Archive for október, 2007

Tillaga að skiptingu

október 29, 2007

Fyrir tveimur dögum viðurkenndi ég fyrir höfuðandstæðingi mínum að brátt færi að hausta. Hann hefur sagt haustið komið síðan snemma í ágúst, en ég hef ekki viljað gefa mig. Á laugardag sendi ég honum skilaboð þar sem viðurkennt var að brátt færi að hausta. Í dag er snjókoma. Þessi fyrsta efnisgrein er til þess gerð að renna stoðum undir tillögu mína, þar sem ég ber greinilega yfirburðagott skynbragð á gang himintunglanna og veðurkerfis jarðarinnar.

Tillagan er þessi:  Árstíðir skulu ekki miðast við fasta mánaðardaga eða fyrstu vikudaga með ákveðnu heiti í hverjum mánuði, eða aðra rökleysu. Árstíðamót skulu vera færanleg með tilliti til veðurfari á hverju ári. Hafa þarf í huga að skiptingin þarf líka að stuðla að heilbrigðu hugarfari og uppbyggilegu. Þá er hugtakanotkun öll tekin upp að erlendri fyrirmynd og hugmyndir okkar um hvernig „stemmning“ eigi að vera á hverjum tíma einnig fengnar að utan. Til dæmis má nefna að svokallaðir haustlitir birtast hér á landi ekki að hausti til, heldur síðsumars.

Sá skaðlegi hugsunarháttur að meta allt út frá dagatalinu hefur læst sig um of í huga fólks. Til dæmis bað ég Unu um að nefna hvenær sér þætti vorið hefjast, út frá náttúrufarslegum þáttum en ekki dagsetningum. Hún varð brjáluð og öskraði bara „APRÍL! APRÍL! APRÍL!“ og þusti svo út, reytandi hár sitt. Þessari sturlun verður að linna.

Tillagan:

1. Haust hefst þegar það byrjar að snjóa og þegar haustlitir hafa dofnað niður í daufa brúna tóna og laufblöð eru flest fallin af trjánum. Haustið er stutt tímabil, enda vill enginn hafa haust. Við tengjum það elli og dauða.

2. Vetur hefst þegar snjó fer að festa á jörðu lengur en 1-2 sólarhringa í senn. Góður mælikvarði er einnig þegar veðurfarinu hefur tekist að brjóta lífsviljann úr einærum plöntum. Þær eru þess eðlis að þær kunna ekki að leggjast í dvala heldur streitast við að vaxa og blómstra. Á endanum frýs vatnið í æðum þeirra og þær drepast. Þá er kominn vetur.

3. Vorið kemur þegar snjóa leysir. Þetta er ákveðin slabbtíð, og stendur frá því löngu áður en grasið fer að grænka í gegnum alls kyns sveiflur og þar til gras er orðið nokkurn veginn grænt víðast hvar og lauf á helstu runnum og trjám farin að springa út.

4. Þá hefst sumar. Sumar stendur allt græna tímabilið og í gegnum hið rómaða haustlitatímabil. Til dæmis má nefna, fyrir dagatalssjúka, að meðalhiti var meiri í september í fyrra en í júní í fyrra. Þó deilir enginn um það að í júní er sumar.

Lesandi góður, taktu þetta kerfi upp. Þú munt ekki sjá eftir því. Þetta virkar svipað og „The Secret“. Þú mun eignast gírahjól ef þú ferð eftir þessu.

Sú hugmynd hefur komið upp…

október 25, 2007

…að í janúar ferðist ég um Úkraínu, Rúmeníu, Ungverjaland, Tékkland, Pólland, Þýskaland og Danmörku.

Hvernig væri það?

Karl og kona

október 21, 2007

Innkoma Steinunnar Jóhannesardóttur rithöfundar í Silfur Egils í dag var hlægileg. Hjá henni kom fram sá (mis)skilningur að allar mannlegar athafnir og hugsanir skilgreinist af því hvað stendur í lagabálkum. Með því að gera hjónaband að stofnun sem ekki skilgreinist af kynferði þeirra sem eiga aðild að því telur hún að verið sé að afmá kynhlutverkin úr samfélaginu. Þetta er bull. Svo kom hún með einhver hálfköruð „svona hefur það alltaf verið og því ætti það alltaf að vera þannig áfram“ rök. Að sjálfsögðu tók hún þó fram að hún væri fylgjandi öllum réttarbótum fyrir samkynhneigða, eins og fólk gerir undantekningarlaust þegar það mælir gegn þeim.

