Archive for the ‘Atvinna’ Category

Faðmlög í Karphúsi og enn ein færslan um mataræði og heilsu

febrúar 19, 2008

Það var skemmtilegt að vera viðstaddur undirritun kjarasamninga um níuleytið á sunnudagskvöldið. Það var greinilegt að þeir sem þarna voru höfðu unnið mikið undanfarnar vikur, því þeim var svo greinilega létt eftir undirskriftirnar. Karphúsið virðist vera griðland miðaldra karla, enda voru eflaust hundrað karlar um fimmtugt þarna en kannski á annan tug kvenna, ef ég ætti að giska.

Þegar ég kom inn var Sjónvarpið tilbúið með Vilhjálm og Grétar í viðtal, en svo óheppilega vildi til að netþjónn, eða einhver slík græja, hjá sjónvarpinu hrundi. Á meðan tæknimenn sinntu viðgerðum var því ,,Afsakið hlé“ á ríkissjónvarpinu þegar fréttir áttu að vera hafnar. Fólkið í Karpúsinu hópaðist að sjónvarpinu til þess að fylgjast með og sneru baki í þá Grétar og Vilhjálm. Þegar útsending var að hefjast sagði einhver, sem taldi sig ekki heyra nógu vel ,,hækkiði í sjónvarpinu þarna!“ Sennilega eitt skýrasta dæmi um máltækið að leita langt yfir skammt. Hann vildi hækka í sjónvarpinu til að heyra í manninum sem stóð við hliðina á honum. Sjónvarpsmenn tóku þó fyrir hækkunina, enda hefði það skapað óheppileg áhrif.

Við undirskrift ætluðu menn sér að vera voðalega hófstilltir og taka bara þéttingsfast í hönd hvers annars, en framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins fannst meiri fögnuður við hæfi. Hann tók hvern verkalýðsforkólfinn á fætur öðrum og kreisti þá og klappaði þeim fast á bakið og þakkaði innilega fyrir sig. Þá var eins og losnaði um hjá þessum hörkutólum og menn féllust í faðma í hrönnum. Stór maður sást taka annan minni í fang sér og segja ,,komdu hérna, þú skuldar mér koss, helvítis asninn þinn.“ Þeir hafa eflaust rifist um eitthvað í ferlinu öllu saman. Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins lagðist upp á borð fyrir myndatöku.

Fólk sem hefur áhuga á að léttast geri eftirfarandi:

Morgunmatur: Hafragrautur með soyamjólk í morgunmat. Enginn sykur út á. 1,5 dl. af haframjöli er nægilegt fyrir einn.

Hádegismatur: Salatbar eða ávextir. Sleppa sósum í salatbarnum. Ef um er að ræða ávexti er viðmiðið t.d. að niðurskornir og afhýddir breiði ávextirnir úr sér yfir stóran matardisk. Þetta getur verið eitt epli, tvær mandarínu, eitt kiwi og ein pera. Til dæmis.

Kaffitími: Ávextir eða hrökkbrauð (Korni, þunnt, úr humlum t.d., eða Finn Crisp) með mygluosti. Te.

Kvöldmatur: Fá sér mjög vel á diskinn, en bara einu sinni. Grunnreglan er: Engar franskar kartöflur (helst bara engar kartöflur yfirleitt), ekkert ruslfæði. Vatn að drekka með.

Sælgætis og sykraðra gosdrykkja skal ekki neyta. Ásamt hóflegri hreyfingu leiðir mataræði sem þetta til megrunar. Þetta er auðvitað bara ein af mörgþúsund aðferðum til að léttast, sem virkar þó, rétt eins og allar hinar. Nú er bara að ákveða hvað kúrinn á að heita?
Einhverjar hugmyndir?

Sjúkdómsgreining

september 11, 2007

Undanfarnar vikur hef ég hóstað eins og dvergurinn í myndbandinu sem ég birti hér fyrir rúmum mánuði síðan. Ástandið hefur síst farið skánandi síðustu daga og nú í dag dreif ég mig á Heilsugæsluna í Garðabæ. Þar fékk ég staðfestingu menntaðs einstaklings á minni eigin sjúkdómsgreiningu. Ég er með lungnabólgu.

Ég man ekki til þess að hafa fengið lungnabólgu áður. Þegar ég kom heim tók Una á móti mér og sagði glaðhlakkalega: „Ef þú væri með HIV myndir þú bara deyja! Haha!“ En ég er ekki með HIV. Ég er kominn á fúkkalyf til einnar viku og get ekki farið á landsleikinn á morgun eins og til stóð.

