Archive for desember, 2007

Áramót

desember 29, 2007

Þau nálgast. Einhver sálfræðingur sagði einhvers staðar að maður ætti ekki að strengja áramótaheit. Það væri bara orsök enn meiri streitu, sem hinn stressaði nútímamaður þyrfti ekki á að halda. Ég held maður ætti kannski bara ekki að strengja þau upphátt. Ekki of hátt allavega.

Með á nótunum

desember 28, 2007

Leið moggabloggara til þess að vera gáfulegur er sú að segja það verða „fróðlegt og áhugavert að fylgjast með þróun mála á næstu dögum og vikum“.

Ef ég væri moggabloggari og fyndi mig knúinn til að blogga um morðið á Benazir Bhutto myndi ég skrifa:

Ég veit ekkert um pakistönsk stjórnmál.

Ég veit ekki hver drap Benazir Bhutto.

Ég veit ekki hvað gerist næst.

Ég veit ekki hvað er líklegast til þess að styrkja lýðræði í Pakistan.

Ég veit ekki hvort Benazir Bhutto var góður stjórnmálamaður eða slæmur.

Svo myndi ég enda þetta sem mjög gáfaður bloggari og ítreka mikilvægi þess að stjórnarfar í Pakistan haldist stöðugt, enda sé landið kjarnorkuveldi. Svo segði ég að það yrði áhugavert og fróðlegt að fylgjast með þróun mála á næstunni.

Ráðgefandi nefndir

desember 23, 2007

Þegar ráðgefandi nefndir meta umsækjendur og gefa e-s konar álit sitt á því hvern skuli skipa í stöðu, eða hvaða ákvörðun skuli taka, sér fólk þær oft sem hækjur stjórnmálamanna sem þora ekki að taka ákvarðanir sjálfir. Þetta á við ef þeir skipa í embættið í samræmi við álit hinnar ráðgefandi nefndar.

Ef ráðherra hins vegar skipar ekki þann sem nefndin lagði til, eða tekur aðra ákvörðun en hún lagði til, þá spyrja menn sig til hvers slíkar nefndir séu eiginlega, ef það á ekkert að fara eftir því sem þær segja.

En er ekki hægt að orða það sem svo að raunverulegur tilgangur ráðgefandi umsagnar nefnda og stofnana (sem gefa álit sitt uppi áður en ákvörðun er tekin, ólíkt t.d. Umboðsmanni Alþingis sem skoðar hlutina eftir á) er sá að gefa ráðherra hugmynd um það hvort sú pólitíska og ómálefnalega ráðning sem hann hefur í huga mun koma honum í bobba eða ekki.

Með þessu á ég við að ef hin ráðgefandi nefnd metur hinn pólitíska vildarvin ráðherrans fullkomlega vanhæfan og úrskurðar hann vangefinn, þá veit ráðherrann að það er gott fyrir hann að skipa einhvern annan, til að varveita eigin stöðu og ímynd. Ef vildarvinurinn er hins vegar metinn svona sæmilega-semí-hæfur þá er líklega í lagi að smella honum í embættið án þess að það kosti neitt allt of mikið havarí.

Kvöldið eftir síðasta prófið

desember 21, 2007

Stór kaldur sveittur bjór.

Rauðvínsglas.

Kjötfyllt canneloni með hvítlauksbrauði og grænmeti.

Meira rauðvín.

Fljótandi heit súkkulaðikaka með vanilluís, jarðarberi og rjóma.

Púðursykur og kleina.

Frasi kvöldið fyrir próf

desember 19, 2007

Þetta fer allt einhvern veginn á endanum, þó svo margur efist um það á tímabili.

Sex ár

desember 17, 2007

Fyrir nákvæmlega sex árum síðan taldi ég eflaust að sex ár væru langur tími. En nú, að sex árum liðnum, hef ég öðlast skilning á því að sex ár eru ekki langur tími. Sex ár eru stuttur tími.

Góður tími.

Ekki jólafílíngur

desember 16, 2007

Rigningin bylur hér á þakinu. Úti er grátt. Það er 16. desember. Verða þetta rauð jól? Kannski ég fari bara til Anchorage um næstu jól og verði þar í almennilegum fílíng. Þar er í dag 8-16 stiga frost. Þar er það helsta í fréttum að maður var dæmdur fyrir kynferðislega misnotkun á einstaklingi undir lögaldri. Semsagt allt eins þar og hér, nema almennilegt frost þar en ekki hér.

Ekkert að frétta af Unu

desember 12, 2007

Hún brá ekkert á leik í gær. Hér var þó engin lognmolla, enda komið glænýtt útiljósajólatré til að setja upp úti í porti, komin ljósasería á handriðið við tröppurnar úti og einnig hefur okkur áskotnast nýtt málverk. Málverkið fær að prýða vegginn í stofunni á næstunni.

Spurning

desember 11, 2007

Hvernig ætli U Thant, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, og yngri bróður hans, Spon, hafi komið saman í æsku?

Klukkan orðin margt

desember 11, 2007

Klukkan er orðin 13.45 en Una hefur enn ekki brugðið á leik. Læt vita um framvinduna síðar í dag.