Archive for febrúar, 2008

Fjallganga næstu helgi

febrúar 26, 2008

Þar sem Una mun yfirgefa mig aðfaranótt laugardagsins næstkomandi verð ég að finna eitthvað til að dreifa huganum þann sama dag. Mér segir svo hugur að þó ég segðist ætla að gera eitthvað voðalega merkilegt, eins og að læra, þá yrði eitthvað lítið um efndir.

Því hef ég afráðið að klífa einhverja hrúgu á suður-, suðvestur- eða vesturlandi, um næstu helgi. Annað hvort á laugardeginum eða sunnudeginum. Þeir sem vilja koma með eru boðnir velkomnir. Þegar hef ég sett mig í samband við stórmenni á borð við MDN og ÁH, sem báðir eru að hugsa sinn gang. Þess má geta að eins og veðurhorfur eru nú er ekki von á öðru en fullkomnu gönguveðri, sé fólk rétt klætt. Eins stigs frost og andvari, 1 m/sek. Hálfskýjað. Þetta er kjörið.

Ekki er ráðgert að leggja á nein stór fjöll,  enda snjór á fjöllum og ekki hægt að fara hratt yfir. Dagsljósið ennþá takmarkað. Þeir hólar sem mér hefur dottið í hug að rölta á eru: Vífilfell, Hengillinn, Keilir eða kannski eitthvað í Borgarfirði. Hvað það ætti að vera veit ég svo sem ekki, en ekki skortir hólana þar heldur.

Uppástungur eru vel þegnar.

Kommúnan – Tillsammans

febrúar 23, 2008

Farið var á Kommúnuna í Borgarleikhúsinu í gær, á nýja sviðinu. Áhorfendapallar voru beggja megin sviðsins, leikmyndin trégrind á þremur hæðum með hálfgegnsæjum tjöldum sem hægt var að draga til og frá. Allt innvols í grindinni var síðan hippalegt, gólfpúðar, óróar, hengirúm og slíkt.

Það var margt gott í þessari sýningu. Hún var skemmtileg og vel leikin. Mæli með henni við hvern sem er. Hins vegar er ég kannski þannig gerður að ég vil sterkari framvindu og meiri sögu í leikritinu. Þessi sýning gekk meira út á að skapa ákveðna stemningu og vera með margvíslegar vísanir í fortíðina. Jú, svo var auðvitað saga líka en það fór samt ekki mjög mikið fyrir henni.

Það gerði þó ekki til, enda megintilgangurinn að gera grín að marxískum hugsjónum og því fáránlega bulli sem verður útkoman, sé þeim fylgt í öllu daglegu lífi. Ég hló nokkrum sinnum upphátt, en aldrei neitt svona skelli-skelli.

Töluverð nekt var á sviðinu, samtals tvær píkur og einn tilli. Það var þó ekkert hneykslanlegt, en í hvert skipti sem einhver var nakinn horfði ég alltaf á gömlu konuna sem sat á fremsta bekk hinum megin við sviðið, til þess að sjá hver hennar viðbrögð yrðu. Hún var alveg svona grátt-hár-í-hnút-með-prjón-í-gegn gömul. Hún kippti sér hins vegar ekkert upp við þetta, til allrar hamingju.

Í heildina fannst mér íslensku leikararnir betri en þeir erlendu. Kannski eru það einhverjir tungumálaerfiðleikar eða eitthvað, en Gael Garcia Bernal karakterinn fannst mér pínulítið pirrandi til lengdar vegna sinna hikorða (why..what…you…i mean…this is…aahh). Það var eflaust hluti af því að hann átti alltaf að vera út úr reyktur, en mér fannst það bara ekki virka alveg nógu vel. Varð meira eins og alvöru hik.

Ég var mest að fíla Ólaf Darra og Nínu Dögg. Þau eru flott, hún tók þarna til dæmis mjög reiðan dans á einum tímapunkti. Ég fílaði dansinn.

Þunglamalegt taktleysi

febrúar 21, 2008

Sundmaður: Jón Viðar Jónsson, leikhúsgagnrýnandi
Staður: Sundhöllin
Frumsýning
Einkunn: Hálf stjarna
Sýningin í hnotskurn: Handónýtt drasl

————————–

Það var mikil eftirvænting í loftinu þegar Jón Viðar bjó sig til að synda nokkur hundruð metra í Sundhöllinni nýlega. Fjölmargir gestir voru í Sundhöllinni þennan dag og biðu margir óþreyjufullir eftir sundtökum Jóns.

Skemmst er frá því að segja að áhorfendur urðu fyrir vonbrigðum. Taktleysið var algjört. Jón synti einhvers konar hálfgildingsskriðsund, enda notaði hann illa útfærðar skriðsundshreyfingar til að knýja sig áfram en náði þó ekki hraða bringusundsins. Þar að auki var skeytingarleysi hans gagnvart ofureinföldum umferðarreglum sundlauga algjört. Við grynnri enda laugarinnar er skýringarmynd sem gefur til kynna að hægri umferð sé á brautunum, menn skuli synda hring, en ekki fram og til baka sömu línu. Þetta er eðlilegt því annars væri laug sem er u.þ.b. 300 fermetrar að flatarmáli einungis gerð fyrir um sex manns.

