Archive for the ‘Pólitík’ Category

Baráttan um völdin

janúar 22, 2008

Nú þegar Ólafur Ragnar Grímsson og Ólafur F. Magnússon eru báðir við völd, og Ólafur Börkur Þorvaldsson stefnir ótrauður á forseta hæstaréttar á næstu árum, er aðeins einn veikur hlekkur í samsæri Ólafa um valdatöku á landinu. Það er enginn Ólafur inni á þingi, nema Ágúst Ólafur. Ólafur G. Einarsson, Ólafur Örn Haraldsson og fleiri dyggir liðsmenn Ólafanna gerðu heiðarlegar tilraunir en náðu sínu ekki fram. Guðjón Ólafur Jónsson hefur algerlega spilað sig út í horn, og Ólafur Jóhannesson toppaði náttúrulega á kolvitlausum tímapunkti. Mögulega gætu Ármann Kr. Ólafsson og Kjartan Ólafsson verið með óhreint mjöl í pokahorninu, en um það skal ekkert sagt.

Ég veit bara að í hvert skipti sem ég heyri nafnið Ólafur fer ákveðin viðvörunarbjalla í gang í höfðinu á mér. Sem er auðvitað bara eðlilegt.

Hver er þessi Jakob?

desember 4, 2007

Hver er þessi Gunnlaugur?

Hver er þessi Dagur?

Margt hefur gerst

maí 26, 2007

…síðan ég skrifaði hér síðast, bæði í landinu og hjá mér. Ekki ætla ég að telja það allt upp, en m.a. kláraði ég prófin, kaus, varð nokkuð ánægður með niðurstöðuna, fór í hringferð um landið, fékk útlendinga í heimsókn, fór í ferð um gullna hringinn og um suðurland að Vík.

Vinnan byrjar á þriðjudag. Ég á afmæli á morgun.

Ég mæli með:

Íslandi. Þeir sem ekki hafa farið þangað drífi sig sem fyrst.

Hann á afmæli í dag

maí 8, 2007

JFM lét gesti á karlakvöldi FH víst syngja fyrir sig afmælissönginn þegar hann mætti þangað ásamt frambjóðendum annarra flokka og fékk að halda stutta ræðu. Hefði maður sungið með?

Að fá spurninguna ,,hvað með að hafa JFM á framboðslista?“ er í mínum huga eins og að fá spurninguna ,,viltu ekki örugglega fá mysing á pizzuna?“

Ha, mysing? Nei.

Ýmislegt

mars 20, 2007

Þessi færsla er ekki hugsuð sem samfelld pæling, bara nokkur atriði sem ég hef verið að pæla í undanfarna daga:

Víglundur Þorsteinsson sagði í Silfrinu á sunnudaginn eitthvað á þessa leið: 

,,Það er ekkert út frá Ríó-yfirlýsingunni og  þeim glóbölu skuldbindingum sem við höfum undirgengist sem þjóð sem segir annað en að Kárahnjúkavirkjun sé vatnsaflsvirkjun, uppfylli í einu ög öllu skuldbindingar um sjálfbæra þróun. Þá fóru menn að rífast og segja lónið fyllist á 400 árum. Og þá segi ég bara á móti, bíddu það má þá bara finna á 400 árum nýtingarmöguleika á leirnum og eðjunni sem sest til í lóninu. Það eru ýmsir kostir örugglega til í því…[]…það er ábyggilega ýmislegt sem hægt er að finna. Það eina sem ég er að segja…taka þessa umræðu úr þessum þraspotti og nálgast hana út frá uppbyggilegri framtíðarsýn. Ég ætla bara að segja þetta nákvæmlega svona: Ef við ekki nýtum okkar orkulindir á þessari öld og komandi öldum þá göngum við til baka og stopp á stóriðjuframkvæmdum og frestun á stóriðjuframkvæmdum þýðir stöðnun og stöðnun snýst svo yfir í samdrátt og samdráttur þýðir kauplækkun, samdráttur þýðir fækkun starfa, verðhjöðnun, verðlækkun á fasteignum…”

Áhugavert að Víglundur geti tekið “eitthvað annað”-pólinn eða ”þetta reddast”-pólinn þegar hann ræðir um hálandaleðjuna. Voðalega svipað því að segja “já menn verða bara að vinna við eitthvað annað en stóriðju”.

Við gerum bara eitthvað, þetta reddast mar. Þar af leiðir: Kárahnjúkavirkjun fellur undir sjálfbæra nýtingu auðlinda skv. Víglundi.