————————-

Bloggþorstinn hefur annars verið hverfandi undanfarið. Nokkrum sinnum hefur bloggari sest niður og ætlað að tjá sig eitthvað, en jafnóðum strokað allt út og hætt við. Svona er þetta stundum. Ef ég á að gera upp sumarið í nokkrum orðum þá er það svona:

Skemmtilegt, fróðlegt, veðursælt, hamingjusamt.

Margt hefur gerst

maí 26, 2007

…síðan ég skrifaði hér síðast, bæði í landinu og hjá mér. Ekki ætla ég að telja það allt upp, en m.a. kláraði ég prófin, kaus, varð nokkuð ánægður með niðurstöðuna, fór í hringferð um landið, fékk útlendinga í heimsókn, fór í ferð um gullna hringinn og um suðurland að Vík.

Vinnan byrjar á þriðjudag. Ég á afmæli á morgun.

Ég mæli með:

Íslandi. Þeir sem ekki hafa farið þangað drífi sig sem fyrst.

Uppvöxtur litla trés

apríl 29, 2007

Þar sem ég sit hér við gluggann í lesherberginu og þykist vera að læra sé ég að tréð sem ég fékk úr garði foreldranna síðasta vor er byrjað að laufgast. Mér tókst nefnilega að taka gríðarlega stóran moldarhnaus með því og það hefur sennilega ekkert tekið eftir því að það er ekki lengur í Garðabænum, heldur niðri í miðbæ. Eflaust skemmir heldur ekki fyrir að loðni, flækti, kaldi og hrakti fresskötturinn úr næsta húsi skítur reglulega í beðið og leggur þannig sitt af mörkum.

Ég er orðinn gersamlega sjúkur í sumarið. Þessi próf eru að flækjast alveg svakalega mikið fyrir mér. Get ég ekki tekið þau seinna bara?

Ég er búinn að ákveða hvað ég geri eftir prófin. Þann ellefta verð ég í vinnunni, þann tólfta kýs ég og þann þrettánda fer ég í hjólreiðatúr eitthvað út fyrir borgarmörkin. Fjórtánda til átjánda verð ég í vinnunni vonandi og þríf húsið á kvöldin. Helgina nítjánda til tuttugasta ætti maður kannski að smella sér á Kárahnjúka með einhverjum góðum mönnum.

Svo eigum við von á amerískum og hondúrískum (?) gestum í vikunni þar á eftir. Það eru þau Lasheena og Pablo. Planið er að sýna þeim eitthvað skemmtilegt, láta þau synda í Seljavallalaug og grilla fyrir þau og svona, áður en þau halda áfram í Evrópuför.

Seljavallalaug

Aaaahhhh! Sumar. Núna. Takk.

Gaman að þessu

apríl 2, 2007

Ég sótti um sumarstarf blaðamanns á Morgunblaðinu fyrir skemmstu. Ég var svo boðaður í inntökupróf fyrir umsækjendur og mér gert að mæta upp í Verzlunarskólann til þess að taka þriggja tíma próf í að skrifa fréttir, myndatexta, að þýða og að leiðrétta málfar. Svo var mér boðið að mæta í viðtal uppi í Hádegismóum. Allt gekk þetta ágætlega og svo fór að ég fékk starfið sem ég sótti um. Byrja þar 29. maí. Ég er mjög ánægður með það og hlakka til að prófa eitthvað nýtt.

Það er því ljóst að ég mun kveðja minn núverandi vinnustað í maí, en fyrir þá sem ekki vita hef ég unnið sem sölumaður í Harðviðarvali í hlutastarfi með skólanum og síðasta sumar. Því fyrirtæki get ég ekki annað en borið söguna vel. Þar er góður starfsandi og oft gaman í vinnunni. Þar hef ég haft sveigjanlegan vinnutíma og reynslan hefur verið góð. Mikið samskiptastarf. Það voru viðbrigði að hætta að fara á sjóinn og þéna ekki jafnmikinn pening á jafnstuttum tíma og ég gerði alltaf þar, en ég sé ekki eftir því.

Það var reyndar skyndiákvörðun sem ég tók síðasta vor þegar ég kom heim úr Bandaríkjaferðinni að fara ekki á sjóinn. Sölumannsstarfið var það fyrsta sem ég sótti um og ég fékk það um leið, byrjaði að vinna daginn eftir.

