Archive for the ‘Daglegt líf’ Category

Afburðagóð ályktunarhæfni

apríl 30, 2007

Það er langt um liðið síðan ég hef gert mannlífsathugun eins og þær sem ég skrifaði reglulega um fyrir nokkrum árum síðan. En svo vildi til að ég fór í Krónuna á hádegi, eftir prófið í almenningsálitinu, dauðþreyttur eftir að hafa vaknað klukkan 6.00 til að læra. Þegar ég var búinn að týna grundvallarnauðsynjavörur (á borð við Kappakókómjólk, furuhnetur og pestó) í körfuna fór ég í röðina við kassann. Tvær konur voru á undan mér. Önnur þeirra var mikil frú. Tilhöfð í múnderingu með perlufestar um hálsinn, í tískuleðurjakka og með leðurhanska. Þetta var sú týpa sem fer með andlitsfarða í sund, ef þið kannist við hana. Þegar röðin færðist áfram og hún gekk hnarreist að kassanum rakst hún utan í rekka af labello varasalva. Tvær pakkningar hrundu í gólfið og lágu þar. Hún hunsaði þær og tók til við að raða glæsilega valinni matvöru sinni á færibandið hjá lágkúrulegum búðarstarfsmanninum.

Þegar maturinn hennar var kominn á borðið var komið að því að setja körfuna í körfustaflann undir  enda þess. Konan staðnæmdist. Henni varð starsýnt á körfurnar sem voru þar fyrir. Þeim hafði ekki verið raðað vel. Sú efri var skökk ofan í þeirri neðri, og annað handfangið lá ekki haganlega út við enda hennar, heldur var það lagt inn á við og hefti því inngöngu næstu körfu ofan í staflann. Hún hikaði. Hún beygði sig. Hún hætti við. Hún hristi hausinn. Hún leit á konuna á milli okkar með svip sem sagði ,,Sééééérðu þennan smánarblett?“ Hún rétti úr sér og horfði á óskapnaðinn. Hún hristi hausinn aftur. Að lokum beygði hún sig niður og rétti körfurnar af. Að því loknu sagði hún hátt og snjallt: ,,Það var svosem ekki við því að búast af þessum meeeðal Íslendingi að hann gæti gengið rétt frá þessu. Ha? Of erfitt fyrir meðal Íslendinginn.“ Hún beindi orðum sínum sérstaklega til konunnar fyrir aftan sig í röðinni, viss um að sú yrði sér sammála.

,,Íslendingar eru nú ekki beinlínis þekktir fyrir að vera gáfuð þjóð.“ bætti hún við og gjóaði augunum að tímaritastandinum. Týndur sonur Björgvins Halldórssonar, Siggi, er víst kominn í leitirnar. Enginn sagði neitt. ,,Svo einstaklega heimsk þjóð!“ sagði hún þá og horfði til konunnar í leit að samþykki enn á ný. Ályktunarhæfni sem þessi er sérlega sjaldgæf og aðeins á færi þeirra allra gáfuðustu. Venjulegir félagsvísindamenn þurfa a.m.k. 120 manna úrtak til þess að geta ályktað um heilar þjóðir, helst miklu meira. En þessi frú, í krafti yfirburða sinna, þurfti ekki nema einn í úrtakið. Heimska fíflið sem gekk ekki frá körfunni rétt.

,,Nja, það fer nú tvennum sögum af þvííí.“ – sagði aftari þá með óskýrum framburði, svo það hljómaði meira eins og ,,hnjaaaa, hna fe nú hnennum hnjögum af hnjííí.“ Hún grúfði andlit sitt hálft ofan í hálsmálið á vindjakkanum og horfði upp í gegnum hárið, skömmustuleg.