Framtíðarlandið vill að landsmenn og þingmenn skrifi undir sáttmálann sinn. Einhverjir hafa veitt því athygli að sáttmáli er oftar en ekki einhvers konar tvíhliða gerningur en ekki plagg sem einn semur og lætur aðra skrifa undir. Það er eitthvað til í þessu, enda sáttmálinn kannski helst til efnismikill. Gat nú gerst, menn eru eflaust svo innblásnir á fundum að þeir geta ekki sett tappann í byttuna.

Fyrsti punkturinn er blaður, og þriðji punkturinn veldur deilum. En annar punkturinn er góður. Af hverju ekki að láta hann duga? Það er heilbrigð skynsemi að skoða fyrst hverju maður ætlar að halda, og fórna svo rest, en ekki öfugt. Flestir ættu að geta skrifað undir punkt númer tvö. Þingmenn og borgarar vilja hins vegar yfirleitt ekki skrifa undir eitthvað sem þeir eru ósammála eða eitthvað sem þeim þykir vera innihaldslaust blaður og “eitthvað annað”-málflutningur. 

Andri Snær er hins vegar mjög sáttur við sáttmálann og segir að það sé þá bara þeirra mál sem ekki vilji skrifa undir hann ef þeir finna einhvers staðar deal-breaker. Þeir verði þá bara að rökstyðja þá ákvörðun sína. Núnú…ég hélt að tilgangurinn væri sá að ná samstöðu um eitthvað, ekki að finna frumlega leið til þess að geta haldið áfram að rífast um ókomin ár…

Framtíðarlandið eru reyndar samtök sem vilja draga umhverfisverndarumræðuna upp úr þraspottinum eins og Víglundur, eða gefa sig út fyrir það. Lyfta henni á hærra plan. Hugmyndirnar í sáttmálanum eru góðra gjalda verðar. Hins vegar er markaðsfræðingurinn þeirra ekki að hjálpa til með því að hanna þetta “grátt eða grænt” slagorð og merki. Það setur annað-hvort-eða brag á málflutninginn og fólk sem nennir varla að lesa sáttmálann er ekki heillað með þessu merki. Malbik eða blóm, veldu!

Áhugavert

janúar 19, 2007

Steingrímur J. Sigfússon sagði í fréttum nú í kvöld að málþóf væri sterkasta tæki þingsins til þess að hafa hemil á framkvæmdavaldinu. Fyndinn gaur.

Smá uppfærsla

janúar 3, 2007

Gott kvöld. Færslur hafa verið stopular. Af mér er það helst að frétta að ég er bara alltaf í vinnunni og er að spá í að fá mér nýjan bíl. Það er mér ekki ljúft að keyra ’95 VW Skrjóð um götur bæjarins og einungis nýlega varð mér ljóst að það er mér heldur ekki skylt. Hægt að kalla þetta vakningu.  Þannig að ef þið þekkið einhvern sem vill kaupa 11 ára gamlan VW Golf með endurnýjaðri kúplingu, pústi, pönnu og öxli þá látið þið mig bara vita. Hann var sprautaður árið 2000 minnir mig svo lakkið er nokkuð fínt bara, svona þegar drullan hefur verið skoluð af honum. Verð mjög umsemjanlegt en það má segja að uppsett sé 150.000.

Hvað á maður að fá sér í staðinn? Ég er að hugsa um kannski Ford Focus. Ku vera lág bilanatíðni.

Maður fylgist með fréttunum eins og aðrir þó lítið fari fyrir tjáningu á þessum síðum um þau efni. Kannski að heimurinn geti komist af án magnaðrar túlkunar minnar í bili?  Vil þó segja það að myndir frá aftöku Saddams Hussains sýndu aðeins eitt. Dauðarefsingar eru ógeðfelldar.

Skólinn byrjar svo seint svona eftir jól. Ekki fyrr en 15. janúar. Það er svosem fínt að geta verið í vinnunni aðeins lengur og unnið fyrir skólabókum og ýmsum startkostnaði annarinnar. Svo ekki sé talað um fyrrnefnd bílakaup.

Um skaupið vil ég reyndar leggja orð í belg. Þetta skaup var fyndið að mínu mati. Get ég þar nefnt Magnadjókið (húsmóðirin var fyndnust þar), Plútódjókið, Ólívur Ragnar Grímsson, Baugsdjókið, hverjum er ekki drullusama hvað Sirrý er að gera? og Andra Snjávar eftirherman fyndin líka.

Auðvitað var sitthvað sem var ekki fyndið. T.d. Jón Gnarr að hóta að berja fólk var ekkert fyndið. Nektarmyndir fyrir Geir og Jón í varnarmálinu, ekkert fyndið. Sjálfum finnst mér reyndar að Geir Jón hefði átt að vera fenginn til að leika bæði Geir og Jón, en það er annað mál.

