Archive for the ‘Hreyfing’ Category

Sundreglur

apríl 10, 2008

Hversu lengi á anarkískt ástand að vara í sundlaugum borgarinnar? Þegar kemur að sundinu sjálfu er regluverki verulega ábatavant og öllum almenningi gert að pluma sig án nokkurrar aðkomu ríkisvaldsins. Umferðarreglur eru ekki skráðar, en einstaka sinnum eru þó ákveðin viðmið birt nálægt sundstaðnum, án þess þó að framkvæmdavaldinu hafi verið fengið neitt vald í hendur, formlega, til að fylgja þeim eftir.

Hin óskráða regla er þessi: Synt skal hægra megin á brautinni. Brautina skal hugsa sem afar ílangt sporöskjulagað form. Þetta er því í raun hringferð, þó svo synt sé fram og aftur brautina. Þessu eiga sundgestir vægast sagt afskaplega erfitt að átta sig á. Þeir virðast margir hverjir halda að eitthvað sé til sem heiti að „ná brautinni“ og að þeir hafi hana þá „út af fyrir [sig]“.

Látum nú svo að þessi yfirmátaheimskulega og pirrandi hugsun sé sú rétta og tökum Sundhöll Reykjavíkur sem dæmi. Sé þetta svo er Sundhöll Reykjavíkur ætluð fyrir fjóra í einu. Ekki er pláss fyrir fleiri í lauginni á hverjum tíma, þar sem allar brautir eru uppteknar.

Það versta er þó að þegar réttvísir borgarar reyna að halda uppi hinum óskráðu reglum virðast aðrir sundgestir oft eiga mjög erfitt með að átta sig á því hvað er að gerast. Þeim finnst að verið sé að ráðast inn á brautina sína, og skilja ekki af hverju innrásaraðilinn syndir stundum „hérna“ megin á brautinn, en stundum „þarna“ megin. Þeir sjá ekki kerfið. Hérna megin fram, þarna megin til baka. Hérna megin fram, þarna megin til baka. Þetta er ofar þeirra skilningi. Þeir gera ekkert til að laga breytni sína að kerfinu.

Nú lét ég sverfa til stáls um daginn þar sem kvinna ein hegðaði sér með þessum hætti á braut sem ég hafði „ruðst inn á“. Ég vék aldrei fyrir henni þegar hún kom vitlausu megin á móti mér. Það endaði með því að hún var farin að hanga í línunni þegar ég synti framhjá, og eftir skamma hríð hörfaði hún upp úr lauginni og horfði illilega á mig við brottför.

Ég bíð spenntur eftir því að einn þessara stefnulausu ræfla láti í sér heyra og reyni að reka mig af brautinni sinni. Þegar að því kemur mun ég hella úr skálum reiði minnar.

Jóga

mars 11, 2008

Nú hef ég ekki stundað jóga, en ég er haldinn fordómum gagnvart því. Fordómarnir stafa af fasi fólks sem er mjög innviklað í þessa iðkun. Mér finnst það fá á sig eitthvert tilgerðarlegt (en þó reyndar afar vinalegt) yfirbragð, sem ég er ekki alveg að kaupa.

Samtíningur

nóvember 24, 2007

Skemmtileg grein í Lesbókinni í dag eftir Ólaf Teit Guðnason. Mæli með henni. Þar var einnig grein eftir Magnús Sigurðsson, bekkjarbróður Unu. Sú grein var líka skemmtileg. Lesbókin lifi.

Slagorð N1 í auglýsingum þeirra hljóðar svona: „Krafturinn í keppnina, færir þér heppnina.“ Ég hata þetta slagorð. Hvað þýðir þetta? Á þetta að fá mig til að kaupa eitthvað?

Auglýsingaherferð Fréttablaðsins er mjög hallærisleg fyrir þær sakir að hún byggist aðallega á því að Fréttablaðið sé eina blaðið sem kemur út alla daga vikunnar.  Það er svo sem ekki hægt að rengja það, enda sunnudagsblað Moggans dálítið eins og laugardagsblað númer tvö, en þetta er aðeins of mikill tittlingaskítur til að vera aðalatriði í heilli auglýsingaherferð. Það er þá nokkurra klukkustunda gluggi á viku sem Mogginn kóverar ekki samdægurs, en er þess í stað með efnismeira sunnudagsblað.

Badminton er skemmtileg íþrótt. Ekki get ég talist mikill meistari en er allur af vilja gerður. Góð brennsla og hægt að taka jafnmikið á því og maður vill. Ekki jafnmikill munur á kynjunum heldur, ólíkt til dæmis …lyftingum… þá er ekkert því til fyrirstöðu að stelpur geti skotið drengjum ref fyrir rass.

Bílaleigan Kok þarf að skipta um nafn. Þetta er versta vörumerki sem ég nokkru sinni séð.  Jájá, ég er að tala um þetta hér og auglýsa fyrir þannig fyrir þá og allt það. En ég er persónulega mjög ólíklegur til að skipta við þetta fyrirtæki því ég hef sjálfkrafa neikvætt viðhorf gagnvart því.

Ætli bókin um Guðna sé ekki nokkuð áhugaverð?

Hvað á að gera um helgina…

ágúst 2, 2007

…þetta er algengasta spurning vikunnar. Í mínu tilfelli verður líklega keyrt austur í Hvamm, rétt hjá Hellu. Þar langar mig til að vera í miklum rólegheitum.

Frístundir

júlí 4, 2007

Þegar maður fer út á virkum kvöldum að hreyfa sig er allt fullt af fólki út um allt að gera eitthvað skemmtilegt. Fullt af liði að skokka, hjóla, á línuskautum eða ganga. Menn eru á sjóköttum á fossvoginum og að chilla í nauthólsvík. Þetta er frábær stemning til að blanda sér inn í. Manni líður vel.

