Archive for the ‘Skipulag’ Category

Sundreglur

apríl 10, 2008

Hversu lengi á anarkískt ástand að vara í sundlaugum borgarinnar? Þegar kemur að sundinu sjálfu er regluverki verulega ábatavant og öllum almenningi gert að pluma sig án nokkurrar aðkomu ríkisvaldsins. Umferðarreglur eru ekki skráðar, en einstaka sinnum eru þó ákveðin viðmið birt nálægt sundstaðnum, án þess þó að framkvæmdavaldinu hafi verið fengið neitt vald í hendur, formlega, til að fylgja þeim eftir.

Hin óskráða regla er þessi: Synt skal hægra megin á brautinni. Brautina skal hugsa sem afar ílangt sporöskjulagað form. Þetta er því í raun hringferð, þó svo synt sé fram og aftur brautina. Þessu eiga sundgestir vægast sagt afskaplega erfitt að átta sig á. Þeir virðast margir hverjir halda að eitthvað sé til sem heiti að „ná brautinni“ og að þeir hafi hana þá „út af fyrir [sig]“.

Látum nú svo að þessi yfirmátaheimskulega og pirrandi hugsun sé sú rétta og tökum Sundhöll Reykjavíkur sem dæmi. Sé þetta svo er Sundhöll Reykjavíkur ætluð fyrir fjóra í einu. Ekki er pláss fyrir fleiri í lauginni á hverjum tíma, þar sem allar brautir eru uppteknar.

Það versta er þó að þegar réttvísir borgarar reyna að halda uppi hinum óskráðu reglum virðast aðrir sundgestir oft eiga mjög erfitt með að átta sig á því hvað er að gerast. Þeim finnst að verið sé að ráðast inn á brautina sína, og skilja ekki af hverju innrásaraðilinn syndir stundum „hérna“ megin á brautinn, en stundum „þarna“ megin. Þeir sjá ekki kerfið. Hérna megin fram, þarna megin til baka. Hérna megin fram, þarna megin til baka. Þetta er ofar þeirra skilningi. Þeir gera ekkert til að laga breytni sína að kerfinu.

Nú lét ég sverfa til stáls um daginn þar sem kvinna ein hegðaði sér með þessum hætti á braut sem ég hafði „ruðst inn á“. Ég vék aldrei fyrir henni þegar hún kom vitlausu megin á móti mér. Það endaði með því að hún var farin að hanga í línunni þegar ég synti framhjá, og eftir skamma hríð hörfaði hún upp úr lauginni og horfði illilega á mig við brottför.

Ég bíð spenntur eftir því að einn þessara stefnulausu ræfla láti í sér heyra og reyni að reka mig af brautinni sinni. Þegar að því kemur mun ég hella úr skálum reiði minnar.

Tillaga að skiptingu

október 29, 2007

Fyrir tveimur dögum viðurkenndi ég fyrir höfuðandstæðingi mínum að brátt færi að hausta. Hann hefur sagt haustið komið síðan snemma í ágúst, en ég hef ekki viljað gefa mig. Á laugardag sendi ég honum skilaboð þar sem viðurkennt var að brátt færi að hausta. Í dag er snjókoma. Þessi fyrsta efnisgrein er til þess gerð að renna stoðum undir tillögu mína, þar sem ég ber greinilega yfirburðagott skynbragð á gang himintunglanna og veðurkerfis jarðarinnar.

Tillagan er þessi:  Árstíðir skulu ekki miðast við fasta mánaðardaga eða fyrstu vikudaga með ákveðnu heiti í hverjum mánuði, eða aðra rökleysu. Árstíðamót skulu vera færanleg með tilliti til veðurfari á hverju ári. Hafa þarf í huga að skiptingin þarf líka að stuðla að heilbrigðu hugarfari og uppbyggilegu. Þá er hugtakanotkun öll tekin upp að erlendri fyrirmynd og hugmyndir okkar um hvernig „stemmning“ eigi að vera á hverjum tíma einnig fengnar að utan. Til dæmis má nefna að svokallaðir haustlitir birtast hér á landi ekki að hausti til, heldur síðsumars.

Sá skaðlegi hugsunarháttur að meta allt út frá dagatalinu hefur læst sig um of í huga fólks. Til dæmis bað ég Unu um að nefna hvenær sér þætti vorið hefjast, út frá náttúrufarslegum þáttum en ekki dagsetningum. Hún varð brjáluð og öskraði bara „APRÍL! APRÍL! APRÍL!“ og þusti svo út, reytandi hár sitt. Þessari sturlun verður að linna.

Tillagan:

1. Haust hefst þegar það byrjar að snjóa og þegar haustlitir hafa dofnað niður í daufa brúna tóna og laufblöð eru flest fallin af trjánum. Haustið er stutt tímabil, enda vill enginn hafa haust. Við tengjum það elli og dauða.

2. Vetur hefst þegar snjó fer að festa á jörðu lengur en 1-2 sólarhringa í senn. Góður mælikvarði er einnig þegar veðurfarinu hefur tekist að brjóta lífsviljann úr einærum plöntum. Þær eru þess eðlis að þær kunna ekki að leggjast í dvala heldur streitast við að vaxa og blómstra. Á endanum frýs vatnið í æðum þeirra og þær drepast. Þá er kominn vetur.

3. Vorið kemur þegar snjóa leysir. Þetta er ákveðin slabbtíð, og stendur frá því löngu áður en grasið fer að grænka í gegnum alls kyns sveiflur og þar til gras er orðið nokkurn veginn grænt víðast hvar og lauf á helstu runnum og trjám farin að springa út.

