Archive for the ‘Kvikmyndir’ Category

Vígvellirnir

nóvember 10, 2007

Ég horfði á myndina The Killing Fields frá 1984 í gærkvöldi. Hún er, eins og einn gestur okkar orðaði það, ekki beinlínis föstudagsefni, en hún var gríðarlega góð. Sam Waterston úr Law&Order (gamli saksóknarinn) leikur blaðamann sem fór til Kambódíu 1975 og það hvernig túlkurinn hans, Dith Pran að nafni, var tekinn höndum og færður á samyrkjubú þaðan sem honum tókst naumlega að sleppa yfir til Tælands.

Mæli hiklaust með þessari mynd, þó hún sé kannski ekki til þess fallin að koma manni í neitt sólskinsskap.

The Mummy Returns

maí 6, 2007

Í gærkvöldi sýndi hið menningarlega Ríkissjónvarp allri alþýðu fræðslumynd um Egyptaland til forna og áhrif þess á nútímann (f. hl. 20. aldar). Hægt er að gera nokkrar athugasemdir við myndina en hér verður aðeins tæpt á einu atriði.

Í dulinni vin einni í eyðimörkum Affiríku, sennilega einhvers staðar við upptök Nílar, í Súdan geri ég mér í hugarlund, er pýramíði úr gulli. Ef Brendan Fraser kemur syni sínum ekki inn í pýramíðann fyrir sólarupprás á sjeunda degi frá því að sonurinn setur í flónsku sinni á sig tiltekið armband sem réttilega er í eigu The Rock, glímukappa frá Bandaríkjunum, fer illa fyrir syninum. Að morgni viðkomandi dags eru þeir kumpánar við pýramíðann og sólin tekur að rísa upp fyrir brúnir fjallanna.

En hér fipast henni Hollywood flugið. Þannig er mál með vexti að Brendan stendur á milli fjalls og mannvirkis með barnið í fangi sér, en sólin kemur upp fyrir fjallsbrúnina. Hann neyðist því til að hlaupa upp brekkuna að pýramíðanum áður en skugginn hopar alla leið þangað og sólin skín á hann. Sólin byrjar semsagt að skína á jörðina næst fjallinu og fikrar sig smám saman frá fjallinu og að pýramíðanum. Þetta sætti ég mig ekki við, en meðfylgjandi skýringarmynd ætti að sýna svart á hvítu hvernig þetta stenst ekki.

Skýringarmynd

 Mynd 1. Sýnt er hvernig Ríkissjónvarpið heldur lygum að alþýðunni.

Hver hefur vinninginn?

apríl 9, 2007

Jæja, hvaða þáttur er ykkur minnisstæðastur? Allt miklir gæðaþættir.

1. Inspector Morse (John Thaw, Rúv)

2. Derrick (Horst Tappert, Rúv)

Derrick og Morse

3. A touch of Frost ( David Jason, Stöð 2)

4. Prime suspect (Helen Mirren, Stöð 2)

Frost og Prime Suspect

5. Taggart (Mark McManus, Rúv)

6. Maigret (Bruno Cremet, Rúv)

Taggart og Maigret 2

7. The Ruth Rendell Mysteries (George Baker, Rúv)

The Ruth Rendell Mysteries

Ne le dis á personne, Death to smoochy og álver

apríl 1, 2007

Var að koma úr bíó þar sem ég sá franska mynd. Hún kallast „Segðu það engum“ og er dramatryllir. Myndin er mjög góð og mjög spennandi en samt er umfjöllunarefnið þannig að  manni líður næstum því illa við að horfa á hana, tala nú ekki um ef maður á einhvern sérstakan í sínu lífi sem maður vill ekki verða aðskilinn frá. Myndin fjallar einmitt um fólk sem lendir í slíku. En hún er gríðarlega spennandi og merkilegt nokk ekki upptekin af ríðingum heldur ofbeldi.

Fyrr í kvöld sá ég hluta af myndinni Death to smoochy, með Robin Williams og Edward Norton í aðalhlutverkum. Hrikalega leiðinleg mynd, manni var svo nákvæmlega sama um allt sem var að gerast í henni.

Svo höfnuðu Hafnfirðingar stækkuninni. Ekki ætla ég að gagnrýna þá fyrir það.

Ørninn

desember 10, 2006

Jæja þessi sería er nú dáldið að missa það. Var takmarkið að koma öllum löndum EES inn í seríuna? Menn eru bara í Berlín, Stokkhólmi, Reykjavík, Köben, Srebrenica og það er rússnesk mafía og bandarísk mafía og ég veit ekki hvað og hvað.