Hlaup IV

júní 19, 2007

Hlaup hafa nokkuð tafist vegna almenns skemmtanahalds og vinnu. Í þetta skipti var flugvallarhringur hlaupinn öðru sinni en dálítið lengri leið þó. Nú skreið þetta rétt upp fyrir 8 kílómetra.

Hlaupahringur 7

Mynd 1. Hafist er fóta við Freyjugötu 25B. Hlaupið er Haðarstíg, Nönnugötu, Njarðargötu út að flugvelli, Suðurgötu, Ægisíðu, Flugvallarveg, Bústaðaveg, Miklubraut, yfir göngubrautina við Tanngarð, upp á Gömlu-Hringbraut, Barónsstíg, Mímisveg, Sjafnargötu, Njarðargötu, Freyjugötu.

Hlaup III

júní 15, 2007

Jæja. Ekkert lát er á hlaupum. Ég var ávíttur harðlega fyrir að fá mér risavaxna og viðurbjóðslega kökusneið í vinnunni í dag. Ég lét mér það að kenningu verða og át einungis létt kjúklingasalat og ávexti í kvöldmat, ásamt brauði er innihélt engan unninn sykur, meira að segja bara engan sykur. Gott brauð. En hringurinn var semsagt lengdur og fór nú í rétt um 7500 metra. Talnaglöggir sjá í hendi sér að það eru um 7,5 kílómetrar. Í þetta skipti var líka ekkert gefist upp í brekkunni. Hún var hlaupin.

Hlaupahringur 6

Mynd 1. Hafist er fóta við Freyjugötu 25B og farið Freyjugötu, Barónsstíg, Eiríksgötu, Snorrabraut, Bústaðaveg, Flugvallarveg, Ægisíðu (stíginn), Suðurgötu, Hringbraut, gegnum Hljómskálagarðinn, Bragagötu, Freyjugötu. Athugið að myndin hefur verið klippt saman úr tveimur kortum og vegalengdirnar af þeim lagðar saman í u.þ.b. 7500 metra. 

Hlaup II

júní 13, 2007

Hér er nýjasti hringurinn, náði ekki alveg að klára. Gekk svona 300 metra í lokin. En þetta er semsagt komið í ca. 6 kílómetra. Þetta litla útskot þarna hjá gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar er auðvitað hringurinn sem göngubrúin leiðir mann. Jájá, það skal engu sleppt úr þessari mælingu.

Hlaupahringur 4


Mynd 1. Hafist er fóta við Freyjugötu 25B. Farið er Freyjugötu, Barónsstíg, Egilsgötu, Flókagötu, Skaftahlíð, Miklubraut, Gömlu-Hringbraut, yfir Hringbraut á göngubrú og eftir göngustíg að Sæmundargötu, Sæmundargötu út fyrir HÍ, Suðurgötu, Hringbraut, gegnum Hljómskálagarð, Bragagötu, Freyjugötu.

Ég er svona 95% viss…

maí 2, 2007

…um að ég kaupi mér svona hjól eftir prófin sem afmælisgjöf til mín frá mér (áhugasamir mega hjálpa til með frjálsum framlögum). Þetta kostar einhvern 55.000 kall.

Hjól frá Markinu

Helstu upplýsingar um græjuna: (þetta hljómar mjög vel en ég veit ekkert hvað þetta þýðir)

Fjöldi gíra: 24

Stell: Ál 6061

Afturskiptir: Shimano Alivio

Framskiptir: Shimano FD-M330

Skiptihandföng: Shimano EZ-fire plus

Dempari: Suntour XCR læsanlegur 100mm

Gjarðir: 26″ Rigida ZAC 19 SL tvöfaldur ál

Bremsur: V-bremsur Scott Comp ál

Dekk: 26 x 2,0 Scott Manx 27 tpi

Uppvöxtur litla trés

apríl 29, 2007

Þar sem ég sit hér við gluggann í lesherberginu og þykist vera að læra sé ég að tréð sem ég fékk úr garði foreldranna síðasta vor er byrjað að laufgast. Mér tókst nefnilega að taka gríðarlega stóran moldarhnaus með því og það hefur sennilega ekkert tekið eftir því að það er ekki lengur í Garðabænum, heldur niðri í miðbæ. Eflaust skemmir heldur ekki fyrir að loðni, flækti, kaldi og hrakti fresskötturinn úr næsta húsi skítur reglulega í beðið og leggur þannig sitt af mörkum.

Ég er orðinn gersamlega sjúkur í sumarið. Þessi próf eru að flækjast alveg svakalega mikið fyrir mér. Get ég ekki tekið þau seinna bara?

Ég er búinn að ákveða hvað ég geri eftir prófin. Þann ellefta verð ég í vinnunni, þann tólfta kýs ég og þann þrettánda fer ég í hjólreiðatúr eitthvað út fyrir borgarmörkin. Fjórtánda til átjánda verð ég í vinnunni vonandi og þríf húsið á kvöldin. Helgina nítjánda til tuttugasta ætti maður kannski að smella sér á Kárahnjúka með einhverjum góðum mönnum.

Svo eigum við von á amerískum og hondúrískum (?) gestum í vikunni þar á eftir. Það eru þau Lasheena og Pablo. Planið er að sýna þeim eitthvað skemmtilegt, láta þau synda í Seljavallalaug og grilla fyrir þau og svona, áður en þau halda áfram í Evrópuför.

Seljavallalaug

Aaaahhhh! Sumar. Núna. Takk.