Archive for the ‘Bækur’ Category

Flott kápa

desember 4, 2007

Hér má skoða tilnefndar bækur í keppni um flottustu bókarkápuna. Þarna inni á milli má sjá kynlega kvisti.

Til dæmis ljósmyndabók með blárri kápu. Hún lítur út eins og kennslubók í félagsvísindum. Það er ástæða fyrir því að ljósmyndir eru oftast á kápu ljósmyndabóka. Það er flottara.

Svo er biblían þarna. Gamla góða. Ég ætla ekki að halda því fram að kápan á nýju biblíunni sé ljót. En við getum slegið því föstu að þetta sé ekki mjög frumlegt.

Dauði trúðsins líka. Þarna má sjá mynd af útitröppum.

Flottasta kápan þarna er að mínu mati Sagan af Bíbí Ólafsdóttur. Ég var bara að fatta það núna fyrst að Béin mynda bragga. Sneddí.

Íslensk úrvalsævintýri

febrúar 11, 2007

WC-lesningin þessa dagana eru íslensk úrvalsævintýri. Í gær las ég ævintýri um kerlingu sem át allar smjörbirgðir heimilisins frá karli sínum. Þegar upp komst um verknaðinn laug hún því að manninum að fluga hefði étið smjörið. Lokaði karlinn þá húsinu og gekk berserksgang þar inni. Endaði sagan svo með því að kerlingin barði karlinn af alefni í andlitið með sleggju, að hans beiðni.

Lauflétt og leikandi

janúar 28, 2007

Ég er að hugsa um að hætta að skrifa á íslensku og gerast rithöfundur á esperantó. Það er stórkostleg hugmynd. Þá munu menn lesa hin viðbjóðslegu verk mín jafnt í Japan og Kína sem í Önundarfirði. Hvers vegna ætti ég að skrifa fyrir Íslendinga? Að skrifa gagnlegar bækur handa Íslendingum, það er eins og að hella úr einum hjólbörum af kúamykju yfir Góbíeyðimörkina.

Hver lét þessi orð falla?

Að kaupa bók

október 29, 2006

Ég fór í göngutúr í dag til þess að hressa mig við áður en ég færi að læra. Þá flaug mér í hug að kíkja í bókabúð og sjá hvort þar væri að finna bækur sem ég gæti notað sem heimildir í ritgerð. Í bókabúð Máls og menningar sá ég að jólabókaflóðið er byrjað og borðin hafa verið hlaðin af nýrri snilld. Ég tók upp sýningareintak af bók sem heitir Svavar Pétur og 20. öldin. Hún ef gefin út af Nýhil og er eftir Hauk Má Helgason. Eftir að hafa þvegið hendur mínar á saurblaðinu fletti ég á upphafssíðuna. Þar er tilvitnun. Oft hefja höfundar bækur sínar á einhverjum fleygum orðum stórmenna eða hugsuða, einhverri magnþrunginni pælingu sem inniheldur í raun allt sem bókin hefur að segja. Tilvitnunin var svona:

What’s the difference between tómið and tómarúmið? Is it like tomheden and tomrummet in Danish (the former being emptiness itself, the latter being an empty room/space)?

– posted on Sigur Rós’s website on 10-5-2005 at 17.31 by Bjössi –

og fyrir neðan stendur: kom upp við leit að íslenskun á ,,null and void“, til þýðingar á tryggingaskilmálum.

Nú þótti mér það tíðindum sæta að einmitt sú bók sem ég tók til nánari skoðunar þarna búðinni, af öllum þeim þúsundum bóka sem þar er að finna, skyldi hefjast á tilvitnun í vin minn, Björn Flóka. Hann er nú orðinn svo merkilegur maður að skáldsaga skuli hefjast á tilvitnun í hann. Ég las svo áfram og á fyrstu blaðsíðunni (bls.7) stendur meðal annars:

„Ég er búinn að vera hér í 47 ár og nokkrar eilífðir. Eilífð eitt: þegar ég var barn. Eilífð tvö: þegar ég varð ástfanginn. Eilífð þrjú: þegar ég varð aftur ástfanginn. Eilífð fjögur: þegar ég gleymi mér við að steikja fisk eða dotta í árabát og fleira þess lags, það er allt sama eilífðin. Eilífð fimm: þegar Una dó.“

Þá stóð ég upp og keypti bókina.

Fyndnustu upphafsorð bókar

október 6, 2006

Eftirfarandi texti er fyndnasta upphaf á skáldsögu sem ég hef rekist á, en hann er úr bókinni The Restaurant at the End of the Universe eftir Douglas Adams:

The story so far:  In the beginning the Universe was created. This has made a lot of people very angry and been widely considered as a bad move.

Lesendur geta komið með fyndnari upphafsorð hér í athugasemdakerfinu, en það verða þá væntanlega mjög skemmtilegar athugasemdir.