Archive for apríl, 2008

Óvísindaleg könnun

apríl 30, 2008

Eftir umræður mínar við Þórð Gunnarsson, hagfræðinema og blaðamann, sem dulbýr sig nú, meðal Bauna, í baráttunni, gegn erlendum vogunarsjóðum, um afreksíþróttir, hef ég ákveðið, að framkvæma hér óformlega könnun, á hlutfallslegum svalleika tveggja fyrirbæra. Fyrirbærin, eða athafnirnar, sem hér um ræðir, eru ólík. Annað þeirra, er Iron Man þríþrautin, svokallaða. Hún felst í 3,86 km sundi, í sjó eða stöðuvatni, 180 km hjólreiðum og maraþoni, öllu, á að minnsta kosti 17 klst. Hitt, er að klífa Everestfjall, í Nepal. Fjallið, er um 8848 metra hátt.

Því spyr ég lesendur: Hvort afrekið, veitir meiri montréttindi? M.ö.o., ef Everestfari og Járnmaður, mætast í sama herbergi, hver er þá kóngurinn?

(Kommusetning í þessari bloggfærslu var í boði dómsmálaráðherra.)

Viðburðaríkur dagur eða ég flýg, ég flýg

apríl 27, 2008

Farið var í skírnarveislu hjá Árna Helgasyni og Sigríði Dögg Guðmundsdóttur. Nafn dóttur þeirra, sem var skv. afar traustum heimildum skírð í gær, var tilkynnt. Auður Freyja. Sterkt nafn. Gott nafn. Fallegt nafn. Matur var þar afar góður en síðuritari stóðst þó marsipankökuna, enda í átaki.

Hér víkur sögunni að atburði dagsins markverðum hinum síðari og tengist hann fyrrnefndu átaki. Í kvöldmat var snædd einhvers konar ofursamsetning næringar fyrir hlaupara, miðað við árangurinn í hlaupi því er farið var er sól gekk til viðar. Sjaldan eða aldrei hefur síðuritari gefið jafnsannfærandi til kynna, með hlaupum, að andskotinn sé á hælunum á honum. Hin eftirsóknarverða samsetning var 1944 réttur að austrænni forskrift, tvö linsoðin egg og einn banani. Dýnamít.

Nú! Hlaupið gekk nánar til tekið afar vel framan af og lauk svo skyndilega með falli. Hlaupið hafði verið vestur í bæ og með Ægisíðu til baka, yfir Öskjuhlíðina og með Kringlumýrarbraut í norðurátt. Síðuritari hljóp ekki á gangstéttinni heldur grasinu, af heilsuverndarástæðum. Það voru mistök. Einhverra hluta vegna var járnhringur úr 3mm þykkum vír hálfniðurgrafinn í grasinu. Síðuritari hljóp á um 12 km/klst með lappirnar beint í vírinn og flaug eftir það láréttur um skamma hríð. Fyrst hefði mátt halda að hann væri að taka á loft eins og Ofurmennið. Það hefði líka verið rökrétt framhald af fyrri hluta hlaupsins. Svo var þó ekki. Lendingunni er erfitt að lýsa en við skulum bara vona að margumrædd lending íslenska hagkerfisins í yfirstandandi samdrætti verði mýkri. Þetta var engin snertilending að hætti Geirs H. Haarde. Síðuritari lenti á bringunni og skoppaði af grasinu á steypta stéttina, rann eftir henni og staðnæmdist. Að svo búnu öskraði hann, fyrst og fremst af undrun en um leið af sársauka. Þetta gerðist til móts við Listabraut, mitt á milli heimilis Konráðs Jónssonar og Háskólans í Reykjavík.

Afraksturinn er helaum öxl, hruflaður handleggur, stífur háls og aumur nári. Haldið var beint í læknakandídatsskoðun á Bergþórugötunni, þar sem sjúkdómsgreiningin var „væg krambúlering“ og „hallærislegur klæðnaður“.

Sundmenning Íslendinga – frh.

apríl 24, 2008

Ég vil hér bæta aðeins við fyrri umfjöllun mína um lágt menningarstig í sundlaugum borgarinnar. Um daginn gerði ég grein fyrir skilningsleysi almúgans á umferðarreglum í sundi. Ég lýsti því m.a. hvernig fólk heldur að hver braut sé fyrir einn einstakling. Það syndir fram og aftur en ekki sporöskjulagaða hringferð.

Ég hef nú orðið var við enn eina aðferð fólks til þess að gera þetta með ófullnægjandi hætti. Í Sundhöllinni eru að mig minnir fimm brautir. Hver braut er mörkuð af stökkbretti við djúpa endann og dökkblárri línu á botninum eftir lauginni endilangri. Hins vegar eru þær ekki allar afmarkaðar af fljótandi þrílitri línu. Yfirleitt eru aðeins tvær brautir afmarkaðar með þeim hætti en ríflega helmingur laugarinnar hefur engar slíkar línur. Þar, við grunna endann, er skiltið sem ég minntist á. Skiltið sem sýnir rétta aðferð. „Syndið í hring“ stendur þar, með tilheyrandi skýringarmynd.