Frúin fraus í eitt augnablik þegar hún heyrði sér andmælt. Hún studdi sig við færibandið og glennti upp augun. Höfuðið rann fram og hálsinn virtist lengjast þegar hún horfði rannsakandi á konuna. Umframhúðin á hálsinum kláraðist að lokum og höfuðið staðnæmdist. Það var fyrst núna sem hún tók eftir því að konan sem andmælti henni við kassann var sjálf ekkert annað en próletari. Meðalmennskan holdi klædd. Gallabuxur, strigaskór og vindjakki. Guð minn góður.

Fleiri orð voru ekki sögð þennan dag við kassann, en vonandi fæ ég að njóta ályktunarhæfni fínu frúarinnar aftur í nánustu framtíð.

Uppvöxtur litla trés

apríl 29, 2007

Þar sem ég sit hér við gluggann í lesherberginu og þykist vera að læra sé ég að tréð sem ég fékk úr garði foreldranna síðasta vor er byrjað að laufgast. Mér tókst nefnilega að taka gríðarlega stóran moldarhnaus með því og það hefur sennilega ekkert tekið eftir því að það er ekki lengur í Garðabænum, heldur niðri í miðbæ. Eflaust skemmir heldur ekki fyrir að loðni, flækti, kaldi og hrakti fresskötturinn úr næsta húsi skítur reglulega í beðið og leggur þannig sitt af mörkum.

Ég er orðinn gersamlega sjúkur í sumarið. Þessi próf eru að flækjast alveg svakalega mikið fyrir mér. Get ég ekki tekið þau seinna bara?

Ég er búinn að ákveða hvað ég geri eftir prófin. Þann ellefta verð ég í vinnunni, þann tólfta kýs ég og þann þrettánda fer ég í hjólreiðatúr eitthvað út fyrir borgarmörkin. Fjórtánda til átjánda verð ég í vinnunni vonandi og þríf húsið á kvöldin. Helgina nítjánda til tuttugasta ætti maður kannski að smella sér á Kárahnjúka með einhverjum góðum mönnum.

Svo eigum við von á amerískum og hondúrískum (?) gestum í vikunni þar á eftir. Það eru þau Lasheena og Pablo. Planið er að sýna þeim eitthvað skemmtilegt, láta þau synda í Seljavallalaug og grilla fyrir þau og svona, áður en þau halda áfram í Evrópuför.

Seljavallalaug

Aaaahhhh! Sumar. Núna. Takk.

Blóð, afköst, sjónvarp og dálítil pólitík.

apríl 16, 2007

Það er kominn tími til að skella sér í Blóðbankann og láta blóð af hendi rakna til samfélagsins. Það er kjörin leið til þess að láta sjálfum sér líða vel, en eins og þið vitið gerir maður aldrei neitt af óeigingjörnum ástæðum. Allt fyrir mig.

Ég hef haft mikla þörf fyrir það undanfarið að verðlauna sjálfan mig fyrir eitthvað sem ég hef alls ekki afrekað. Ástundun námsins gæti hafa verið meiri undanfarið (fyrir utan ritgerðaskrif og verkefnaskil og slíkt) en samt finnst mér alltaf í lok dagsins að ég hafi verið að gera voðalega mikið. Sem er ekki alveg rétt.

Í gær megnaði ég þó að fara yfir 70 glærur á meðan ég horfði á Boston Legal og Dexter. Tel að ég hafi meðtekið fróðleikinn og söguþráðinn. Hvorugt var kannski mjög flókið.

Ég held að ég hafi áður lýst ánægju minni með þættina um Dexter hér á síðunni. Þeir, ólíkt flestu öðru sem frá BNA kemur þessi misserin, hafa söguþráð sem hefur byrjun, ris og endi. Nú fer t.d. að draga til tíðinda og línur eru farnar að skýrast. Það er fyrst og fremst spennandi að sjá hvernig Dexter mun murka lífið úr kærasta systur sinnar og ná að fela slóð sína áður en þáttaröðinni lýkur.

