Archive for nóvember, 2007

Til hamingju með Impreglio

nóvember 27, 2007

Vil óska landsmönnum, nær og fjær, til hamingju með að hafa á þeim ca. 7 árum sem Kárahnjúkaverkefnið hefur staðið yfir ekki náð að segja nafn ítalska verktakafyrirtækisins sem sá um stærstan hluta framkvæmdanna með réttum hætti.

(Er að íhuga að taka upp landsföðurlega-ávarps-og-yfirlýsingastílinn á blogginu).

Samtíningur

nóvember 24, 2007

Skemmtileg grein í Lesbókinni í dag eftir Ólaf Teit Guðnason. Mæli með henni. Þar var einnig grein eftir Magnús Sigurðsson, bekkjarbróður Unu. Sú grein var líka skemmtileg. Lesbókin lifi.

Slagorð N1 í auglýsingum þeirra hljóðar svona: „Krafturinn í keppnina, færir þér heppnina.“ Ég hata þetta slagorð. Hvað þýðir þetta? Á þetta að fá mig til að kaupa eitthvað?

Auglýsingaherferð Fréttablaðsins er mjög hallærisleg fyrir þær sakir að hún byggist aðallega á því að Fréttablaðið sé eina blaðið sem kemur út alla daga vikunnar.  Það er svo sem ekki hægt að rengja það, enda sunnudagsblað Moggans dálítið eins og laugardagsblað númer tvö, en þetta er aðeins of mikill tittlingaskítur til að vera aðalatriði í heilli auglýsingaherferð. Það er þá nokkurra klukkustunda gluggi á viku sem Mogginn kóverar ekki samdægurs, en er þess í stað með efnismeira sunnudagsblað.

Badminton er skemmtileg íþrótt. Ekki get ég talist mikill meistari en er allur af vilja gerður. Góð brennsla og hægt að taka jafnmikið á því og maður vill. Ekki jafnmikill munur á kynjunum heldur, ólíkt til dæmis …lyftingum… þá er ekkert því til fyrirstöðu að stelpur geti skotið drengjum ref fyrir rass.

Bílaleigan Kok þarf að skipta um nafn. Þetta er versta vörumerki sem ég nokkru sinni séð.  Jájá, ég er að tala um þetta hér og auglýsa fyrir þannig fyrir þá og allt það. En ég er persónulega mjög ólíklegur til að skipta við þetta fyrirtæki því ég hef sjálfkrafa neikvætt viðhorf gagnvart því.

Ætli bókin um Guðna sé ekki nokkuð áhugaverð?

Ummæli dagsins

nóvember 21, 2007

Keppandi í Herra Ísland fær spurningu: Hver er myndarlegasti karlmaður sem þú hefur séð?

,,Úff, myndarlegasti karlmaður sem ég hef séð. Ja, allavega á Íslandi…ætli það sé þá ekki Vignir, þarna lottógaurinn.“

Vignir. Lottógaurinn. Mjög gott.

Test fyrir talgervilinn Röggu

nóvember 20, 2007

Helló. Mæ neim is Ragga eand æ em rídíng ei pessids off ínglisj text. Bödd ðe text is ritten uiþ æsleandik letturs só æ uill prónáns itt ollmóst korregtlí.

Vígvellirnir

nóvember 10, 2007

Ég horfði á myndina The Killing Fields frá 1984 í gærkvöldi. Hún er, eins og einn gestur okkar orðaði það, ekki beinlínis föstudagsefni, en hún var gríðarlega góð. Sam Waterston úr Law&Order (gamli saksóknarinn) leikur blaðamann sem fór til Kambódíu 1975 og það hvernig túlkurinn hans, Dith Pran að nafni, var tekinn höndum og færður á samyrkjubú þaðan sem honum tókst naumlega að sleppa yfir til Tælands.

Mæli hiklaust með þessari mynd, þó hún sé kannski ekki til þess fallin að koma manni í neitt sólskinsskap.

Andlaus sýn mín á myndlist

nóvember 8, 2007

Var að fletta lesbókinni um daginn. Þar var opnugrein um einhvern myndlistarmann sem ég man ekki hvað heitir. Ástæðan fyrir því að ég man ekki hvað hann heitir er sú að ég las ekki greinina. Greinina las ég ekki því framarlega í henni kom fram að listamaðurinn hefði engin skilaboð til fólksins sem skoðar listaverkin hans, ekkert við það að segja. Á þeim tímapunkti taldi ég mér óhætt að fletta á næstu síðu og leysa t.d. krossgátuna.

Með þessu er ég ekki að segja að listamenn verði alltaf að hafa einhver ótrúlega mikilvæg skilaboð fram að færa. Fallegir hlutir og falleg tónlist geta notið sín mjög vel án þess að verið sé að hamra á Íraksstríðinu eða kynjamisrétti. En þá erum við líka að tala um töluvert magn fegurðar sem þarf til svo maður einfaldlega nenni þessu.

Mér hefur sýnst þessi maður gera álíka listaverk og að búa til straumlínulagaða hnúða úr glæru plasti og líma þá á veggi. Að mínu mati er fegurð slíks ekki svo dáleiðandi að hún njóti sín frístandandi. Ég ætla einfaldlega að taka hann á orðinu og vera ekki að hlusta (eða lesa), fyrst hann hefur ekkert við mig að segja. Kúptir plasthnúðar fróa mér ekki svo glatt.

Mér finnst það frekja og tilætlunarsemi í listamönnum að segja mér að túlka þetta bara sjálfur. Á ég að túlka þetta? Þú bjóst þetta til! Túlka þú þetta sjálfur, eða reyndu að tala svo skýrt að merkingin komist óbrengluð til skila. Þetta er eins og í sögunni um nýju fötin keisarans. Sönnunarbyrðin fyrir tilvist klæðanna var tvímælalaust hjá vefurunum, ekki borgurunum sem horfðu á hinn nakta keisara.

Vinur minn, Garðar Snæbjörnsson, var einhvern tímann með bjór í hönd að gera grín að myndlistarmönnum sem koma í viðtöl og segja: „Jaaa, ég er nú kannski fyrst og fremst bara að leika mér með form.“ Aðspurðir um hvað listaverkið sé, eða eigi að vera, segja þeir svo: „Þetta er í raun bara fyrst og fremst hlutur, sko.“

Nosejob

nóvember 3, 2007

Mér finnst forkeppnin fyrir Evróvisjón mjög skemmtileg. Nafnið á þættinum er hins vegar fáránlegt. Ég skil ekki hvað Laugardalslaugin kemur þessu við.

Þýðing á dægurlagatexta Cliff Richards

nóvember 3, 2007

Syngið:

Til hammó medda!
Ággja halduppádda?
Él segja öllumaððú sért að fíla mig.
Til hammó medda
Ággja halduppádda?

Klapp, klapp

nóvember 3, 2007

Margrét er umboðsmaður barnanna.

Margrét er umboðsmaður barnanna.

Alltaf er hún hjá mér, aldrei fer hún frá mér.

Margrét er umboðsmaður barnanna.

 

Umbi barna

Jón Trausti Lúthersson

nóvember 3, 2007

Það er nú meiri trúðurinn.