Archive for the ‘Fjölskylda’ Category

Hver er þessi Tómas eiginlega?

desember 3, 2007

Merkilegt hvernig öll afkvæmi sumra verða rosalega sýnileg í samfélaginu.

Jól

desember 27, 2006

Þetta var heldur óhefðbundið í ár. Aðfangadagskvöld hjá bróður mínum, með hreindýrssteik sem var meyrari en allt. Jóladagur heima í Háholtinu með rjúpur á boðstólum. Annar í jólum hjá föðursystur minni – með asísku þema! Satay kjúklingur og karrýlamb. Mjög gott. Við skulum segja að ég sé ekki vannærður.

Jólagjafirnar voru ekki af verri endanum. Ég fékk alvöru göngujakka, þriggja laga, frá 66°Norður, göngustafi (með innbyggðum áttavita takk fyrir), bakpoka með öllum réttu ólunum og hólfunum og bókina Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind.

Ég ætla mér því fljótlega að fara og festa kaup á legghlífum og broddum og þá er ég bara nokkurn veginn græjaður. Ég er nú þegar búinn að sjá nokkra tinda í bókinni sem eflaust skarta sínu fegursta með mig ofan á sér. Þess má geta að Una fékk næstum því allan gallann í jólagjöf – nýja gönguskó, göngubuxur, göngusokka, göngujakka.

Þar að auki fékk ég dúkristu eftir Höskuld Björnsson sem ég er að reyna að ákveða hvar skuli hanga, salt og piparkvarnir (sem koma sér mjög vel), eina bók um fánýtan fróðleik og aðra um margnýtan fróðleik. Lítið fór fyrir skáldsögunum en ég fékk þó Konungsbók eftir Arnald Indriðason. Svo voru það auðvitað sessurnar sem við Una fengum. Við erum nefnilega iðulega að drepast í afturendunum eftir að hafa setið á borðstofustólunum okkar í hálftíma eða lengur. Forláta rauðar sessur með hvítum doppum prýða nú heimilið. Ostaskeri bættist í skúffuna og jóladúkur á stofuborðið (stílað á Unu reyndar en ég nýt góðs af þessu líka).

Á morgun er það svo bara vinnan. Það er nú frekar fúlt. Ég er svona að fatta það núna. En ég treysti því bara að enginn sé að fara að leggja parket fyrir nýja árið.

Að passa

nóvember 27, 2006

Já ég er föðurbróðir þessa dagana. Við Una sáum um að passa litla krílið á laugardaginn á meðan þau voru í brúðkaupi hjá Hafsteini og Hrefnu, sem er við þetta tækifæri óskað innilega til hamingju með daginn. Ég verð að segja að sú stutta er mjög skemmtileg, en langsamlega skemmtilegast var að gefa henni graut að borða. Hún gapti svoleiðis og geiflaði sig á meðan hún beið eftir næstu skeið og ég, óvanur maðurinn, hafði ekki undan við að láta „flugvélina koma fljúgandi með matinn“. Nokkrum sinnum gafst hún upp á mér og lokaði bara munninum, eftir að hafa haldið honum galopnum langtímum saman. Þetta tókst þó á endanum.

Ég þurfti svo frá að hverfa, en ég þurfti suður í Kópavog til þess að spila eignum mínum frá mér í fjárhættuspili. Una stóð því vaktina til miðnættis og svæfði Áslaugu Lilju með  (að sögn) undurfögrum söng sínum.