Archive for the ‘Lýðræði’ Category

Með á nótunum

desember 28, 2007

Leið moggabloggara til þess að vera gáfulegur er sú að segja það verða „fróðlegt og áhugavert að fylgjast með þróun mála á næstu dögum og vikum“.

Ef ég væri moggabloggari og fyndi mig knúinn til að blogga um morðið á Benazir Bhutto myndi ég skrifa:

Ég veit ekkert um pakistönsk stjórnmál.

Ég veit ekki hver drap Benazir Bhutto.

Ég veit ekki hvað gerist næst.

Ég veit ekki hvað er líklegast til þess að styrkja lýðræði í Pakistan.

Ég veit ekki hvort Benazir Bhutto var góður stjórnmálamaður eða slæmur.

Svo myndi ég enda þetta sem mjög gáfaður bloggari og ítreka mikilvægi þess að stjórnarfar í Pakistan haldist stöðugt, enda sé landið kjarnorkuveldi. Svo segði ég að það yrði áhugavert og fróðlegt að fylgjast með þróun mála á næstunni.

Spurning

desember 11, 2007

Hvernig ætli U Thant, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og yngri bróður hans, Spon, hafi komið saman í æsku?

Uppvöxtur litla trés

apríl 29, 2007

Þar sem ég sit hér við gluggann í lesherberginu og þykist vera að læra sé ég að tréð sem ég fékk úr garði foreldranna síðasta vor er byrjað að laufgast. Mér tókst nefnilega að taka gríðarlega stóran moldarhnaus með því og það hefur sennilega ekkert tekið eftir því að það er ekki lengur í Garðabænum, heldur niðri í miðbæ. Eflaust skemmir heldur ekki fyrir að loðni, flækti, kaldi og hrakti fresskötturinn úr næsta húsi skítur reglulega í beðið og leggur þannig sitt af mörkum.

Ég er orðinn gersamlega sjúkur í sumarið. Þessi próf eru að flækjast alveg svakalega mikið fyrir mér. Get ég ekki tekið þau seinna bara?

Ég er búinn að ákveða hvað ég geri eftir prófin. Þann ellefta verð ég í vinnunni, þann tólfta kýs ég og þann þrettánda fer ég í hjólreiðatúr eitthvað út fyrir borgarmörkin. Fjórtánda til átjánda verð ég í vinnunni vonandi og þríf húsið á kvöldin. Helgina nítjánda til tuttugasta ætti maður kannski að smella sér á Kárahnjúka með einhverjum góðum mönnum.

Svo eigum við von á amerískum og hondúrískum (?) gestum í vikunni þar á eftir. Það eru þau Lasheena og Pablo. Planið er að sýna þeim eitthvað skemmtilegt, láta þau synda í Seljavallalaug og grilla fyrir þau og svona, áður en þau halda áfram í Evrópuför.

Seljavallalaug

Aaaahhhh! Sumar. Núna. Takk.

exbé

október 17, 2006

Ég hef ekki trú á því að núverandi formaður Framsóknar hafi mikil fylgisaukandi áhrif fyrir flokkinn, þó svo að hann geti kannski sameinað þá sem fyrir eru í flokknum og haldið honum nokkuð stöðugum. Málflutningur hans í fjölmiðlum einkennist af málalengingum og merkingarlítilli skrúðmælgi sem ég held að fæstir hafi mikla þolinmæði gagnvart. Hann talar pólitískt tæknimál og vill helst ekki fara mikið út fyrir það. Á meðal vinsælla frasa hjá honum má nefna „við verðum að iðka vandaða stjórnsýslu“. Þessi aðferð, að eyða meirihluta tímans í að tala um það sem allir vita og kemur málinu varla við en svara svo spurningunni á 3 sekúndum í lokin, er auðvitað notuð af mörgum en svo skemmtilega vill til að annar meistari í þeirri íþrótt er varaformaður sama flokks.

Ætli það verði frambærilegir forystumenn í næstu kosningum, sem teygja lopann, nota furðulegar samlíkingar og tala svo tæknimál?

Spámaður í sínu föðurlandi (og víðar)

október 12, 2006

Stundum sæki ég innblástur til skrifa á blogg annarra. Nú fyrir skemmstu var ég að lesa blogg urðarkattarins, en hann er í tenglalistanum undir dulnefninu „Viðar Pálsson“. Hann fjallar þar um litríka framkomu tveggja stórmenna í viðtali á Ztöð2 (en þess má geta að sú stöð er Zpennuztöð) fyrir skemmstu. Í téðu viðtali kepptust stórmennin við að slá hvert öðru gullhamra og ítreka fyrir áhorfendum mikilvægi sitt í þróun og þroska íslensks samfélags, eins og urðarkötturinn lýsir. Höfum ekki fleiri orð um það.

En nú fyrir skemmstu var ég staddur á Þjóðarbókhlöðunni (Landsbókasafni-Háskólabókasafni) og fékk þá smáskilaboð frá góðvini mínum sem var staddur á þriðju hæð hússins. Þar stóð: „Þetta er mögnuð sýn. [X] á þriðju hæð bókhlöðunnar í hlýrabol og með sólgleraugu“. Ég brá að sjálfsögðu undir mig betri fætinum og kíkti niður. Það er ekki verra þegar fótaliðkandi smágöngutúrar verða að raunverulegum skemmtiferðum. Þarna sat hornsteinn opinskárrar umræðu og lýðræðis á  Fróni, kúplingin sem gerði samfélaginu kleift að skipta í fimmta gír og komast að kjarna mannlegrar tilveru, í lesstól úti í horni með fartölvu í svörtum ermalausum bol með miðaldraaukaskinnið sitt hangandi í handarkrikunum og slappan magann liggjandi á visnum lærum sér með þessháttar sólgleraugu til þess að skýla sér frá ofurbirtu þeirri sem framtíð lands og þjóðar stafaði í augu hans fyrir hans eigin tilverknað. Kjálkinn hékk í lægstu stöðu og neðri vörin slútti fram svo það virtist stefna í að sleftaumar teygðu sig niður á lyklaborðið. Það væru þó ýkjur að segja þá hafa verið raunina.