Archive for the ‘Heilsa’ Category

Um áhrif lungnabólgu á hreinlæti

september 19, 2007

Áhrif lungnabólgu á hreinlæti og almenna sjálfsumönnun sjúklinga eru í flestum tilvikum neikvæð. Þeim má skipta í almenn áhrif og sértæk áhrif. Til almennra áhrifa telst fækkun sturtuferða, meiri notkun á sömu fötum dag eftir dag (ullarnærfötum t.d.), minni ilmefnanotkun og fleira slíkt. Sértæk áhrif verða hins vegar vegna aðstæðna sem skapast á sjúkdómstímanum sem verða vegna annarra fylgiþátta sjúkdómsins en einkenna hans, svo sem hósta.

Sjúkdómurinn hafði sértæk áhrif á líf sjúklings, mér kunnugs, nýlega. Hann var á leið heim til sín á sænskri glæsibifreið þegar hósti gerði vart við sig. Honum fylgdi uppgangur, eða gul- og grænlitað slý. Þar sem hann var upptekinn við stjórn bifreiðarinnar og hafði hvorki poka né pappírsþurrku við höndina ákvað hann að stutt væri að næsta stoppi. Honum bauð nefnilega við tilhugsuninni um að kyngja slýinu aftur. Hann gæti opnað hurðina á næstu ljósum og látið vaða á hið bundna slitlag.

Áætlunin var gölluð að því leyti að umferðarljós voru ekki á næsta leiti. Uppsöfnun á vessum í munnholi sjúklingsins varð því óæskilega mikil. Umferð hafði einnig þyngst þegar komið var að ljósum og hefðarfrú í þýskri bifreið hefði orðið áhorfandi að tilfæringunum ef af hefði orðið. Því afréð sjúklingurinn að bíða enn um sinn. Næstu ljós. Þegar þangað var komið hafði safnast fyrir slík laug munnvatns og sýkts lungnauppgangs að sjúklingurinn hafði áhyggjur af því að sleppingin yrði sóðaleg og ómarkviss.

Niðurstaðan varð því sú að bíða alveg þar til heim væri komið. Þegar hér er komið við sögu, hefur sjúklingurinn tjáð mér, var munnhol hans allt að því fullt af vökva. Hann býr við hlið leikvallar og lagði bíl sínum þar. Enginn var þar að leik svo hann sá sér leik á borði um að sleppa safninu í malarblandaðan sandinn þar.

Á þessum tímapunkti settu hin sértæku áhrif mark sitt á líf hans. Til þess að halda berkjum sínum heitum á ferðalögum þurfa sjúklingar að bera hálstau. Hann var að þessu sinni með langan og þykkan ullartrefil um hálsinn, vafinn en óbundinn. Við leikvöllinn er steyptur veggur, um það bil einn metri og tuttugu sentimetrar á hæð, til þess gerður að hindra aðgang kynferðisglæpamanna að svæðinu.

Sjúklingurinn hallaði sér yfir vegginn, skaut höfðinu fram og undirbjó sig fyrir sleppinguna, glaður í bragði og frelsinu feginn. Í sama mun rann endi trefilsins fram, af bakin hans og fram fyrir, sveiflaðist kúptur með innri hlið sveigjunnar vísandi að andliti sjúklingsins. Þegar þetta gerðist höfðu taugaboð þegar verið send frá miðtaugakerfi hans að andlitsvöðvum um að framkvæma opnun. Sendingin, sennilega tæpur desilítri af fyrrgreindri efnasamsetningu, hafnaði öll í treflinum, sem reyndist einstaklega rakadrægur. Varla dropi lenti á jörðinni.

Ég er feginn að hann sagði mér frá þessu, því nú get ég varast svona aðstæður í framtíðinni.

Sjúkdómsgreining

september 11, 2007

Undanfarnar vikur hef ég hóstað eins og dvergurinn í myndbandinu sem ég birti hér fyrir rúmum mánuði síðan. Ástandið hefur síst farið skánandi síðustu daga og nú í dag dreif ég mig á Heilsugæsluna í Garðabæ. Þar fékk ég staðfestingu menntaðs einstaklings á minni eigin sjúkdómsgreiningu. Ég er með lungnabólgu.

Ég man ekki til þess að hafa fengið lungnabólgu áður. Þegar ég kom heim tók Una á móti mér og sagði glaðhlakkalega: „Ef þú væri með HIV myndir þú bara deyja! Haha!“ En ég er ekki með HIV. Ég er kominn á fúkkalyf til einnar viku og get ekki farið á landsleikinn á morgun eins og til stóð.