Svo hélt ég að menn væru komnir yfir almennt landslagsrúnk í gerð sjónvarpsefnis. Maður var svo gott sem laus við það í Mýrinni og alveg laus við það í Börnum. Hér byrjar okkar maður hins vegar á því að horfa vel yfir landið úr flugvélinni, skella sér svo í bláa lónið, út að spise með einhverri fréttakonu í Perlunni og svo beint á Þingvelli. „Já hér mætast Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn.“

Svo er þarna mjög spaugileg sena í endann þar sem gamall karl er úti að labba með stelpu sem er á að giska 8-9 ára gömul. Hann spyr hana „…og hvað segja kýrnar?“

„Muuuu“ segir hún þá.

Ég áætla að vera kominn með mína krakka yfir hvað-segir-voffi stigið þegar þau verða 9 ára.

Ætli þetta endi ekki í einhverjum ískastala á Breiðamerkursandi ef fram heldur sem horfir?

007

nóvember 19, 2006

Já Bond er kominn aftur og hinn mjóslegni Brosnan, sem enginn trúði í raun að gæti gert flugu mein, er á bak og burt. Þessi Bond er svo sannarlega betri en sá síðasti sem átti ótrúlega slaka spretti í einhverri íshöll á Breiðamerkursandi. Ofbeldið er alveg prýðilegt, áhættuatriðin hressandi og gellurnar upplífgandi (en þó yfirleitt dauðar áður en yfir lýkur).

Það má þó segja að handritshöfundarnir hafi gersamlega misst sig í vitleysu þar sem ein af gellunum er kynnt til sögunnar. Bond er þá að tana sig úti í brimrótinu, nýkominn í kompaníið og rétt svo búinn að komast í getnaðarlimlestandi þrönga skýlu. Þá kemur hún berbakt ríðandi eftir ströndinni á hvítum hesti, íklædd júllustatífi og lendaskýlu við undirleik væminnar tónlistar, og hópur barna hleypur til hennar eins og hún sé Jesús kristur mættur á pleisið til að blessa liðið. Bond meikar ækontakt við hana á nótæm, bara undireins, þó svo hann sé einhvers staðar að tana sig úti í hafsauga, hundblautur.

Já svo tekur hann hana og stuttu síðar er hún steindauð. Já hann kann sko að tríta þær.

„Ég kem aftur“

nóvember 9, 2006

Þessi fleygu orð sagði Valdimar Leó Friðriksson eftir slakan árangur sinn í prófkjöri nú fyrir skemmstu. Ekki veit ég hvers vegna hann kaus að vitna í Schwarzenegger við þetta tilefni. Kannski einhvers konar hótun. En ég hefði talið það eiga mikið betur við að hann vitnaði í James Spader. Hann hefði til dæmis getað sagt: „I’m not going to sit on this balcony forever. I’m beginning to feel like a potted plant.

James og James

Börn

október 28, 2006

Ég fór í kvikmyndahús í gær. Sá íslensku myndina Börn. Hún var bara mjög góð. Gísli Örn Garðarsson var samt ekkert svakalega trúverðugur sem ofbeldishundur, en ég býst svo sem við því að alvöru handrukkarar séu ekkert mjög trúverðugir sem slíkir heldur.

Almennt mjög mjög vel leikin mynd. Ætli þið séuð ekki öll búin að sjá hana fyrir löngu. En ef ekki, skelliði ykkur þá.

Mýrin

október 23, 2006

Mjög góð mynd. Theódór Júlíusson á stórleik sem skíthællinn Elliði, látið hann fá einhvers konar verðlaun eða fálkaorðu. Ég hef enga sérstaka gagnrýni á myndina nema það sem alltaf má búast við þegar mynd er gerð eftir bók, ég hafði ekki sé persónurnar fyrir mér eins og þær birtast. En það er svosem engin gagnrýni. Ég hafði séð Erlend fyrir mér feitari, þreyttari og lifðari. Ingvar E. Sigurðsson er samt góður.

Svo var það áhugavert að í kreditlistanum var tekið fram að Kári Stefánsson hefði veitt aðstoð við handritsþróun. Sammældist okkur sem vorum í bíó um að í staðinn fyrir að kvikmyndagerðarmennirnir fengju að filma svona mikið í húsi íslenskrar erfðagreiningar hefði Kári fengið að koma meðrökum miðlæga gagnagrunnsins að í myndinni. Hann sést þar leika sjálfan sig í viðtali við Kastljósið, útlistandi kosti gagnagrunnsins, algerlega í bakgrunni. Svo er karakterinn sem Magnús Ragnarsson leikur látinn svara hugleiðingum Erlends um gagnagrunninn, þ.e. að í honum séu geymd fjölskylduleyndarmál, framhjáhöld og sjúkdómar sem vísindamenn krukki svo í. Það var samt snyrtilega gert og þau sjónarmið ekki sett fram sem viðhorf þeirra sem gerðu myndina, heldur viðhorf íslenskrar erfðagreiningar.

