Archive for the ‘Listir’ Category

Kommúnan – Tillsammans

febrúar 23, 2008

Farið var á Kommúnuna í Borgarleikhúsinu í gær, á nýja sviðinu. Áhorfendapallar voru beggja megin sviðsins, leikmyndin trégrind á þremur hæðum með hálfgegnsæjum tjöldum sem hægt var að draga til og frá. Allt innvols í grindinni var síðan hippalegt, gólfpúðar, óróar, hengirúm og slíkt.

Það var margt gott í þessari sýningu. Hún var skemmtileg og vel leikin. Mæli með henni við hvern sem er. Hins vegar er ég kannski þannig gerður að ég vil sterkari framvindu og meiri sögu í leikritinu. Þessi sýning gekk meira út á að skapa ákveðna stemningu og vera með margvíslegar vísanir í fortíðina. Jú, svo var auðvitað saga líka en það fór samt ekki mjög mikið fyrir henni.

Það gerði þó ekki til, enda megintilgangurinn að gera grín að marxískum hugsjónum og því fáránlega bulli sem verður útkoman, sé þeim fylgt í öllu daglegu lífi. Ég hló nokkrum sinnum upphátt, en aldrei neitt svona skelli-skelli.

Töluverð nekt var á sviðinu, samtals tvær píkur og einn tilli. Það var þó ekkert hneykslanlegt, en í hvert skipti sem einhver var nakinn horfði ég alltaf á gömlu konuna sem sat á fremsta bekk hinum megin við sviðið, til þess að sjá hver hennar viðbrögð yrðu. Hún var alveg svona grátt-hár-í-hnút-með-prjón-í-gegn gömul. Hún kippti sér hins vegar ekkert upp við þetta, til allrar hamingju.

Í heildina fannst mér íslensku leikararnir betri en þeir erlendu. Kannski eru það einhverjir tungumálaerfiðleikar eða eitthvað, en Gael Garcia Bernal karakterinn fannst mér pínulítið pirrandi til lengdar vegna sinna hikorða (why..what…you…i mean…this is…aahh). Það var eflaust hluti af því að hann átti alltaf að vera út úr reyktur, en mér fannst það bara ekki virka alveg nógu vel. Varð meira eins og alvöru hik.

Ég var mest að fíla Ólaf Darra og Nínu Dögg. Þau eru flott, hún tók þarna til dæmis mjög reiðan dans á einum tímapunkti. Ég fílaði dansinn.

Ekkert að frétta af Unu

desember 12, 2007

Hún brá ekkert á leik í gær. Hér var þó engin lognmolla, enda komið glænýtt útiljósajólatré til að setja upp úti í porti, komin ljósasería á handriðið við tröppurnar úti og einnig hefur okkur áskotnast nýtt málverk. Málverkið fær að prýða vegginn í stofunni á næstunni.

Andlaus sýn mín á myndlist

nóvember 8, 2007

Var að fletta lesbókinni um daginn. Þar var opnugrein um einhvern myndlistarmann sem ég man ekki hvað heitir. Ástæðan fyrir því að ég man ekki hvað hann heitir er sú að ég las ekki greinina. Greinina las ég ekki því framarlega í henni kom fram að listamaðurinn hefði engin skilaboð til fólksins sem skoðar listaverkin hans, ekkert við það að segja. Á þeim tímapunkti taldi ég mér óhætt að fletta á næstu síðu og leysa t.d. krossgátuna.

Með þessu er ég ekki að segja að listamenn verði alltaf að hafa einhver ótrúlega mikilvæg skilaboð fram að færa. Fallegir hlutir og falleg tónlist geta notið sín mjög vel án þess að verið sé að hamra á Íraksstríðinu eða kynjamisrétti. En þá erum við líka að tala um töluvert magn fegurðar sem þarf til svo maður einfaldlega nenni þessu.

Mér hefur sýnst þessi maður gera álíka listaverk og að búa til straumlínulagaða hnúða úr glæru plasti og líma þá á veggi. Að mínu mati er fegurð slíks ekki svo dáleiðandi að hún njóti sín frístandandi. Ég ætla einfaldlega að taka hann á orðinu og vera ekki að hlusta (eða lesa), fyrst hann hefur ekkert við mig að segja. Kúptir plasthnúðar fróa mér ekki svo glatt.

Mér finnst það frekja og tilætlunarsemi í listamönnum að segja mér að túlka þetta bara sjálfur. Á ég að túlka þetta? Þú bjóst þetta til! Túlka þú þetta sjálfur, eða reyndu að tala svo skýrt að merkingin komist óbrengluð til skila. Þetta er eins og í sögunni um nýju fötin keisarans. Sönnunarbyrðin fyrir tilvist klæðanna var tvímælalaust hjá vefurunum, ekki borgurunum sem horfðu á hinn nakta keisara.

Vinur minn, Garðar Snæbjörnsson, var einhvern tímann með bjór í hönd að gera grín að myndlistarmönnum sem koma í viðtöl og segja: „Jaaa, ég er nú kannski fyrst og fremst bara að leika mér með form.“ Aðspurðir um hvað listaverkið sé, eða eigi að vera, segja þeir svo: „Þetta er í raun bara fyrst og fremst hlutur, sko.“

Klapp, klapp

nóvember 3, 2007

Margrét er umboðsmaður barnanna.

Margrét er umboðsmaður barnanna.

Alltaf er hún hjá mér, aldrei fer hún frá mér.

Margrét er umboðsmaður barnanna.

 

Umbi barna

?

desember 16, 2006

Átt þú bíl?

– Nei, átt ÞÚ bíl?

Ja, ekki á ég bíl, þannig að þú hlýtur að eiga bíl.

– Nei, þvert á móti á ég ekki bíl. Þess vegna hlýtur þú að eiga bíl.

Q&A

desember 14, 2006

Q: Ef konan þín væri komin níu mánuði á leið og þú færir með hana á fæðingardeildina þar sem hún fæddi ekki barn heldur tvöfaldan ostborgara með sósu, lauk, papriku, gúrkum og öllu tilheyrandi, myndir þú þá borða hann?

A: Mér þykir laukur ekki góður.

Q: Nei ok, en þú skilur samt hvað ég er að fara, ekki satt?

A: Nei, það get ég ekki sagt.