Archive for the ‘Rýni’ Category

Kommúnan – Tillsammans

febrúar 23, 2008

Farið var á Kommúnuna í Borgarleikhúsinu í gær, á nýja sviðinu. Áhorfendapallar voru beggja megin sviðsins, leikmyndin trégrind á þremur hæðum með hálfgegnsæjum tjöldum sem hægt var að draga til og frá. Allt innvols í grindinni var síðan hippalegt, gólfpúðar, óróar, hengirúm og slíkt.

Það var margt gott í þessari sýningu. Hún var skemmtileg og vel leikin. Mæli með henni við hvern sem er. Hins vegar er ég kannski þannig gerður að ég vil sterkari framvindu og meiri sögu í leikritinu. Þessi sýning gekk meira út á að skapa ákveðna stemningu og vera með margvíslegar vísanir í fortíðina. Jú, svo var auðvitað saga líka en það fór samt ekki mjög mikið fyrir henni.

Það gerði þó ekki til, enda megintilgangurinn að gera grín að marxískum hugsjónum og því fáránlega bulli sem verður útkoman, sé þeim fylgt í öllu daglegu lífi. Ég hló nokkrum sinnum upphátt, en aldrei neitt svona skelli-skelli.

Töluverð nekt var á sviðinu, samtals tvær píkur og einn tilli. Það var þó ekkert hneykslanlegt, en í hvert skipti sem einhver var nakinn horfði ég alltaf á gömlu konuna sem sat á fremsta bekk hinum megin við sviðið, til þess að sjá hver hennar viðbrögð yrðu. Hún var alveg svona grátt-hár-í-hnút-með-prjón-í-gegn gömul. Hún kippti sér hins vegar ekkert upp við þetta, til allrar hamingju.

Í heildina fannst mér íslensku leikararnir betri en þeir erlendu. Kannski eru það einhverjir tungumálaerfiðleikar eða eitthvað, en Gael Garcia Bernal karakterinn fannst mér pínulítið pirrandi til lengdar vegna sinna hikorða (why..what…you…i mean…this is…aahh). Það var eflaust hluti af því að hann átti alltaf að vera út úr reyktur, en mér fannst það bara ekki virka alveg nógu vel. Varð meira eins og alvöru hik.

Ég var mest að fíla Ólaf Darra og Nínu Dögg. Þau eru flott, hún tók þarna til dæmis mjög reiðan dans á einum tímapunkti. Ég fílaði dansinn.

Þunglamalegt taktleysi

febrúar 21, 2008

Sundmaður: Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi
Staður: Sundhöllin
Frumsýning
Einkunn: Hálf stjarna
Sýningin í hnotskurn: Handónýtt drasl

————————–

Það var mikil eftirvænting í loftinu þegar Jón Viðar bjó sig til að synda nokkur hundruð metra í Sundhöllinni nýlega. Fjölmargir gestir voru í Sundhöllinni þennan dag og biðu margir óþreyjufullir eftir sundtökum Jóns.

Skemmst er frá því að segja að áhorfendur urðu fyrir vonbrigðum. Taktleysið var algjört. Jón synti einhvers konar hálfgildingsskriðsund, enda notaði hann illa útfærðar skriðsundshreyfingar til að knýja sig áfram en náði þó ekki hraða bringusundsins. Þar að auki var skeytingarleysi hans gagnvart ofureinföldum umferðarreglum sundlauga algjört. Við grynnri enda laugarinnar er skýringarmynd sem gefur til kynna að hægri umferð sé á brautunum, menn skuli synda hring, en ekki fram og til baka sömu línu. Þetta er eðlilegt því annars væri laug sem er u.þ.b. 300 fermetrar að flatarmáli einungis gerð fyrir um sex manns.

Engin leið var að synda í lauginni fyrir þessum sundmanni. Ég hafði borgað mig inn fyrir heilar 250 krónur, m.v. eina komu á 10 komu korti sem kostar 2.500 krónur. Sýningin var ekki þess virði. Sundhöllin verður að bjóða upp á betri sýningar, vilji hún kalla sig háborg sundmenningar á Íslandi.

Málfars

október 15, 2007

Orðið „þolinmæði“ virðist nú æ oftar ritað með vaffi. Þvolinmæði. Það er furðulegt.

Sú tilhneiging manna að kalla allt ferli er líka skemmtileg. Nýtt ferli sem ónefndur ofurbloggari Íslands notar í einni af sínum nýjustu færslum er biðferli. Semsagt ferli sem gengur út á bið. Biðferlið er þá væntanlega eins konar innskotsferli í hinu eiginlega ferli, sem getur verið hvað sem er, kannski að gifta sig. Ef kirkjan er fullbókuð langt fram í tímann tekur við biðferli, en ekki bið, eftir kirkjunni. Svo kallar hann „það að gifta sig“ hjónabandsferli. Ferli, ferli, ferli, ferli.

Af hverju ert þú að leita?
– af hverju? af því bara!
Nei ég meina, af hverju ertu að leita?
– af þessum hól.
Hvað meinarðu?
– hvað meina ég? ég týndi hjólinu mínu og það er gott að leita að því af þessum hól. Hér er víðsýnt mjög.

Ruby Tuesday

september 25, 2006

Kvöldmaturinn í gær var snæddur á Ruby Tuesday uppi á höfða. Það arma hreysi fær nú ekki margar stjörnur í þetta skiptið. Þó svo þjónustan væri ágæt og borgarinn bragðgóður, þá var frönskuskammturinn herfilega lítill og pastaréttur Unu hálfkólnaður og alltof dýr. Falleinkunn hjá Ruby Tuesday. Fuss.