Einhver hefði kannski talið það nóg að afmarka hverja braut með stökkbretti og dökkblárri línu. Svo er ekki. Það sem fólk gerir eftir að hafa starað á þetta skilti, skilningsleysið uppmálað, er að það syndir stóran hring. Fer semsagt yfir laugina meðfram þrílitu fljótandi línunni, kemur að bakkanum og beygir þá. Syndir meðfram bakkanum (skammhlið laugarinnar) út í horn. Beygir þar aftur og syndir svo til baka yfir laugina, út í horn, þar sem það beygir og syndir með skammhliðinni yfir brautirnar þrjár. Það syndir í stóran stóran hring.

Guð. Minn. Almáttugur.

Það er semsagt skilningur viðkomandi sundlaugargesta að allir sem koma í laugina eigi að synda í stóran hring meðfram bökkum hennar.

Mig langar stundum til að öskra.

Viðburðaríkur dagur

apríl 23, 2008

Gárungarnir segja nú að staksteinum hafi verið kastað beggja vegna Rauðavatns í dag. Ég fékk víst nýjan yfirmann, Ólaf Þ. Stephensen, sem tekur við 2. júní. Hann réð mig einmitt á sínum tíma, áður en hann fór á 24 stundir. Svo voru óeirðir við bensínstöðina við Suðurlandsvegi, hinum megin við vatnið. Einna áhugaverðust fannst mér fréttin „Valdníðingur segir lögreglu hafa beitt valdníðslu“.

Bloggheimar loga auðvitað á degi sem þessum. Það er því vel við hæfi að taka tvær tilvitnanir:

——————————

FLOKKURINN tekur í taumana

Jæja, er Styrmir búinn að vera of óþekkur? FLOKKURINN hefur greinilega stjórn á Prövdu. Það má greinilega ekki gagnrýna FLOKKINN. Styrmir látinn fjúka fyrir það. Ólafur Þ. er þægur, þannig að hann verður ekki með neinn uppsteyt. Nú er endanlega búið að jarða allar tálmyndir um að Mogginn hafi eitthvað sjálfstæði.

„Fyrir aldurs sakir“, my ass. Ef það væri raunin hefði Styrmir lýst því yfir að hann myndi hætta með a.m.k. árs fyrirvara.

——————————

Eins og glöggir lesendur sjá er höfundurinn vel með á nótunum. Hann veit hvernig’etta er. Svo er það athugasemd af bloggi, frá manni sem sér ekki samhengið lengur og telur reyndar rétt, í reiði sinni vegna valdníðslu lögreglumanna, að ganga í skrokk á þeim:

——————————

Þegar Lögregluyfirvöld eru farin að haga sér eins og 3 ára krakkar í sandkassa er mér nóg boðið.

Mér þætti réttast nær að ganga í skrokk á þessum besservissum og berja í þá vitinu fyrir fullt og allt.   Andskoti er maður orðinn leiður á aðgerðaleysi og fíflaskap uppaplebbanna sem geta ekki drattast af rassgatinu í nokkrar mínútur til að bregðast við kröfum þjóðarinnar?

Ef ég vissi ekki betur, þá á að kallast Lýðræði á Íslandi, en ég bara því miður sé ekkert samhengi í því lengur.

…að reyna að hætta að reykja

apríl 22, 2008

Er búinn að vera reyklaus í einn sólarhring núna. Gengur bara ágætlega. Finnst ég ekkert langa í smók sko.

Metnaður í námi

apríl 21, 2008

Nú er ég að skrifa ritgerð í námskeiðinu „opinber stefnumótun“. Ritgerðin fjallar um tóbaksvarnir. Ég taldi nauðsynlegt að setja mig inn í málið á 1. persónu leveli, en ekki einungis sem einhver sem er bæði utan og ofan við viðfangsefnið, eins og vísindamanna er siður. Ég er ekki reykingamaður. Því hef ég nú unnið sleitulaust að því að reykja einn Don Tomás vindil frá Hondúras um helgina. Ég kláraði hann núna áðan.

Vindillinn var ágætur. Ég hef fengið nettan hausverk í öll skiptin sem ég hef reykt hann, orðið pínulítið flökurt og fundið fyrir smá vímu, sem er samt varla hægt að segja að sé neitt þægileg. Reykurinn er ógeðfelldur og fer oft í augun á mér þegar ég kveiki í. Kannski er reynsluleysi þar um að kenna. Bragðið að vindlinum var hvorki með keim af rauðvíni, mold, súkkulaði, né kaffi. Hins vegar var af honum megn vindlalykt. Ég tók þó ekkert ofan í mig, heldur púaði þetta bara, enda feykinóg nikótínupptaka í munnholinu að mér skilst, án þess að ég fari að leggja reykinn á gríðarlega vel þjálfuð veðhlaupahestslungu mín.

