Archive for the ‘Daglegt líf’ Category

Dautt

febrúar 13, 2008

Þetta blogg virðist vera í andarslitrunum. Ég get ekkert að því gert. Bloggþörfin er horfin eins og dögg fyrir sólu. Framundan er líka tími þar sem ég mun ekki gera mikið annað en að skrifa, á tveimur vígstöðvum. Það er þó aldrei að vita nema í grasekkilstíð minni næstu mánuði verði ég trylltur í skapi og geðstirður mjög, og hreyti því einhverjum ónotum í heiminn af þessum vettvangi.

Bóndadagur

janúar 26, 2008

Konan mín fór til vinkonu sinnar að horfa á vídjó í kvöld.

Að henni heimkominni ligg ég í rúminu og les eigið blogg. Hún þykist vera að lesa alvarlega bók um Víetnamstríðið.

,,Ég er svoddan háðfugl,“ segi ég.

,,Hmmm? Jájá, þú ert páfugl…“ segir hún.

Menn spyrja sig…

janúar 14, 2008

…hvort var betra, lambaframparturinn í sveppasósunni, með ofurgóða salatinu og ástralska rauðvíninu á laugardaginn, eða nautasteikin með piparsósunni, leaning oak víninu sem við Una keyptum í Napa og ofurgóða salatinu í gær.

Þessu er vandsvarað. En þetta bliknar auðvitað allt í samanburði við grænmetisbuffið í vinnunni í dag.

Djók

janúar 9, 2008

Munið þið hvar þið voruð stödd þegar Michael Schumacher gerði því skóna að hann myndi hætta keppni í formúlu 1?

Nýtt ár

janúar 7, 2008

Þetta nýja ár byrjar vel og leggst vel í mig.

Bloggblogg. Blogg. Bloggedí. Bloggblogg. Bloggedíbloggbloggblogg.

Dagur

janúar 3, 2008

Dagurinn byrjaði gríðarlega vel…spændist upp í dálítið stress…og endar svo í andlegum dauða. Svo til. Kannski sundsprettur bjargi því.

Ekkert að frétta af Unu

desember 12, 2007

Hún brá ekkert á leik í gær. Hér var þó engin lognmolla, enda komið glænýtt útiljósajólatré til að setja upp úti í porti, komin ljósasería á handriðið við tröppurnar úti og einnig hefur okkur áskotnast nýtt málverk. Málverkið fær að prýða vegginn í stofunni á næstunni.

Klukkan orðin margt

desember 11, 2007

Klukkan er orðin 13.45 en Una hefur enn ekki brugðið á leik. Læt vita um framvinduna síðar í dag.

Samtíningur

október 11, 2007

Ég las það á glæru eftir danskan afbrotafræðing að 0,714% Bandaríkjamanna sitji nú í fangelsi. Það gerir um 2,16 milljónir manna. Þarna erum við að tala um töluvert magn réttlætis.

Ég heyrði borgarstjóra segja í Kastljósinu eitthvað á þá leið að „við erum ekki að selja neina þekkingu út úr Orkuveitunni“ Í kjölfarið fylgdi sú spurning í hverju hið 10 milljarða verðmæti lægi þá og svarið var „Nú bara í þeirri þekkingu og…“ og svo taldi hann upp sitthvað fleira. Ekki að þetta hafi skipt höfuðmáli, en – góður.

Ég heyrði í útvarpinu lag eftir Rúnar Júlíusson, að ég held. Ein ljóðlínan í þessu rokkaða lagi var svona: „ÞAÐ STENDUR HVERGI SKRIFAÐ Á BÓK HVERNIG LÍFINU HÁTTAÐ SKAL.“ Ég tel ríka ástæðu til að gera alvarlegar athugasemdir við þessa fullyrðingu og draga sannleiksgildi hennar í efa. Mætti til dæmis nefna tvö höfuðrit: Líkami fyrir lífið og Biblían.

Rigning

júlí 29, 2007

Eftir alla þessa sólardaga truflar það mann lítið að það sé hellidemba úti. Helst langar mann bara út í rigninguna. Þessi dagur, eins og allir aðrir dagar í sumar, verður góður. Ég er búinn að sofa út eftir að hafa grillað hamborgara og spilað fótbolta uppi í Hvalfirði í gær. Nú tekur við 5 klukkustunda afslappelsi og mögulega útihlaup (úúú tabú-orð!) þangað til ég fer í sjötugsafmæli ástkærrar frænku minnar, Guðrúnar Pétursdóttur eða Unnu eins og hún er oftast kölluð.

Svo er aðsend grein í blaðinu í dag sem er skemmtileg. Nú hef ég bæði verið kallaður áróðursblaðamaður af versta tagi og verið talinn „leggjast lágt“ við skrif mín. Af öllu sem ég hef skrifað í sumar hefur þessi blessaða grein um Mývatn vakið mestu viðbrögðin.

Hér er svo stutt ljóð í tilefni rigningarinnar:

Einu sinni átti ég hest,

situr úti í götu,

þarna siglir einhver inn,

sitt af hvoru tagi.