4. Þá hefst sumar. Sumar stendur allt græna tímabilið og í gegnum hið rómaða haustlitatímabil. Til dæmis má nefna, fyrir dagatalssjúka, að meðalhiti var meiri í september í fyrra en í júní í fyrra. Þó deilir enginn um það að í júní er sumar.

Lesandi góður, taktu þetta kerfi upp. Þú munt ekki sjá eftir því. Þetta virkar svipað og „The Secret“. Þú mun eignast gírahjól ef þú ferð eftir þessu.

Hvar er Magnús?

október 18, 2007

Sú spurning hefur gerst áleitnari í vikunni. Magnús Davíð Norðdahl, knastás lífs míns, fluttist til Ungverjalands nú síðsumars (vek athygli á því að enn er síðsumars). Frá því að hann fór hefur lítið til hans spurst. Ég hef sent honum tölvupóst en engin svör fengið. Skilið eftir skilaboð í spjallforritum, en ekkert hefur gerst. Kenning Unu er sú að ekkert internet sé í Austur-Evrópu en kenning mín er sú að Magnús sé einfaldlega ekki þar, heldur liggi í leyni einhvers staðar í Kópavogi.

Ég framkvæmdi austantjaldsleit að Magnúsi rétt í þessu með hjálp Google. Leitin skilaði engu, sem bendir sterklega til þess að önnur kenningin sé hin rétta. Sjá mynd:

Hvar er Magnús?

Háskólatorgið

október 17, 2007

Tillögur þær sem ég sendi inn í nafnasamkeppni um háskólatorg voru eftirfarandi:

Draslið fyrir aftan Lögberg – Bakgarður (heimilislegt og notó)
Draslið á milli – Miðgarður (vísun í norræna goðafræði (og gamla búð á Garðatorgi þar sem nú er Hagkaup), þykir það ekki alveg megasmart?)
Draslið hjá Odda – Forgarður (minnir svolítið á helvíti, sem gæti talist neikvætt, tek það á mig).
En þetta var heildstæð tilltaga.

Niðurstöður urðu hins vegar þær að húsin munu heita Háskólatorg, Tröð og Gimli. Háskólatorg er náttúrulega nafn sem ekki á að veita peningaverðlaun fyrir. Í það minnsta ekki Gunnari Páli Baldvinssyni.  Þar að auki eru 100.000 krónur slík upphæð að enginn hefur gott af því að öðlast hana einn. Fólk verður einfaldlega brjálað af því að handleika svo fáránlega háar upphæðir. Réttara hefði verið að skipta þessu niður á milli allra hálfvitanna sem sendu inn nafnið „Háskólatorg“ í samkeppnina.

Tröð er svo annað slysið. Hvernig á nútímafólk að nota svona orð? ,,Zælar. Nei, ég verð kominn eftir fimm beibí, er bara í fekkin Tröð núna. Ok. Blenzig.“ Nú er bleik brugðið ef mönnum þykir þetta ganga upp.

Gimli, snobbað fyrir Vestur-Íslendingum. How low can you go? Þetta eru afkomendur liðhlaupa og föðurlandssvikara.

Rectum Háskóla Íslands segi af sér hið snarasta.

„Ég kem eftir tvær mínútur, bara tvær“

júlí 6, 2007

Þetta er algjörlega merkingarlaust orðalag. Aldrei hefur maður sem segist koma eftir tvær mínútur, raunverulega mætt eftir tvær mínútur.

Síðuhaus

júní 30, 2007

Síðuhaus hljómar eins og ægilegt lýti á mannslíkama. En hér er átt við efsta hluta netsíðu sem þessarar. Hér var í nokkra daga rauður haus með rjómaþema. Hann hlaut ótrúlega dræmar viðtökur miðað við gæði. Svo virðist sem lesendur kunni ekki lagið:

Mér þykir góður rjómi,

hann er það besta sem ég fæ.

Síðan kemur reyktur, steiktur lundi.

Síðan kemur loðið skott af hundi.

Síðan vakna ég af værum blundi,

buxnalaus!

Hér hefi ég því sett upp nýjan haus. Þetta er Hreðavatn. Njótið.

…svo iðrin lágu úti

apríl 30, 2007

Það er ekki skemmtilegt að uppáhaldsgallabuxurnar mínar eru farnar á gefa sig á versta stað. Einmitt á staðnum þar sem saumar skálmanna og klaufarinnar mætast í krossgötum á milli læra mér.

Það verður að segjast

apríl 23, 2007

…að reiturinn þar sem Ungfrú Kebabpravda var áður er kjörinn til þess að reisa hátt hús með hornturni sem rímar við apótekið. Slíkt myndi gerbreyta mynd Lækjartorgs, ljótasta staðar á landinu. Eina vesenið er að þá verða Hressó og Ömmukaffi eins og pönnukaka á milli bókabúðarinnar og nýja hússins og berir húsgaflar gína yfir öllu sitthvoru megin. Það er þó auðleyst vandamál. Erró er fenginn til þess að mála myndir á húsgaflana. Ég sé fyrir mér Wonderwoman að kyrkja Maóista með lærunum á meðan Jörundur hundadagakonungur fylgist íbygginn með.

Þá verður kominn ferhyrningur með þremur turnum, Borginni, Apótekinu og nýja húsinu. Þá er ekki annað að gera en bíða eftir því að Kínahúsið fuðri upp einn daginn og menn geta byrjað á fjórða turninum.

Turnar eru málið. Viðurkennið það.

Ungverska þinghúsið

Symmetría, symmetría, symmetría!