Archive for the ‘Fjölmiðlar’ Category

Fólksfjölgunarvandinn

mars 26, 2008

…hann er ekki í tízku í dag. Hvenær var síðast rætt um fólksfjölgunarvandann?

Moggabloggið löðrungað

desember 9, 2007

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1307903

Hver er þessi Tómas eiginlega?

desember 3, 2007

Merkilegt hvernig öll afkvæmi sumra verða rosalega sýnileg í samfélaginu.

Samtíningur

nóvember 24, 2007

Skemmtileg grein í Lesbókinni í dag eftir Ólaf Teit Guðnason. Mæli með henni. Þar var einnig grein eftir Magnús Sigurðsson, bekkjarbróður Unu. Sú grein var líka skemmtileg. Lesbókin lifi.

Slagorð N1 í auglýsingum þeirra hljóðar svona: „Krafturinn í keppnina, færir þér heppnina.“ Ég hata þetta slagorð. Hvað þýðir þetta? Á þetta að fá mig til að kaupa eitthvað?

Auglýsingaherferð Fréttablaðsins er mjög hallærisleg fyrir þær sakir að hún byggist aðallega á því að Fréttablaðið sé eina blaðið sem kemur út alla daga vikunnar.  Það er svo sem ekki hægt að rengja það, enda sunnudagsblað Moggans dálítið eins og laugardagsblað númer tvö, en þetta er aðeins of mikill tittlingaskítur til að vera aðalatriði í heilli auglýsingaherferð. Það er þá nokkurra klukkustunda gluggi á viku sem Mogginn kóverar ekki samdægurs, en er þess í stað með efnismeira sunnudagsblað.

Badminton er skemmtileg íþrótt. Ekki get ég talist mikill meistari en er allur af vilja gerður. Góð brennsla og hægt að taka jafnmikið á því og maður vill. Ekki jafnmikill munur á kynjunum heldur, ólíkt til dæmis …lyftingum… þá er ekkert því til fyrirstöðu að stelpur geti skotið drengjum ref fyrir rass.

Bílaleigan Kok þarf að skipta um nafn. Þetta er versta vörumerki sem ég nokkru sinni séð.  Jájá, ég er að tala um þetta hér og auglýsa fyrir þannig fyrir þá og allt það. En ég er persónulega mjög ólíklegur til að skipta við þetta fyrirtæki því ég hef sjálfkrafa neikvætt viðhorf gagnvart því.

Ætli bókin um Guðna sé ekki nokkuð áhugaverð?

Nosejob

nóvember 3, 2007

Mér finnst forkeppnin fyrir Evróvisjón mjög skemmtileg. Nafnið á þættinum er hins vegar fáránlegt. Ég skil ekki hvað Laugardalslaugin kemur þessu við.

Bill Gates er ekki lengur ríkastur

júlí 4, 2007

Hlýtur það ekki að tengjast því að hann er að vinna skipulega að því að gefa frá sér auðæfi sín?

Fréttir

júní 4, 2007

Það getur verið gaman að horfa á fréttir.

Í fyrsta lagi var það fréttin hennar Þóru Arnórsdóttur um mávinn í Leirvogshólmanum. Hver er dularfulli gamli maðurinn sem kom í hólmann? Af hverju hvarf hann fyrir þremur árum? Hvert fór hann? Hver var hann? Dularfulla, gamla manninn bar margoft á góma í þessari löngu frétt. Ég held að Þóra þurfi að fá þau Jonna, Önnu, Finn og Dísu til þess að leysa gátuna og lenda í dálitlum ævintýrum í leiðinni.

Svo var það fréttin hans Sigurfinns um sjávarútvegsmálin og þorskkvótatillögur Hafrannsóknastofnunar. Hann var í Garði, held ég, og tók þar nokkra starfsmenn útgerðar tali. Hann talaði við verkstjórann í fiskvinnslunni, en hann hét Þorsteinn. Svo talaði hann við stýrimann, Þorstein að nafni. Einnig ræddi hann við skipstjóra og útgerðarmann sem hét Þorsteinn. Ekki nóg með þetta heldur ræddi hann við fiskverkakonuna Þorsteinsínu.
Ég krefst þess að Sigurfinnur hætti þrálátri mismunun sinni gegn fólki sem ekki heitir nöfnum sem byrja á ,,Þorstein-„. Þetta er sjúkt.

