Archive for the ‘Fjölmiðlar’ Category

Um mitt blogg og annarra

mars 12, 2007

Undanfarin misseri hef ég mjög litla nennu haft í að skrifa um stjórnmál og almenn málefni sem eru í umræðunni hverju sinni. Nokkrum sinnum hef ég skrifað slíka færslu og svo strokað það allt út því mér finnst ég engu hafa við að bæta o.s.frv. Það er frekar að ég skrifi um eitthvað sem mér finnst smávægilegt.

En ég les nú moggabloggið eins og aðrir og mun nú hafa alltof mörg orð um það. Um Smáralindarbæklinginn mætti segja, eins og einhver er eflaust búinn að segja, að þrátt fyrir ofsafengna framgöngu lektorsins góða er forsíðumyndin dálítið skrýtin. Sennilega hefði ég ekki leitt hugann að því nema vegna þess að umræðan kom upp, en myndin sendir að mínu mati samtímis út ósamræmanleg skilaboð. Þetta er fermingarþema og fermingin gengur víst út á að komast í fullorðinna manna tölu (eða er eitt skref á þeirri leið).

Klæðnaðurinn á stelpunni er fullorðinslegur og kannski meira í átt við klæðnað á 18-20 ára manneskju en fermingarbarni (háir hælar, háir sokkar, þröngar buxur usw.) en stellingin er á sama tíma einhvers konar vísun í Línu langsokk að sögn fulltrúa Smáralindar. Persónulega fannst mér stellingin ekki kynferðisleg. En svo er stelpan umkringd einhverjum böngsum og taufígúrum. Og hvað er þá myndin að sýna? Maður veit það ekki alveg, stelpu sem hermir eftir Línu langsokki, leikur sér að böngsum en klæðir sig samt eins og hún sé tvítug. Slík mynd gefur einhvers konar blendin skilaboð og býður upp á hvers kyns túlkun, saklausa og ekki svo saklausa. Það ræðst af þeim sem á horfir. Þá hefði verið betra að leggja áherslu á „námsmanninn“ eða „íþróttamanninn“ eða einhvern æskilegan hluta af lífi unglings sem ætlar sér að verða eitthvað í lífinu; mynd sem er flott en jafnframt eindregin og býður aðeins upp á þá túlkun átti að koma áleiðis og enga aðra. Unglingur er þegar allt kemur til alls einhvers konar millistig á milli barns og fullorðinnar manneskju og því þýðir ekkert hálfkák þegar kemur að þeim skilaboðum sem við gefum þeim, og þeim skilaboðum sem við látum gefa frá sér.

Ætli málið sé ekki bara að myndin á forsíðunni sé frekar vanhugsuð (eins og viðbrögð lektorsins) og kannski frekar innantóm. Það er alveg hægt að gagnrýna þessa mynd, svo mikið er víst.

Sami lektor talar á blogginu sínu um Kastljósið og hvernig það blandar saman sorglegum umfjöllunarefnum og léttara efni. Við lesturinn skynjaði maður að slíkt virðist fara mjög í taugarnar á henni. Að viðtöl við þolendur ofbeldis væru sýnd í sama þætti og dansatriði eða viðtal við leikskáld um nýtt leikrit þótti henni ekki gott. Þannig væri verið að þvinga fólk til þess að hlæja ofan í þjáningar Breiðavíkurdrengjanna, og að Breiðavíkurmálið væri sett í „skemmtilegt samhengi“!

Þessu er ég ósammála. Áhorfendur hafa í fyrsta lagi fjarstýringu við höndina og geta lækkað í tónlistaratriðinu eða skipt um stöð ef þeir eru eftir sig eftir alvarlegt viðtal. Það gerði ég í það minnsta eftir einhver Breiðavíkurviðtöl. Í öðru lagi er það ekkert samhengi að eitt atriði komi á eftir öðru. Það er einkenni þáttar eins og Kastljóss, samanborið við t.d. leikið efni, að næsta atriði er einmitt ekki í neinu samhengi við það sem á undan fór. Í tilfelli Kastljóssins virkar það ágætlega. Breiðavíkurviðtöl voru ekkert „álegg í samloku skemmtiatriða“ eins og hinn meistaralega ósmekklegi lektor hélt fram á blogginu sínu.