Aðrir þættir eru ekkert annað en útþynnt endaleysa. Má þar á meðal nefna Lost (Úti á þekju), Desperate Housewives (Þröngar eiginkonur)  og Ugly Betty (Ljóta jólatréð). Ég hef áður talað um tónlistina í Lost og DH. UB státar af nákvæmlega eins tónlist og DH. Það er: „Nú-gerist-fyndið. Þetta-þetta-er sniðugt. Tilbúin-bráðum. Nú-á-að-hlæja.“ Finnið fyrir mig breskan þátt sem hefur svona tónlist. Ef þið finnið hann skal ég bjóða ykkur í mat í maí.

Sjónvarpsefni sem virkar: Auglýsingar Framsóknarflokksins. Alltaf er til nóg kapítal fyrir sjónvarpsauglýsingar á þeim bænum. Jón Sigurðsson stendur sig eins og hetja í aðalhlutverkinu, syndir, hlær, borðar verkamannasamlokur og flytur boðskapinn sem menn vilja heyra; kaffið á köflótta brúsanum skal áfram verða heitt eftir kosningar. Samlokurnar verða áfram smurðar eftir kosningar og settar í nestisboxin. Það er í raun mesta furða hvað hann kemur vel út, því að öllu jöfnu er framkoma hans (þó hún sé til fyrirmyndar) gamaldags.

Lesendur skulu þó ekki túlka þetta sem svo að ég ætli mér að kjósa Framsóknarflokkinn í vor. Því fer fjarri.

Málshættir

apríl 10, 2007

Tvö páskaegg þetta árið. Eitt af minnstu gerð. Sérlega bragðvont. Málshátturinn var:

Dramb er falli næst

Svo var það konfektpáskaeggið sem Una fékk í vinnunni. Ekki amalegur kaupauki. Ágætt á bragðið. Nóa-konfektið er samt alltaf jafn litlaust. Málshátturinn var:

Orð eru til alls fyrst

Hafðu þig svolítið í frammi svona, láttu í þér heyra. Segðu skoðun þína. En ekki of mikið. Alls ekki of mikið! Haltu þig á mottunni, helst. Nema stundum.

Belgir

mars 10, 2007

Hér er ekki átt við belgi almennt, heldur nánar til tekið ólátabelgi. Slíkir belgir hafa stundum verið að klifra upp á þakið á lesherberginu hér á Freyjugötunni og dansa línudans (e. walk a tightrope, ekki linedancing) ofan á veggnum sem lokar okkur af frá Þórsgötunni, fyrir þá sem kunnugir eru. Hefur þetta verið mér til takmarkaðrar armæðu en mér hefur ekki litist á þennan línudans, þar sem krakki sem hrynur 3 metra niður á steypta stétt gæti farið illa út úr viðskiptum sínum við hana. Kom ég mér því fyrir í dyragættinni núna áðan og ávarpaði einn belginn þegar hann var að spóka sig á þakinu. Ég bað hann um að vera vinsamlegast ekki að þessu og þakkaði honum svo fyrir samstarfið. „Já“ sagði hann.

Ég setti mig svo í stellingar, hugsaði: „Bannsettir óþekktarormar sem gengur ekkert gott til! Koma eflaust og grýta húsið með máfseggjum og tvíbökum! Uppeldið nú til dags, í mínu ungdæmi…“ En nei. Þeir eru snarhættir þessu og leika sér nú á hættuminni hátt á svæðinu. Það er von eftir allt…

Freistandi

mars 4, 2007

Það er freistandi að panta sér svona á netinu og klína þessu svo á jeppana sem eru á bókhlöðuplaninu. En það gerir maður ekki því ýmislegt getur ráðið því hvernig fólk leggur, t.d. hvort bíll sem var í næsta stæði var skakkur o.s.frv. Því verður þó ekki neitað að fólk sem leggur leið sína á bókhlöðuna og í Bændahöllina á jeppum virðist vera gersamlega vanhæft til þess að leggja almennilega í stæði.

Ég sá hins vegar bíl við Smáralind í gær með svona límmiða. Einhver hefur pantað hann af netinu. Rangeygðir bifreiðastjórar ættu því að vara sig.