Blóð, afköst, sjónvarp og dálítil pólitík.

apríl 16, 2007

Það er kominn tími til að skella sér í Blóðbankann og láta blóð af hendi rakna til samfélagsins. Það er kjörin leið til þess að láta sjálfum sér líða vel, en eins og þið vitið gerir maður aldrei neitt af óeigingjörnum ástæðum. Allt fyrir mig.

Ég hef haft mikla þörf fyrir það undanfarið að verðlauna sjálfan mig fyrir eitthvað sem ég hef alls ekki afrekað. Ástundun námsins gæti hafa verið meiri undanfarið (fyrir utan ritgerðaskrif og verkefnaskil og slíkt) en samt finnst mér alltaf í lok dagsins að ég hafi verið að gera voðalega mikið. Sem er ekki alveg rétt.

Í gær megnaði ég þó að fara yfir 70 glærur á meðan ég horfði á Boston Legal og Dexter. Tel að ég hafi meðtekið fróðleikinn og söguþráðinn. Hvorugt var kannski mjög flókið.

Ég held að ég hafi áður lýst ánægju minni með þættina um Dexter hér á síðunni. Þeir, ólíkt flestu öðru sem frá BNA kemur þessi misserin, hafa söguþráð sem hefur byrjun, ris og endi. Nú fer t.d. að draga til tíðinda og línur eru farnar að skýrast. Það er fyrst og fremst spennandi að sjá hvernig Dexter mun murka lífið úr kærasta systur sinnar og ná að fela slóð sína áður en þáttaröðinni lýkur.

Aðrir þættir eru ekkert annað en útþynnt endaleysa. Má þar á meðal nefna Lost (Úti á þekju), Desperate Housewives (Þröngar eiginkonur)  og Ugly Betty (Ljóta jólatréð). Ég hef áður talað um tónlistina í Lost og DH. UB státar af nákvæmlega eins tónlist og DH. Það er: „Nú-gerist-fyndið. Þetta-þetta-er sniðugt. Tilbúin-bráðum. Nú-á-að-hlæja.“ Finnið fyrir mig breskan þátt sem hefur svona tónlist. Ef þið finnið hann skal ég bjóða ykkur í mat í maí.

Sjónvarpsefni sem virkar: Auglýsingar Framsóknarflokksins. Alltaf er til nóg kapítal fyrir sjónvarpsauglýsingar á þeim bænum. Jón Sigurðsson stendur sig eins og hetja í aðalhlutverkinu, syndir, hlær, borðar verkamannasamlokur og flytur boðskapinn sem menn vilja heyra; kaffið á köflótta brúsanum skal áfram verða heitt eftir kosningar. Samlokurnar verða áfram smurðar eftir kosningar og settar í nestisboxin. Það er í raun mesta furða hvað hann kemur vel út, því að öllu jöfnu er framkoma hans (þó hún sé til fyrirmyndar) gamaldags.

Lesendur skulu þó ekki túlka þetta sem svo að ég ætli mér að kjósa Framsóknarflokkinn í vor. Því fer fjarri.

Hver hefur vinninginn?

apríl 9, 2007

Jæja, hvaða þáttur er ykkur minnisstæðastur? Allt miklir gæðaþættir.