Sitthvað má telja til. Maður hefur svo aftur heyrt fjölda fólks rakka þetta skaup niður og telja þetta jafnvel vera móðgun við landsmenn og endanlega réttlætingu fyrir einkavæðingu Ríkissjónvarpsins. Það er fólkið sem fattaði ekki brandarana og varð svo móðgað þegar því var sagt af útvarpsstjóra að það væri með lélegt skopskyn. Það er auðvitað bara nokkuð fyndið út af fyrir sig að taka skaupinu svona alvarlega. Þannig að þegar fólk skammast í útvarpinu yfir þessu er eins og skaupið sé ennþá í gangi. Mjög skemmtilegt.

Skellti mér á Kalda slóð í fyrradag. Það var ágætis skemmtun en eins og alltaf var miðinn of dýr. 1200 kall. Einhvers staðar sá ég því fleygt að handrit myndarinnar hafi verið skrifað og endurskoðað allt að 50 sinnum áður en farið var í tökur. Skýrir það kannski miðaverðið?  Að kvikmynd og -argerðarmönnum ólöstuðum tel ég að það sé hreinlega ekki nauðsynlegt að skrifa handrit 50 sinnum til að fá þessa útkomu. Svona nokkuð medioker plott verð ég að segja. En ágætt engu að síður.

Allir leikarar stóðu sig ágætlega, en mér fannst Helgi Björns bera af sem trúverðugur ógnvekjandi náungi með greindarvísitölu aðeins undir 100. Aníta Briem kom skemmtilega á óvart og var bara góð, en ég hef aldrei séð hana áður þrátt fyrir að mikið hafi verið látið af gríðarlegum frama hennar í erlendri kvikmyndagerð. Sá eini sem fór eitthvað í taugarnar á mér var Hjalti Rögnvaldsson sem var helst til stirður. Já og svo kyssast Elva Ósk og Þröstur Leó aðeins of mikið með tungunum.

Ég hvet til umræðu

desember 7, 2006

„Fyllirafturinn í ræsinu er nákvæmlega þar sem hann á að vera.“

Ræðið.

Ábyrgð og kraftur

nóvember 23, 2006

…eru nú þau orð sem ég hef hvað mest óþol fyrir í pólitískri umræðu. Læt það nú vera þó menn slái um sig með þessu í prófkjörum og svona, en þegar þetta er farið að læðast inn í greinar sem menn skrifa á netið eins og ekkert sé eðlilegra verður stíllinn alveg einstaklega hjákátlegur. Sumir ofnota þetta þannig að maður veltir því fyrir sér hvort þeir borði CocoaPuffsið sitt líka með ábyrgð og af krafti, fari svo í sturtu og þvoi sér um hárið með ábyrgð en miðsvæðis af krafti.

Iðrun Árna

nóvember 14, 2006

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins var viðtal við Árna Johnsen. Í fréttayfirlitinu var sagt að Árni iðraðist gjörða sinna hér um árið og að hann teldi menn sem ekki iðruðust slíks vera með hjarta úr steini.

Í viðtalinu kvað hins vegar við annan tón. Vissulega sagði Árni það sem kom fram í yfirlitinu, hann hreyfði varir, kjálka og tungu svo út komu þessi orðasambönd. En eitthvað annað lá á bakvið. Hann lýsti atferli sínu sem „tæknilegum mistökum“ sem „enginn tapaði á“ og tók jafnframt fram að  margir aðrir hefðu verið viðriðnir sama mál en sem betur fer [lesist: fyrir einhvern djöfulsins ákæruskandal] hefði hann verið sá eini sem var ákærður. Og tók hann svo fram að það væri þá eins gott að það hefði „lent á“ breiðu baki.

Úr þessum orðum er ekki hægt að túlka annað en að manninum sé gersamlega fyrirmunað að sjá eftir því sem hann gerði. Orð hans um tæknileg mistök sem enginn tapaði á eru hrein sönnun þess. Menn geta gerst sekir um formleg brot og efnisleg brot. Ef maður brýtur gegn málsmeðferðarreglu vegna vankunnáttu eða flýtis er engin ástæða fyrir hann til þess að iðrast gjörða sinna. Þetta var bara smá tæknifeill. Ég tala nú ekki um ef enginn skaði er skeður. Til hvers að iðrast fyrir slíkt?

Þar að auki virðist hann bölva „öllum hinum“ sem áttu hlut að máli í sand og ösku og telur sig hafa tekið skellinn fyrir allt liðið (hverjir svo sem það nú eru). Hann var fórnarlamb en er bara með svo ofboðslega breitt bak að hann tók dóminn á sig fyrir hina. Nokkurs konar frelsari.

Hvaða kjaftæði er þetta?