————————-

Bloggþorstinn hefur annars verið hverfandi undanfarið. Nokkrum sinnum hefur bloggari sest niður og ætlað að tjá sig eitthvað, en jafnóðum strokað allt út og hætt við. Svona er þetta stundum. Ef ég á að gera upp sumarið í nokkrum orðum þá er það svona:

Skemmtilegt, fróðlegt, veðursælt, hamingjusamt.

Geðveikur?

júlí 12, 2007

Ég var að keyra heim úr vinnunni áðan. Ég lýsi eftir fólki sem hlustaði á útvarpsfréttir á miðnætti. Mig minnir að fréttaþulur hafi verið Sigvaldi Júlíusson. Sigvaldi Júlíusson er flott nafn (vil ég ekki bara giftast Sigvalda Júlíussyni? spyrjið þið. Svarið er nei.).

Allavega, ég var að keyra heim úr vinnunni áðan. Útvarpsfréttir voru í gangi, rétt eftir miðnætti. Þar sem Sigvaldi var að lesa einhverja frétt ruddist einhver trufluð og djöfulleg rödd fram í útsendinguna og sagði „BLESS BLEEESS!“

Þetta var eins og gefur að skilja fáránlega krípí, eins og unga fólkið segir. Ég leit í baksýnisspegilinn til að aðgæta hvort Linda Blair sæti nokkuð í aftursætinu, öll blóðug í klofinu. Svo var reyndar ekki. Fréttanef mitt segir mér þó að slíkt hefði þótt tíðindum sæta. Ég sé fyrir mér fyrirsögnina: BLÓÐUGUR KVENDJÖFULL FINNST Í AFTURSÆTI SÆNSKRAR GLÆSIBIFREIÐAR Á HRINGBRAUT.

En sem fyrr segir lýsi ég eftir fólki sem hlustaði á sama fréttatíma og heyrði þessa djöfullegu rödd. Það þýðir víst ekki að hlusta á vefupptökuna. Annað hvort er ég geðveikur eða þetta var klippt út úr upptökunni áður en það var vistað á netinu.

Einnig gæti verið að útvarpið mitt hafi pikkað eitthvað upp úr svona iTrip græju.

Látið mig vita. Endilega.

Ég er svona 95% viss…

maí 2, 2007

…um að ég kaupi mér svona hjól eftir prófin sem afmælisgjöf til mín frá mér (áhugasamir mega hjálpa til með frjálsum framlögum). Þetta kostar einhvern 55.000 kall.

Hjól frá Markinu

Helstu upplýsingar um græjuna: (þetta hljómar mjög vel en ég veit ekkert hvað þetta þýðir)

Fjöldi gíra: 24

Stell: Ál 6061

Afturskiptir: Shimano Alivio

Framskiptir: Shimano FD-M330

Skiptihandföng: Shimano EZ-fire plus

Dempari: Suntour XCR læsanlegur 100mm

Gjarðir: 26″ Rigida ZAC 19 SL tvöfaldur ál

Bremsur: V-bremsur Scott Comp ál

Dekk: 26 x 2,0 Scott Manx 27 tpi

Vövði

febrúar 7, 2007

Þeir sem ekki hafa séð Vörutorgið á Skjá einum eru að missa af miklu. Þar er verið að reyna að selja fólki margskonar hluti. Þ. á m. er líkamsræktartæki sem ég man ekki alveg hvað heitir, VibraMaxx eða eitthvað álíka. Fyrir utan það að tækið er augljóslega algerlega gagnslaust er kynningin á því stórskemmtileg. Þjálfunin virðist byggjast aðallega upp á því að gera sömu æfingar og maður gerir venjulega, nema með víbrator á rassinum á sér á meðan.

Kynnirinn hefur kosið að þýða ekki orðið cellulite, og segir því að tækið komi í veg fyrir að „sellúlít“myndist á líkamanum.

Þá vekur ein fullyrðingin athygli mína öðrum fremur. Sýnd  er mynd af manneskju sem situr með iljarnar á titraranum og lætur kálfana á sér titra. Kynnirinn segir þá að tækið virki öll vöðvaviðbrögð líkamans. Það er því eins gott að vera búinn að plasta stofuna áður en tækið er notað.

Ég ætla ekki að fara mikið meira út í þetta, sjón er sögu ríkari, en hæst ber eflaust að kynnirinn virðist ekki kunna að segja orðið „vöðvi“. Hann segir síendurtekið „vövði“.