í nestishorni Þjóðarbókhlöðunnar – Landsbókasafnsins – Háskólabókasafnsins. Hafði hún á orði hér fyrir skömmu að það væri óásættanlegt að í 9000 manna stofnun eins og Háskóla Íslands væri einungis ein ruslafata. Þrátt fyrir að sæta gagnrýni vildi hún þó hvergi hvika frá þeirri fullyrðingu og naut fulltingis systur sinnar.

Una byggir undir skoðanir sínar með því að ýkja aðstæður lítið eitt.