Samtöl voru öll nokkuð eðlileg, nema á einum stað, bara einum, fékk maður svona týpískan aulahroll yfir einhverri línu sem karakter er látinn segja. Það er þegar Erlendi er sagt úr hverju „Kola“ dó. Amma hennar segir eitthvað á borð við „taugatrefjaheilaæxli“ (eða eitthvað) og Erlendur svarar ábúðarfullur: „ah…júrófíbrómatósis“ (eða eitthvað). Mjög hallærisleg lína, sem þjónaði þó þeim algerlega praktíska tilgangi að halda áhorfendum við efnið og minna þá á tenginguna við Auði Kolbrúnardóttur sem dó úr því sama.

Senan þar sem Sigurður Óli kemur að Elliða þar sem hann er að drepa Rúnar Gíslason og eltir hann út í mýri telst einn af hápunktum myndarinnar. Ótrúlega fyndin sena.

Nú svo að lokum er það spurningin hvaða mynd ætti að gera næst eftir sögum Arnaldar. Fyrir mína parta segi ég Grafarþögn. Ég hef nú ekki lesið allar bækur Arnaldar, en Grafarþögn er að mínu mati sú langbesta sem ég hef lesið, töluvert sterkari en Mýrin. Sjaldan hef ég lesið bók þar sem jafnvel tekst til að byggja upp trúverðuga karaktera og láta lesandann finna til samúðar með þeim. Auðvitað væri kostnaðarsamt að gera myndina því þá þyrfti að endurvekja gamla tíma, með öllum þeim búningum, húsbúnaði, bílum og umstangi sem þarf til þess. Sú mynd yrði líka ansi niðurdrepandi og sorgleg á köflum en eflaust góð.

Divorce: Iranian style

september 21, 2006

Fór á myndina Divorce: Iranian style sem Magnús Þorkell Bernharðsson var að sýna í Öskju í gærkvöldi. Myndin var nokkuð góð, ansi fyndin á köflum. Gerist aðallega í dómshúsi í Tehran, þar sem klerkur reynir að leysa úr hjónabandsdeilum fólks.

Nú er það væntanlega ekki þversnið af þjóðinni sem kemur inn í dómsalinn með vandamál á borð við getuleysi eiginmannsins eða áfengisneyslu hans, ofbeldi gagnvar fjölskyldunni eða eitthvað í þá áttina. Sennilega eru þau hjón sem koma þar inn samansett af áræðinni og klárri konu og svo einhverjum karli með lélegan karakter – hann er léleg fyrirvinna, fíkill, ofbeldismaður eða eitthvað álíka…en jafnframt hálfgerður ræfill.

Ég býst ekki við því að allar konur þori að fara fyrir rétt með mál eins og getuleysi karlsins, því eflaust er karlinn líklegur til einhverra illverka ef þær láta sér detta það í hug. En myndin kom semsagt þannig út að þarna kæmu klárar og vel máli farnar konur sem tuskuðu til karlana sína og sneru á kerfið en hlógu svo á bak við kuflinn þess á milli.

Klerkurinn virtist vera nokkuð sanngjarn – innan þess ramma sem kóraninn gefur honum auðvitað – og málsaðiljar máttu grípa fram í fyrir honum og rökræða við hann nokkuð frjálslega. Hins vegar var útgangspunktur hans alltaf sá að karlinn væri sá sem leitaði eftir skilnaði og konan hlyti að vilja vera áfram hjá karlinum. Annað væri ómögulegt. Konan sagði „ég vil skilnað! ég vil skilnað!“ og þá sagði dómarinn: „Hann tekur við þér aftur ef þú gerir þig sæta heima fyrir og hagar þér vel“ og þá sagði hún „Ég hef engan áhuga á því! Ég vil skilnað!“ og þá kom eitthvað á borð við „Vonandi vill hann taka aftur við þér“.

Svo var sýnt frá sáttafundi þar sem fjölskyldur karls og konu sem áttu í hjónabandserfiðleikum hittust, aðallega einhverjir frændur, og ræddu málin og reyndu að komast að niðurstöðu. Þar var eiginkonan viðstödd og stjórnaði umræðum með harðri hendi, en hún var einmitt 16 ára.
Áhugaverð mynd og skemmtileg. Stutt…e-ð um 80 mínútur á lengd. Held að það sé hægt að fá hana á bókhlöðunni.