Hvað er að gerast?

febrúar 11, 2007

Nú í hádeginu kveikti ég á sjónvarpinu til þess að sjá hádegisfréttirnar á Stöð 2 og Silfrið. Sagði Una þá að ég væri alveg eins og pabbi minn, alltaf hlustandi á fréttir.  Því næst hellti ég Kellogg’s Special K í skál og hugðist snæða það. Mælti hún þá: „Af hverju seturðu svona mikið í skálina? Þú verður að passa að mjólkin fari ekki öll út fyrir þegar þú hellir henni yfir.“ Hafði ég þá á orði að hún einnig líktist einhverjum af eldri kynslóð.

Jaxlinn, drossían og fjarsýnin.

janúar 24, 2007

Dagurinn í dag er merkilegur fyrir margar sakir. Una fór, að eigin sögn, í auðveldustu endajaxlatöku sögunnar. Liggur við að tennurnar hafi hrunið úr henni við það eitt að sjá tannlækninn.  Fórum svo í sjónmælingu og komumst að því að við erum glámskyggn mjög, eins og við höfum verið undanfarna áratugi. Stærsta afrek dagsins er þó óumdeilanlega það að ég keypti drossíu. Þetta er því fyrsti dagur ævi minnar sem ég á tvo bíla. Þarf þó að selja Golfinn á næstunni.

Nýi vagninn er Volvo 850, árgerð 1994. Pláss. Svo mikið pláss.

Smá uppfærsla

janúar 3, 2007

Gott kvöld. Færslur hafa verið stopular. Af mér er það helst að frétta að ég er bara alltaf í vinnunni og er að spá í að fá mér nýjan bíl. Það er mér ekki ljúft að keyra ’95 VW Skrjóð um götur bæjarins og einungis nýlega varð mér ljóst að það er mér heldur ekki skylt. Hægt að kalla þetta vakningu.  Þannig að ef þið þekkið einhvern sem vill kaupa 11 ára gamlan VW Golf með endurnýjaðri kúplingu, pústi, pönnu og öxli þá látið þið mig bara vita. Hann var sprautaður árið 2000 minnir mig svo lakkið er nokkuð fínt bara, svona þegar drullan hefur verið skoluð af honum. Verð mjög umsemjanlegt en það má segja að uppsett sé 150.000.

Hvað á maður að fá sér í staðinn? Ég er að hugsa um kannski Ford Focus. Ku vera lág bilanatíðni.

Maður fylgist með fréttunum eins og aðrir þó lítið fari fyrir tjáningu á þessum síðum um þau efni. Kannski að heimurinn geti komist af án magnaðrar túlkunar minnar í bili?  Vil þó segja það að myndir frá aftöku Saddams Hussains sýndu aðeins eitt. Dauðarefsingar eru ógeðfelldar.

Skólinn byrjar svo seint svona eftir jól. Ekki fyrr en 15. janúar. Það er svosem fínt að geta verið í vinnunni aðeins lengur og unnið fyrir skólabókum og ýmsum startkostnaði annarinnar. Svo ekki sé talað um fyrrnefnd bílakaup.

Um skaupið vil ég reyndar leggja orð í belg. Þetta skaup var fyndið að mínu mati. Get ég þar nefnt Magnadjókið (húsmóðirin var fyndnust þar), Plútódjókið, Ólívur Ragnar Grímsson, Baugsdjókið, hverjum er ekki drullusama hvað Sirrý er að gera? og Andra Snjávar eftirherman fyndin líka.

Auðvitað var sitthvað sem var ekki fyndið. T.d. Jón Gnarr að hóta að berja fólk var ekkert fyndið. Nektarmyndir fyrir Geir og Jón í varnarmálinu, ekkert fyndið. Sjálfum finnst mér reyndar að Geir Jón hefði átt að vera fenginn til að leika bæði Geir og Jón, en það er annað mál.

