Archive for the ‘Þroski’ Category

Áramót

desember 29, 2007

Þau nálgast. Einhver sálfræðingur sagði einhvers staðar að maður ætti ekki að strengja áramótaheit. Það væri bara orsök enn meiri streitu, sem hinn stressaði nútímamaður þyrfti ekki á að halda. Ég held maður ætti kannski bara ekki að strengja þau upphátt. Ekki of hátt allavega.

„When you see me smash somebody’s skull, you enjoy it.“

desember 7, 2007

Mike Tyson hefur ítrekað sagst vera heimskur, ömurlegur fáviti, nauðgari og slæmur faðir. Að hann hafi lagt sitt af mörkum til þess að gera heiminn að verri stað og líf hans sé algjör sóun frá byrjun til enda, hann sé misheppnaður aumingi. Eina ástæðan fyrir því að hann sé á geðlyfjum sé til þess að hann drepi ekki alla í kringum sig.

En kannski erum við hin sem lítum á hann sem algjört frík ekki jafnólík honum og við viljum meina.

P.s. meðþessuerégekkiaðhaldaþvíframaðégsémassaðursvertingisemgeturlamiðallaíklessu.

Jón Trausti Lúthersson

nóvember 3, 2007

Það er nú meiri trúðurinn.

Um áhrif lungnabólgu á hreinlæti

september 19, 2007

Áhrif lungnabólgu á hreinlæti og almenna sjálfsumönnun sjúklinga eru í flestum tilvikum neikvæð. Þeim má skipta í almenn áhrif og sértæk áhrif. Til almennra áhrifa telst fækkun sturtuferða, meiri notkun á sömu fötum dag eftir dag (ullarnærfötum t.d.), minni ilmefnanotkun og fleira slíkt. Sértæk áhrif verða hins vegar vegna aðstæðna sem skapast á sjúkdómstímanum sem verða vegna annarra fylgiþátta sjúkdómsins en einkenna hans, svo sem hósta.

Sjúkdómurinn hafði sértæk áhrif á líf sjúklings, mér kunnugs, nýlega. Hann var á leið heim til sín á sænskri glæsibifreið þegar hósti gerði vart við sig. Honum fylgdi uppgangur, eða gul- og grænlitað slý. Þar sem hann var upptekinn við stjórn bifreiðarinnar og hafði hvorki poka né pappírsþurrku við höndina ákvað hann að stutt væri að næsta stoppi. Honum bauð nefnilega við tilhugsuninni um að kyngja slýinu aftur. Hann gæti opnað hurðina á næstu ljósum og látið vaða á hið bundna slitlag.

Áætlunin var gölluð að því leyti að umferðarljós voru ekki á næsta leiti. Uppsöfnun á vessum í munnholi sjúklingsins varð því óæskilega mikil. Umferð hafði einnig þyngst þegar komið var að ljósum og hefðarfrú í þýskri bifreið hefði orðið áhorfandi að tilfæringunum ef af hefði orðið. Því afréð sjúklingurinn að bíða enn um sinn. Næstu ljós. Þegar þangað var komið hafði safnast fyrir slík laug munnvatns og sýkts lungnauppgangs að sjúklingurinn hafði áhyggjur af því að sleppingin yrði sóðaleg og ómarkviss.

Niðurstaðan varð því sú að bíða alveg þar til heim væri komið. Þegar hér er komið við sögu, hefur sjúklingurinn tjáð mér, var munnhol hans allt að því fullt af vökva. Hann býr við hlið leikvallar og lagði bíl sínum þar. Enginn var þar að leik svo hann sá sér leik á borði um að sleppa safninu í malarblandaðan sandinn þar.

Á þessum tímapunkti settu hin sértæku áhrif mark sitt á líf hans. Til þess að halda berkjum sínum heitum á ferðalögum þurfa sjúklingar að bera hálstau. Hann var að þessu sinni með langan og þykkan ullartrefil um hálsinn, vafinn en óbundinn. Við leikvöllinn er steyptur veggur, um það bil einn metri og tuttugu sentimetrar á hæð, til þess gerður að hindra aðgang kynferðisglæpamanna að svæðinu.

Sjúklingurinn hallaði sér yfir vegginn, skaut höfðinu fram og undirbjó sig fyrir sleppinguna, glaður í bragði og frelsinu feginn. Í sama mun rann endi trefilsins fram, af bakin hans og fram fyrir, sveiflaðist kúptur með innri hlið sveigjunnar vísandi að andliti sjúklingsins. Þegar þetta gerðist höfðu taugaboð þegar verið send frá miðtaugakerfi hans að andlitsvöðvum um að framkvæma opnun. Sendingin, sennilega tæpur desilítri af fyrrgreindri efnasamsetningu, hafnaði öll í treflinum, sem reyndist einstaklega rakadrægur. Varla dropi lenti á jörðinni.

Ég er feginn að hann sagði mér frá þessu, því nú get ég varast svona aðstæður í framtíðinni.

