Archive for ágúst, 2008

Anima Umbra 2006 – smökkun

ágúst 27, 2008

Í gærkvöldi var rauðvín smakkað. Vínið nefnist Anima Umbra og er framleitt af Arnaldo Caprai á Ítalíu. Það er semsagt frá Úmbríu, en utan á flöskunni stendur að það sé ábending um alveg dæmigerða landafræði. Indicazione geografica tipica.

Ágætt italskt vin

Ágætt ítalskt vín

Smakkarar voru tveir, hinn valinkunni andans maður sjálfur og húskerlingin Una. Vanir vínsmakkarar slá oft um sig með fínum orðum sem gefa til kynna yfirburðaþefskyn, þegar þeir lýsa víntegundum. Slíkt þefskyn er ekki staðalbúnaður í mér. En…engu að síður var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég opnaði flöskuna og stakk nefinu langt niður í stútinn: Kanill.

Kanill, já kanill.

Ilmurinn var sterkur fyrst um sinn, en eftir að flaskan hafði fengið að standa á borðinu í 20 mínútur á meðan verið var að matbúa virtist ilmurinn dofna örlítið. Þegar það var komið í glösin var það ennþá meira svo og á endanum varð bragðið frekar milt, ekki jafnkryddað og stefnt hafði í fyrst. Annað bragð sem ég virtist merkja var einhvers konar lakkrískeimur, samt ekki eins og appollólakkrís heldur meiri blanda af því og einhverju öðru sem ég þekki ekki. En sú tilfinning varði varla nema í nokkrar sekúndur.

Að öðru leyti bragðaðist vínið eins og rauðvín, en ekki eins og eitthvað annað en rauðvín.

Það var ótvíræður kostur að þó við drykkjum alla flöskuna varð ég ekki leiður á bragðinu í endann. Ég hef oftar en einu sinni lent á flöskum sem eru góðar til að byrja með en eftir að neðar dregur fer bragðið að versna og í lokin er það orðið óþolandi vont. Þetta var svona jafngott alla leið, þó svo að fyllingin hefði mátt vera aðeins meiri fyrir minn smekk.

Vínið er litfagurt, ekki mjög dökkt.

Allt í allt er óhætt að mæla með Anima Umbra 2006. Ef maður á að gefa stjörnur myndi ég gefa þær á skalanum ein til fjórar og þetta fengi þá þrjár.

Ég skora á Óttar Völundarson að taka við keflinu í Vínkeðjunni.