Sitthvað má telja til. Maður hefur svo aftur heyrt fjölda fólks rakka þetta skaup niður og telja þetta jafnvel vera móðgun við landsmenn og endanlega réttlætingu fyrir einkavæðingu Ríkissjónvarpsins. Það er fólkið sem fattaði ekki brandarana og varð svo móðgað þegar því var sagt af útvarpsstjóra að það væri með lélegt skopskyn. Það er auðvitað bara nokkuð fyndið út af fyrir sig að taka skaupinu svona alvarlega. Þannig að þegar fólk skammast í útvarpinu yfir þessu er eins og skaupið sé ennþá í gangi. Mjög skemmtilegt.

Skellti mér á Kalda slóð í fyrradag. Það var ágætis skemmtun en eins og alltaf var miðinn of dýr. 1200 kall. Einhvers staðar sá ég því fleygt að handrit myndarinnar hafi verið skrifað og endurskoðað allt að 50 sinnum áður en farið var í tökur. Skýrir það kannski miðaverðið?  Að kvikmynd og -argerðarmönnum ólöstuðum tel ég að það sé hreinlega ekki nauðsynlegt að skrifa handrit 50 sinnum til að fá þessa útkomu. Svona nokkuð medioker plott verð ég að segja. En ágætt engu að síður.

Allir leikarar stóðu sig ágætlega, en mér fannst Helgi Björns bera af sem trúverðugur ógnvekjandi náungi með greindarvísitölu aðeins undir 100. Aníta Briem kom skemmtilega á óvart og var bara góð, en ég hef aldrei séð hana áður þrátt fyrir að mikið hafi verið látið af gríðarlegum frama hennar í erlendri kvikmyndagerð. Sá eini sem fór eitthvað í taugarnar á mér var Hjalti Rögnvaldsson sem var helst til stirður. Já og svo kyssast Elva Ósk og Þröstur Leó aðeins of mikið með tungunum.

Jól

desember 27, 2006

Þetta var heldur óhefðbundið í ár. Aðfangadagskvöld hjá bróður mínum, með hreindýrssteik sem var meyrari en allt. Jóladagur heima í Háholtinu með rjúpur á boðstólum. Annar í jólum hjá föðursystur minni – með asísku þema! Satay kjúklingur og karrýlamb. Mjög gott. Við skulum segja að ég sé ekki vannærður.

Jólagjafirnar voru ekki af verri endanum. Ég fékk alvöru göngujakka, þriggja laga, frá 66°Norður, göngustafi (með innbyggðum áttavita takk fyrir), bakpoka með öllum réttu ólunum og hólfunum og bókina Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind.

Ég ætla mér því fljótlega að fara og festa kaup á legghlífum og broddum og þá er ég bara nokkurn veginn græjaður. Ég er nú þegar búinn að sjá nokkra tinda í bókinni sem eflaust skarta sínu fegursta með mig ofan á sér. Þess má geta að Una fékk næstum því allan gallann í jólagjöf – nýja gönguskó, göngubuxur, göngusokka, göngujakka.

Þar að auki fékk ég dúkristu eftir Höskuld Björnsson sem ég er að reyna að ákveða hvar skuli hanga, salt og piparkvarnir (sem koma sér mjög vel), eina bók um fánýtan fróðleik og aðra um margnýtan fróðleik. Lítið fór fyrir skáldsögunum en ég fékk þó Konungsbók eftir Arnald Indriðason. Svo voru það auðvitað sessurnar sem við Una fengum. Við erum nefnilega iðulega að drepast í afturendunum eftir að hafa setið á borðstofustólunum okkar í hálftíma eða lengur. Forláta rauðar sessur með hvítum doppum prýða nú heimilið. Ostaskeri bættist í skúffuna og jóladúkur á stofuborðið (stílað á Unu reyndar en ég nýt góðs af þessu líka).

Á morgun er það svo bara vinnan. Það er nú frekar fúlt. Ég er svona að fatta það núna. En ég treysti því bara að enginn sé að fara að leggja parket fyrir nýja árið.