Nýr vinkill á málið

júlí 17, 2007

Friðbjörn Orri Ketilsson hæðist að foreldrum Madeleine McCann í nýlegri færslu á blogginu sínu. Hann tiltekur þar þrjá möguleika sem hann telur að séu í stöðunni, en gleymir einum. Það er möguleikinn á því að ræningi/ræningjar stelpunnar ætli að halda henni fanginni. Natascha Kampusch fékk að upplifa það, en Wolfgang Priklopil, hélt henni fanginni í átta ár í kjallaranum heima hjá sér, þangað til hún slapp frá honum í ágúst í fyrra.

Samkvæmt rökfærslu Friðbjarnar Orra var það rangt af foreldrum Madeleine að reyna að höfða til mannlegra kennda í ræningjanum, sem ekki er vitað hvað ætlaði sér með stúlkuna, því það gæti haft neikvæð áhrif á getu hans til þess að stunda viðskipti með hana. Friðbjörn Orri klikkir svo út með smá kaldhæðni í lokin og stillir þar foreldrum Madeleine upp sem vonda fólkinu í málinu og gerir lítið úr því sem þau hafa mátt þola, en þau vita ekki hvort barninu þeirra er haldið föngnu, það komið í þrældóm hinum megin á hnettinum eða búið að nauðga því og myrða það:

„Flott hjá þessum foreldrum.

Þeir hljóta að vera ánægðir með þessa sumarrispu sína.“

Fullur tankur

júlí 10, 2007

,,Af hverju ekki að hafa fullan tank af Guðs blessun?“ spurði maðurinn á Omega.

Kunningi minn einn er hortugur maður og svaraði því til:

,,Af hverju ekki að hafa fullan tank af hoppaðu upp í rassgatið á þér?“

„Ég kem eftir tvær mínútur, bara tvær“

júlí 6, 2007

Þetta er algjörlega merkingarlaust orðalag. Aldrei hefur maður sem segist koma eftir tvær mínútur, raunverulega mætt eftir tvær mínútur.

Tuð

júní 11, 2007

Ég ætlaði að tuða um aksturslag vélhjólamanna hér. En nú nenni ég því ekki.

Það er skýjað.

The Mummy Returns

maí 6, 2007

Í gærkvöldi sýndi hið menningarlega Ríkissjónvarp allri alþýðu fræðslumynd um Egyptaland til forna og áhrif þess á nútímann (f. hl. 20. aldar). Hægt er að gera nokkrar athugasemdir við myndina en hér verður aðeins tæpt á einu atriði.

Í dulinni vin einni í eyðimörkum Affiríku, sennilega einhvers staðar við upptök Nílar, í Súdan geri ég mér í hugarlund, er pýramíði úr gulli. Ef Brendan Fraser kemur syni sínum ekki inn í pýramíðann fyrir sólarupprás á sjeunda degi frá því að sonurinn setur í flónsku sinni á sig tiltekið armband sem réttilega er í eigu The Rock, glímukappa frá Bandaríkjunum, fer illa fyrir syninum. Að morgni viðkomandi dags eru þeir kumpánar við pýramíðann og sólin tekur að rísa upp fyrir brúnir fjallanna.

En hér fipast henni Hollywood flugið. Þannig er mál með vexti að Brendan stendur á milli fjalls og mannvirkis með barnið í fangi sér, en sólin kemur upp fyrir fjallsbrúnina. Hann neyðist því til að hlaupa upp brekkuna að pýramíðanum áður en skugginn hopar alla leið þangað og sólin skín á hann. Sólin byrjar semsagt að skína á jörðina næst fjallinu og fikrar sig smám saman frá fjallinu og að pýramíðanum. Þetta sætti ég mig ekki við, en meðfylgjandi skýringarmynd ætti að sýna svart á hvítu hvernig þetta stenst ekki.

Skýringarmynd

 Mynd 1. Sýnt er hvernig Ríkissjónvarpið heldur lygum að alþýðunni.

Flottir í tauinu

apríl 7, 2007

Á föstudaginn langa á maður að gera eitthvað leiðinlegt. Það var þess vegna sem ég fór í mat til foreldra minna…

…nei, ég verð að byrja aftur.

Á föstudaginn langa fórum við Una í mat til foreldra minna. Fiskmeti var á boðstólum eins og er til siðs á þessum degi, en mér segir svo hugur að rétturinn hafi verið helst til gómsætur og aðeins of ánægjulegt að snæða hann miðað við dagsetninguna. Jájá, það var humar í matinn og súkkulaði-mousse kaka með rjóma í eftirrétt.

Ég var íklæddur forláta Sand-peysu sem ég keypti dýrum dómum í Herragarðinum eftir jólin. Þegar afi og amma mættu á svæðið kom í ljós að við afi vorum í eins peysum. Ég er fæddur 1982 en hann er fæddur 1920. Ekki vil ég meina að ég sé afalegur í klæðaburði heldur er það frekar svo að nafni minn og forfaðir tolli í tízkunni fram eftir öllu. Yfirleitt er hann í teinóttum jakkafötum, en eins og menn vita er það toppurinn.