Markmiðin sem ég gef mér í ritgerðinni eru m.a. að með tóbaksvarnarstefnu hverju sinni eigi að reyna að: Minnka tóbaksnotkun, minnka heilbrigðiskostnað, gæta jafnræðis, vernda frelsi einstaklinga eftir megni og að velja stefnukost sem er framkvæmanlegur í pólitískum skilningi, þ.e. að hann verði ekki banabiti hvaða stjórnmálamanns sem reynir að framfylgja honum.

Áhrif þess að setja sig inn í málið með þessum hætti, frekar en að lesa skýrslur og rannsóknir, eru ótvíræð. Virðing mín fyrir athafnafrelsi fólks hefur farið þverrandi með hverjum smók. Þá hefur virðing mín fyrir reykingafólki sjálfu einnig minnkað, ekki síður en virðing mín fyrir sjálfum mér.

Mér er því skapi næst, að vindlinum reyktum, að varpa öllum kostnaðar- og ábatagreiningum, stefnukostatöflum og slíku dótaríi, fyrir róða og taka upp harðlínustefnu. Slagorð hennar gæti verið „Öxin og jörðin geyma þá best“, þar sem vísað er til tóbaksframleiðenda, -sölumanna, og -neytenda.

Rachael Ray

apríl 20, 2008

…fyrir konur sem eru geðveikislega ánægðar með gömlu góðu kynjahlutverkin. Innslög á borð við „Hvað er best að elda fyrir manninn þinn þegar hann er að horfa á ruðning“ og „Hversu mikið kynlíf er rétt að stunda daginn sem maðurinn þinn horfir á ruðning“ eru nokkuð lýsandi fyrir þetta.

Í baði

apríl 15, 2008

Á Vörutorginu mæla þeir með því að maður fari með handlóðin sín í bað. En ég spyr, hvers vegna bara handlóðin? Af hverju ekki hnébeygjurekkann eða bekkpressuna?

Sundreglur

apríl 10, 2008

Hversu lengi á anarkískt ástand að vara í sundlaugum borgarinnar? Þegar kemur að sundinu sjálfu er regluverki verulega ábatavant og öllum almenningi gert að pluma sig án nokkurrar aðkomu ríkisvaldsins. Umferðarreglur eru ekki skráðar, en einstaka sinnum eru þó ákveðin viðmið birt nálægt sundstaðnum, án þess þó að framkvæmdavaldinu hafi verið fengið neitt vald í hendur, formlega, til að fylgja þeim eftir.

Hin óskráða regla er þessi: Synt skal hægra megin á brautinni. Brautina skal hugsa sem afar ílangt sporöskjulagað form. Þetta er því í raun hringferð, þó svo synt sé fram og aftur brautina. Þessu eiga sundgestir vægast sagt afskaplega erfitt að átta sig á. Þeir virðast margir hverjir halda að eitthvað sé til sem heiti að „ná brautinni“ og að þeir hafi hana þá „út af fyrir [sig]“.

Látum nú svo að þessi yfirmátaheimskulega og pirrandi hugsun sé sú rétta og tökum Sundhöll Reykjavíkur sem dæmi. Sé þetta svo er Sundhöll Reykjavíkur ætluð fyrir fjóra í einu. Ekki er pláss fyrir fleiri í lauginni á hverjum tíma, þar sem allar brautir eru uppteknar.

Það versta er þó að þegar réttvísir borgarar reyna að halda uppi hinum óskráðu reglum virðast aðrir sundgestir oft eiga mjög erfitt með að átta sig á því hvað er að gerast. Þeim finnst að verið sé að ráðast inn á brautina sína, og skilja ekki af hverju innrásaraðilinn syndir stundum „hérna“ megin á brautinn, en stundum „þarna“ megin. Þeir sjá ekki kerfið. Hérna megin fram, þarna megin til baka. Hérna megin fram, þarna megin til baka. Þetta er ofar þeirra skilningi. Þeir gera ekkert til að laga breytni sína að kerfinu.

Nú lét ég sverfa til stáls um daginn þar sem kvinna ein hegðaði sér með þessum hætti á braut sem ég hafði „ruðst inn á“. Ég vék aldrei fyrir henni þegar hún kom vitlausu megin á móti mér. Það endaði með því að hún var farin að hanga í línunni þegar ég synti framhjá, og eftir skamma hríð hörfaði hún upp úr lauginni og horfði illilega á mig við brottför.

Ég bíð spenntur eftir því að einn þessara stefnulausu ræfla láti í sér heyra og reyni að reka mig af brautinni sinni. Þegar að því kemur mun ég hella úr skálum reiði minnar.

23 ára

apríl 4, 2008

Hún Una mín er 23 ára í dag, 4. apríl. Gott ef hún var ekki 16 ára þegar við byrjuðum saman. Ég heyrði í henni í síma áðan, en afmælisdagurinn var víst allblautur og krankleikar að hrjá hluta hópsins. Vonandi skemmtir hún sér þá bara þeim mun betur á morgun.

Ég hvet alla til að fara á bloggið hennar Unu og koma afmæliskveðjum á framfæri þar!