En það er samt samræmi í þessu hjá henni, þ.e. skoðun hennar á Kastljósinu og viðbrögð hennar við fermingarbæklingnum. Viðbrögðin voru ofsafengin og vanhugsuð, og hvort tveggja særandi fyrir stelpuna á myndinni og mjög til þess fallin að grafa undan málstað og trúverðugleika róttækra feminista og væta „bitrar piparjúnkur“-stimpilinn úr bleki. Það er því óhentugt fyrir hana að jafnólík atriði séu sýnd hvert á eftir öðru í Kastljósinu. Þau krefjast þess að hún dansi með fyrir framan sjónvarpið þegar salsaatriðið er í gangi, gráti svo með ekkasogum yfir viðtalinu, skellihlæi svo að leikna innslaginu og slái sér á lær í lokin. Þetta er henni ofviða, hún nær sér ekki úr „samhenginu“ og hlær í gegnum allt viðtalið (ósmekklegt hjá mér?).

Ég efast um að það hefði verið betra hjá Kastljósinu að helga heilan langan þátt málinu og sýna öll viðtölin á einu eða tveimur kvöldum, svo bloggarar eins og lektorinn gætu sest við lyklaborðið að lítt athuguðu máli og viðhaft stóryrði og fúkyrði. Þess í stað var umfjölluninni dreift á mörg kvöld og fólk látið átta sig á því sem var verið að segja frá smátt og smátt.

Kannski hefði verið betra að sýna henni myndina af forsíðu fermingarbæklingsins smátt og smátt, einn bita úr púsluspilinu á hverju kvöldi, og leyfa henni að átta sig á myndinni smátt og smátt. Þá hefði hún kannski ekki þurft að taka færslurnar sínar út af blogginu og skapa sér slæma ímynd.

Slátrun í beinni

desember 18, 2006

Næsta sólarhring munu allir blogga um Kompás. Ég hef fátt um þáttinn að segja efnislega, enda ekki hægt að dæma menn seka út frá fjölmiðlaumfjöllun.

1. Munurinn á þessari umfjöllun og umfjöllun DV um málið fyrir vestan er að hér virðast fjölmiðlamenn vinna með og fyrir meinta þolendur, eða e-a af þeim a.m.k. DV vann hins vegar beinlínis í óþökk meintra þolenda og eyðilagði fyrir þeim málið með því að knýja manninn til þess að fremja sjálfsvíg áður en nokkra vitræna niðurstöðu var hægt að fá í það. Hann dó því hvorki dæmdur né sýknaður og fórnarlömbin uppskáru bara óumbeðna umfjöllun og áreiti, eftir því sem maður kemst næst.

2. Helsti gallinn var sá að segjast vera með alls konar hitt og þetta undir höndum – en ætla alls ekki að sýna það, af því að það væri svo ógeðfellt. Til hvers var þá verið að seinka þættinum til hálfellefu? Til hvers var verið að vara sérstaklega við atriðum í þættinum? Til þess að geta sýnt Guðmund Jónsson að rúnka sér heima í sófa og tala sænsku? Hvað sannar það fyrir mér per se? Jú, að hann rúnki sér og kunni sænsku.

Til fjölmiðlamanna

nóvember 16, 2006

Ykkur er óhætt að róa aðeins niður fréttaflutninginn af Tom Cruise, Katie Holmes, Suri Holmes-Cruise og fyrirhuguðu brúðkaupi þeirra Cruise og Holmes. Holmes er helst fræg fyrir að vera með Cruise, en ferill Cruise er nú á niðurleið. Cruise er þar að auki í rugludallasamtökum sem aðhyllast sci-fi trúarbrögð og hefur dregið Holmes með sér inn í þá menningu. Spurning hvað Cruise-Holmes gerir í þeim efnum.

Hvað ætli þessi færsla skili mér mörgum heimsóknum frá leitarvélum?

Langreyðið

október 22, 2006

Í þessari frétt á mbl.is má sjá myndasýningu af langreiðinu sem var landað í Hvalfirði fyrir skemmstu. Notkunin á orðinu langreyða í þeirri myndasýningu er til fyrirmyndar.

Hver vill fita okkur?

október 19, 2006

Bakþankar Fréttablaðsins í dag eru ritaðir af Dr. Gunna. Það er alltaf gaman að lesa bakþankana, stundum eru þeir mjög skemmtilegir og útpældir og stundum algjört rugl. Dr. Gunni byrjar ekki vel í þetta skiptið þegar hann segir: „Stærri helmingur heimsbyggðarinnar dregst sífellt aftur úr, vannærður með rifbeinin út í loftið en minni helmingurinn, og þar á meðal við, verður að sama skapi feitari.“

Það er ekki oft sem menn hrista lesandann af sér á fyrstu metrunum en Dr. Gunni fer nálægt því þarna með því að tala um misstóra helminga einnar heildar. Þetta kemur bara eitthvað svo klaufalega út.

Helmingur