1. Inspector Morse (John Thaw, Rúv)

2. Derrick (Horst Tappert, Rúv)

Derrick og Morse

3. A touch of Frost ( David Jason, Stöð 2)

4. Prime suspect (Helen Mirren, Stöð 2)

Frost og Prime Suspect

5. Taggart (Mark McManus, Rúv)

6. Maigret (Bruno Cremet, Rúv)

Taggart og Maigret 2

7. The Ruth Rendell Mysteries (George Baker, Rúv)

The Ruth Rendell Mysteries

Ýmislegt

mars 28, 2007

The Jerry Springer Show

Ég hef átt í deilum við félaga minn undanfarið. Þær snúast um það hvort þáttur Jerry Springer sé leikinn eða ekki. Hann heldur því fram að þetta sé ekta, en ég tel að mest af þessu sé leikið.

Spaugstofan og þjóðsöngurinn

Kastljóss-Sigmar átti ágætis líkingu í því máli á blogginu sínu. Hann telur að menn ættu að setja Múhameð spámann þar inn í staðinn fyrir þjóðsöng og fána. Góður punktur hjá honum. Svo átti einhver annar þá ábendingu að virðing er áunnin og það er í raun fjarstæðukennt að lögbinda sjálfa virðingu fólks fyrir ákveðnum fyrirbærum. Annað hvort virðir fólk þau eða ekki. Ég get ekki séð að það sé beinlínis gert. En í lögum um þjóðsönginn er öll önnur meðferð á honum en sú hefðbundna bönnuð og í 1. mgr. 12. gr. fánalaganna er í það minnsta blátt bann við því að menn óvirði fánann í orði eða verki.

Engu að síður er þetta tvíeggjað sverð. Eða margeggjað (marg-eggjað, ekki mar-geggjað) ef slíkt sverð hefur einhvern tíma verið til. Ég er margklofinn í þessu máli, í herðar niður jafnvel.

Nú er það svo að fyrirbæri eins og þjóðsöng og þjóðfána mun ákveðinn hópur virða og halda mikið upp á. Næstum því óumflýjanlega mun einhver annar hópur innan samfélagsins fyrirlíta þessi fyrirbæri með jafnafgerandi hætti og fyrri hópurinn virðir þau. Annar hópurinn gerir sína afstöðu ljósa, og þá þarf hinn hópurinn að gera sína afstöðu ljósa, t.d. með því að setja upp pípuhatt í fánalitunum. Það gæti haft í för með sér álíka fána- og þjóðsöngsmenningu og er í Bandaríkjunum, þar sem heiður þessara fyrirbæra er hafður í hvað mestum hávegum. Menn klæðast fánajakkafötum og fánapípuhöttum og keyra um á bílum í fánalitunum og dreifa plakötum og miðum með fánanum á. Á hverjum íþróttaviðburði er fundin út ný leið til þess að þjösnast á þjóðsöngnum (sem fjallar um fánann nb.) með nýjum hætti – allt til þess að sýna ást fólks á föðurlandinu.

Nú gæti ég auðvitað sagt að mér væri alveg sama þótt sú yrði niðurstaðan, enda séu þetta bara skurðgoð sem ekki eigi að dýrka. En ég held að svarið sé samt á þá leið að mér sé ekki sama. Þessi bandaríski fánakúltúr hefur lengi farið í mínar fínustu. Ég verð samt að hafa þann fyrirvara á að ég veit ekki hvort fánamenningin þar vestra er vegna skorts á reglum um þetta, eða út af einhverju allt öðru.

Ég gæti semsagt verið fylgjandi reglum um þessi atriði af því að ég nenni ekki einhverjum hallæriskúltúr með þessi fyrirbæri. Hins vegar væru ástæðurnar ekki þær að ég og Una höfum alltaf fánahyllingu við sólarupprás og fellum tár saman þegar þjóðsöngurinn er sunginn á Laugardalsvelli. Grínið hjá Spaugstofumönnum særði mig ekki, mér fannst það frekar fyndið reyndar.

Þróunarkenningin

Skv. þessari mynd sem ég veit ekki hvort er áreiðanleg trúir minnihluti Bandaríkjamanna á þróunarkenninguna. Nú á ég líka í vandræðum með að gera það upp við mig hvort þessi og þessi séu að leika í grínþætti eða hvort þeir eru í alvörunni að reyna að sannfæra einhvern. Úff.