Engin leið var að synda í lauginni fyrir þessum sundmanni. Ég hafði borgað mig inn fyrir heilar 250 krónur, m.v. eina komu á 10 komu korti sem kostar 2.500 krónur. Sýningin var ekki þess virði. Sundhöllin verður að bjóða upp á betri sýningar, vilji hún kalla sig háborg sundmenningar á Íslandi.

Faðmlög í Karphúsi og enn ein færslan um mataræði og heilsu

febrúar 19, 2008

Það var skemmtilegt að vera viðstaddur undirritun kjarasamninga um níuleytið á sunnudagskvöldið. Það var greinilegt að þeir sem þarna voru höfðu unnið mikið undanfarnar vikur, því þeim var svo greinilega létt eftir undirskriftirnar. Karphúsið virðist vera griðland miðaldra karla, enda voru eflaust hundrað karlar um fimmtugt þarna en kannski á annan tug kvenna, ef ég ætti að giska.

Þegar ég kom inn var Sjónvarpið tilbúið með Vilhjálm og Grétar í viðtal, en svo óheppilega vildi til að netþjónn, eða einhver slík græja, hjá sjónvarpinu hrundi. Á meðan tæknimenn sinntu viðgerðum var því ,,Afsakið hlé“ á ríkissjónvarpinu þegar fréttir áttu að vera hafnar. Fólkið í Karpúsinu hópaðist að sjónvarpinu til þess að fylgjast með og sneru baki í þá Grétar og Vilhjálm. Þegar útsending var að hefjast sagði einhver, sem taldi sig ekki heyra nógu vel ,,hækkiði í sjónvarpinu þarna!“ Sennilega eitt skýrasta dæmi um máltækið að leita langt yfir skammt. Hann vildi hækka í sjónvarpinu til að heyra í manninum sem stóð við hliðina á honum. Sjónvarpsmenn tóku þó fyrir hækkunina, enda hefði það skapað óheppileg áhrif.

Við undirskrift ætluðu menn sér að vera voðalega hófstilltir og taka bara þéttingsfast í hönd hvers annars, en framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins fannst meiri fögnuður við hæfi. Hann tók hvern verkalýðsforkólfinn á fætur öðrum og kreisti þá og klappaði þeim fast á bakið og þakkaði innilega fyrir sig. Þá var eins og losnaði um hjá þessum hörkutólum og menn féllust í faðma í hrönnum. Stór maður sást taka annan minni í fang sér og segja ,,komdu hérna, þú skuldar mér koss, helvítis asninn þinn.“ Þeir hafa eflaust rifist um eitthvað í ferlinu öllu saman. Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins lagðist upp á borð fyrir myndatöku.

Fólk sem hefur áhuga á að léttast geri eftirfarandi:

Morgunmatur: Hafragrautur með soyamjólk í morgunmat. Enginn sykur út á. 1,5 dl. af haframjöli er nægilegt fyrir einn.

Hádegismatur: Salatbar eða ávextir. Sleppa sósum í salatbarnum. Ef um er að ræða ávexti er viðmiðið t.d. að niðurskornir og afhýddir breiði ávextirnir úr sér yfir stóran matardisk. Þetta getur verið eitt epli, tvær mandarínu, eitt kiwi og ein pera. Til dæmis.

Kaffitími: Ávextir eða hrökkbrauð (Korni, þunnt, úr humlum t.d., eða Finn Crisp) með mygluosti. Te.

Kvöldmatur: Fá sér mjög vel á diskinn, en bara einu sinni. Grunnreglan er: Engar franskar kartöflur (helst bara engar kartöflur yfirleitt), ekkert ruslfæði. Vatn að drekka með.

Sælgætis og sykraðra gosdrykkja skal ekki neyta. Ásamt hóflegri hreyfingu leiðir mataræði sem þetta til megrunar. Þetta er auðvitað bara ein af mörgþúsund aðferðum til að léttast, sem virkar þó, rétt eins og allar hinar. Nú er bara að ákveða hvað kúrinn á að heita?
Einhverjar hugmyndir?

Dautt

febrúar 13, 2008

Þetta blogg virðist vera í andarslitrunum. Ég get ekkert að því gert. Bloggþörfin er horfin eins og dögg fyrir sólu. Framundan er líka tími þar sem ég mun ekki gera mikið annað en að skrifa, á tveimur vígstöðvum. Það er þó aldrei að vita nema í grasekkilstíð minni næstu mánuði verði ég trylltur í skapi og geðstirður mjög, og hreyti því einhverjum ónotum í heiminn af þessum vettvangi.