Archive for the ‘Menning’ Category

Kommúnan – Tillsammans

febrúar 23, 2008

Farið var á Kommúnuna í Borgarleikhúsinu í gær, á nýja sviðinu. Áhorfendapallar voru beggja megin sviðsins, leikmyndin trégrind á þremur hæðum með hálfgegnsæjum tjöldum sem hægt var að draga til og frá. Allt innvols í grindinni var síðan hippalegt, gólfpúðar, óróar, hengirúm og slíkt.

Það var margt gott í þessari sýningu. Hún var skemmtileg og vel leikin. Mæli með henni við hvern sem er. Hins vegar er ég kannski þannig gerður að ég vil sterkari framvindu og meiri sögu í leikritinu. Þessi sýning gekk meira út á að skapa ákveðna stemningu og vera með margvíslegar vísanir í fortíðina. Jú, svo var auðvitað saga líka en það fór samt ekki mjög mikið fyrir henni.

Það gerði þó ekki til, enda megintilgangurinn að gera grín að marxískum hugsjónum og því fáránlega bulli sem verður útkoman, sé þeim fylgt í öllu daglegu lífi. Ég hló nokkrum sinnum upphátt, en aldrei neitt svona skelli-skelli.

Töluverð nekt var á sviðinu, samtals tvær píkur og einn tilli. Það var þó ekkert hneykslanlegt, en í hvert skipti sem einhver var nakinn horfði ég alltaf á gömlu konuna sem sat á fremsta bekk hinum megin við sviðið, til þess að sjá hver hennar viðbrögð yrðu. Hún var alveg svona grátt-hár-í-hnút-með-prjón-í-gegn gömul. Hún kippti sér hins vegar ekkert upp við þetta, til allrar hamingju.

Í heildina fannst mér íslensku leikararnir betri en þeir erlendu. Kannski eru það einhverjir tungumálaerfiðleikar eða eitthvað, en Gael Garcia Bernal karakterinn fannst mér pínulítið pirrandi til lengdar vegna sinna hikorða (why..what…you…i mean…this is…aahh). Það var eflaust hluti af því að hann átti alltaf að vera út úr reyktur, en mér fannst það bara ekki virka alveg nógu vel. Varð meira eins og alvöru hik.

Ég var mest að fíla Ólaf Darra og Nínu Dögg. Þau eru flott, hún tók þarna til dæmis mjög reiðan dans á einum tímapunkti. Ég fílaði dansinn.

Yfirlýsing

desember 8, 2007

Í ljósi nafngiftar nýjustu plötu Nylon hefur síðunni borist eftirfarandi yfirlýsing:

„ÓHEFT MARKAÐSÖFL OG VERNDUN ÞJÓÐMENNINGAR FARA EKKI SAMAN. ANNAÐ HVORT ÞARF AÐ SITJA HJÁ OG HORFA Á ÞJÓÐ MISSA TENGSL VIÐ FORNA TUNGU SÍNA OG MENNINGU, ELLEGAR HEFTA FRELSI MARKAÐSFRÆÐINGA OG AUGLÝSENDA MEÐ EINHVERJUM HÆTTI.

-xxxxxx xxxxxxxxxxxx“

Nú má um það deila hvort upphrópunarstíll sem þessi er viðeigandi, og hvort höfundur yfirlýsingarinnar hefur rétt fyrir sér eða ekki, en ljóst er að nafngiftin hefði mátt betur fara.

Annars finnst mér stelpurnar í Nylon allar ógeðslega sexý.

Hver er þessi Jakob?

desember 4, 2007

Hver er þessi Gunnlaugur?

Hver er þessi Dagur?

Til hamingju með Impreglio

nóvember 27, 2007

Vil óska landsmönnum, nær og fjær, til hamingju með að hafa á þeim ca. 7 árum sem Kárahnjúkaverkefnið hefur staðið yfir ekki náð að segja nafn ítalska verktakafyrirtækisins sem sá um stærstan hluta framkvæmdanna með réttum hætti.

(Er að íhuga að taka upp landsföðurlega-ávarps-og-yfirlýsingastílinn á blogginu).

Ummæli dagsins

nóvember 21, 2007

Keppandi í Herra Ísland fær spurningu: Hver er myndarlegasti karlmaður sem þú hefur séð?

,,Úff, myndarlegasti karlmaður sem ég hef séð. Ja, allavega á Íslandi…ætli það sé þá ekki Vignir, þarna lottógaurinn.“

Vignir. Lottógaurinn. Mjög gott.

Þýðing á dægurlagatexta Cliff Richards

nóvember 3, 2007

Syngið:

Til hammó medda!
Ággja halduppádda?
Él segja öllumaððú sért að fíla mig.
Til hammó medda
Ággja halduppádda?

Háskólatorgið

október 17, 2007

Tillögur þær sem ég sendi inn í nafnasamkeppni um háskólatorg voru eftirfarandi:

Draslið fyrir aftan Lögberg – Bakgarður (heimilislegt og notó)
Draslið á milli – Miðgarður (vísun í norræna goðafræði (og gamla búð á Garðatorgi þar sem nú er Hagkaup), þykir það ekki alveg megasmart?)
Draslið hjá Odda – Forgarður (minnir svolítið á helvíti, sem gæti talist neikvætt, tek það á mig).
En þetta var heildstæð tilltaga.

Niðurstöður urðu hins vegar þær að húsin munu heita Háskólatorg, Tröð og Gimli. Háskólatorg er náttúrulega nafn sem ekki á að veita peningaverðlaun fyrir. Í það minnsta ekki Gunnari Páli Baldvinssyni.  Þar að auki eru 100.000 krónur slík upphæð að enginn hefur gott af því að öðlast hana einn. Fólk verður einfaldlega brjálað af því að handleika svo fáránlega háar upphæðir. Réttara hefði verið að skipta þessu niður á milli allra hálfvitanna sem sendu inn nafnið „Háskólatorg“ í samkeppnina.

Tröð er svo annað slysið. Hvernig á nútímafólk að nota svona orð? ,,Zælar. Nei, ég verð kominn eftir fimm beibí, er bara í fekkin Tröð núna. Ok. Blenzig.“ Nú er bleik brugðið ef mönnum þykir þetta ganga upp.

Gimli, snobbað fyrir Vestur-Íslendingum. How low can you go? Þetta eru afkomendur liðhlaupa og föðurlandssvikara.

Rectum Háskóla Íslands segi af sér hið snarasta.

Ljóðlína

júlí 13, 2007

Ég var lítill kall og ég lék mér við ströndina.

Þriðji brandarinn

maí 4, 2007

Eins og margoft hefur komið fram sæki ég tilefni til að hlæja ekki langt yfir skammt. Ég er sjálfbær hvað þetta varðar. Hér er nýjasta verk mitt:

Q: Veist þú af hverju það er íslenskufræðingur starfandi á hverju einasta sædýrasafni sem hefur hákarla til sýnis?

————————————–

A:  Því þeir kunna háfamál.

Málshættir

apríl 10, 2007

Tvö páskaegg þetta árið. Eitt af minnstu gerð. Sérlega bragðvont. Málshátturinn var:

Dramb er falli næst

Svo var það konfektpáskaeggið sem Una fékk í vinnunni. Ekki amalegur kaupauki. Ágætt á bragðið. Nóa-konfektið er samt alltaf jafn litlaust. Málshátturinn var:

Orð eru til alls fyrst

Hafðu þig svolítið í frammi svona, láttu í þér heyra. Segðu skoðun þína. En ekki of mikið. Alls ekki of mikið! Haltu þig á mottunni, helst. Nema stundum.