Þetta er skref í nýja átt og leið til þess að víkka reynsluheiminn frekar. Ekki skemmir heldur fyrir að þetta tengist náminu mínu miklu meira og ég vona að ég komi út úr sumrinu tvíefldur um haustið.

Samtal

desember 5, 2006

Sumir eru svo skemmtilegir. Láta sig hag annarra varða. Góðir í umgengni. Um daginn var bílstjóri búinn að leggja vörubíl í þröngri götu í miðbænum og var að afferma bílinn. Sjö bílar biðu í röð í lokaðri götunni á meðan hann, í hinum mestu makindum, dundaði sér við að afferma bílinn, nákvæmlega sama þó að allir væru að bíða. Eitt er víst, hann var ekki að vinna í akkorði.  Þar sem mér þótti hann vinna helst til hægt fór ég út úr bílnum mínum og sagði við hann „gætirðu ekki verið dálítið fljótur að þessu?“ Hann brást hinn versti við þessu og spurði mig „hvað viltu eiginlega að ég geri?“ Sagði ég þá að ég vildi að hann ynni hraðar, því gatan væri stífluð. Við þetta móðgaðist hann mjög (enda eflaust ekki vanur því að vinna eins og maður, heldur eins og aumingi). Gerðist hann þó stórtyrtur og sagði mér að fara inn í bílinn minn og þegja. Endurtók ég þá beiðnina um að hann ynni hraðar. Endurtók hann þá beiðnina um að ég skyldi þegja. Endurtók ég þá beiðnina um að hann ynni hraðar, og fór svo auðvitað inn í bílinn minn og þagði. Ekki gæti ég búist við því að hann færi eftir tilmælum mínum, nema ég færi eftir hans tilmælum. Málamiðlun. Ég geri ekkert á meðan þú vinnur hraðar.

Eftir samtalið megnaði hann einhverra hluta vegna að vinna tvöfalt hraðar en hann gerði fyrir það. Hafði þó komið skýrt fram að ekki væri hægt að vinna hraðar, tilmæli þess efnis væru fáránleg og einungis til þess gerð að tefja fyrir.  Lausnin fólst í því að hætta að nota einhverja rafknúna handtrillu til að vinna verkið og nota þess í stað hendurnar.

Hvalveiðar IV

nóvember 2, 2006

Það er alveg magnað að til sé fólk sem ákveður að leggja starfskrafta sína og tíma í að safna fé til verndar dýrum (reyndar bara einu dýri í þessu tilfelli) sem ekki eru í útrýmingarhættu, á meðan sama fjárhæð og á að safna gæti dugað til þess að bæta líf fjölda fólks, en ég ætla ekki lengra út í þá umræðu þar sem hún er að vissu leyti ósanngjörn – það væri þá hægt að nota „hvað-með-litlu-börnin-í-Biafra?“ röksemdina á hvað sem er. Til hvers að fara í sund!? Þú gætir verið að vinna fyrir kornsendingu til Darfúr!

Það sem er áhugaverðast við fréttina er að ein langreyður skuli gefa 12,3 milljónir króna um það bil miðað við verð á hvalkjöti þessa dagana. Nú eru þeir að fara út og veiða þessi dýr yfirleitt innan tveggja sólarhringa hefur mér heyrst, þannig að túrarnir eru svona 2-3 dagar hjá þeim. Að vísu gefur túrinn ekki unna matvöru, skurður og pökkun o.s.frv. er allt eftir þegar komið er í land. En ef við miðum við það að fínn 30 daga túr á frystitogara gefur kannski 80 milljónir í aflaverðmæti (varan þá tilbúin til sölu strax við löndun)  þá er það bara alls ekki svo slæmt, í sjálfu sér.

Hvalveiðar III

október 25, 2006

Nú er málið umdeilt mjög, og þess vegna hefi ég fundið leið til þess að sameina blóðþorsta Íslendinga og væmni hins enskumælandi heims. Hvalveiðum verði haldið áfram, en í því skyni að vernda náttúruna og hlífa svo tignarlegum skepnum við bráðum dauða verði þetta einungis (og þessu verði fylgt eftir af festu) svonefndar catch and release veiðar.

Hvalveiðar

október 24, 2006

Hvað sem hverjum finnst um hvalveiðar, rök með og á móti og allt það, þá er sennilega ekki til verri talsmaður atvinnugreinarinnar hér á landi en einmitt forvígismaður hennar.