Það var eitthvað annað þegar Gunnar í Krossinum mætti. Óháð því hvaða skoðanir hann hefur, sem ég er oft á tíðum ósammála, þá er ekki hægt að neita því að hann er með eindæmum mælskur maður og það er mjög gaman að hlusta á hann. Hann segir það sem honum finnst, umbúðalaust, og dregur ekki dul á að hann er bókstafstrúarmaður og siðapredikari. Þannig að jafnvel þó svo Gunnar hefði kallað samkynhneigða kynvillinga og talað um sódómisma kom hann langt um betur út úr þættinum en rithöfundurinn Steinunn. Reyndar var hann ekki þar til að ræða um samkynhneigð heldur nýju Biblíuþýðinguna, og ræddi aðallega um hana.

Fimmaur í lokin: Er ekki við hæfi að Svandís Svavarsdóttir verði kölluð REI-kafarinn?

Hvar er Magnús?

október 18, 2007

Sú spurning hefur gerst áleitnari í vikunni. Magnús Davíð Norðdahl, knastás lífs míns, fluttist til Ungverjalands nú síðsumars (vek athygli á því að enn er síðsumars). Frá því að hann fór hefur lítið til hans spurst. Ég hef sent honum tölvupóst en engin svör fengið. Skilið eftir skilaboð í spjallforritum, en ekkert hefur gerst. Kenning Unu er sú að ekkert internet sé í Austur-Evrópu en kenning mín er sú að Magnús sé einfaldlega ekki þar, heldur liggi í leyni einhvers staðar í Kópavogi.

Ég framkvæmdi austantjaldsleit að Magnúsi rétt í þessu með hjálp Google. Leitin skilaði engu, sem bendir sterklega til þess að önnur kenningin sé hin rétta. Sjá mynd:

Hvar er Magnús?

Mataræði

október 18, 2007

Í blöðunum birtast í sífellu greinar um heilsusamlegt líferni og mataræði. Þar er sífellt endurtekið að mataræði fólks, sérstaklega ungra karlmanna sé afar slæmt og þeir gæti ekki neyslu sinni á ýmiskonar heilsuspillandi efnum. En vandamálið er að þetta gefur manni yfirleitt enga mynd af því hvar maður sjálfur er staddur í þeim efnum. Hversu margir hamborgarar á mánuði eru of margir? Einn, eða fjórir? Eða er alveg í lagi að borða sjö? Ef ég borða að meðaltali tvo ávexti á dag, sem ég tel að eigi við um mig, er það þá of lítið?

Í þessari viku hefur mataræðið verið svona: Maturinn yfir daginn samanstendur af morgunkorni, ristuðu brauði, ávöxtum og jógúrt. Á mánudaginn var svínasnitzel í raspi með grænum baunum, rabbarbarasultu og kartöflumús. Á þriðjudaginn var rjómasósu-tagliatelle með sveppum og rauðlauk. Í gær voru fiskibollur með lauk, kartöflum og tómatsósu.

Hvað segir fólk? Er Freyjugötuparið á réttri leið, eða væri réttar að halda sig við tofu og spínat?

Háskólatorgið

október 17, 2007

Tillögur þær sem ég sendi inn í nafnasamkeppni um háskólatorg voru eftirfarandi:

Draslið fyrir aftan Lögberg – Bakgarður (heimilislegt og notó)
Draslið á milli – Miðgarður (vísun í norræna goðafræði (og gamla búð á Garðatorgi þar sem nú er Hagkaup), þykir það ekki alveg megasmart?)
Draslið hjá Odda – Forgarður (minnir svolítið á helvíti, sem gæti talist neikvætt, tek það á mig).
En þetta var heildstæð tilltaga.

Niðurstöður urðu hins vegar þær að húsin munu heita Háskólatorg, Tröð og Gimli. Háskólatorg er náttúrulega nafn sem ekki á að veita peningaverðlaun fyrir. Í það minnsta ekki Gunnari Páli Baldvinssyni.  Þar að auki eru 100.000 krónur slík upphæð að enginn hefur gott af því að öðlast hana einn. Fólk verður einfaldlega brjálað af því að handleika svo fáránlega háar upphæðir. Réttara hefði verið að skipta þessu niður á milli allra hálfvitanna sem sendu inn nafnið „Háskólatorg“ í samkeppnina.

Tröð er svo annað slysið. Hvernig á nútímafólk að nota svona orð? ,,Zælar. Nei, ég verð kominn eftir fimm beibí, er bara í fekkin Tröð núna. Ok. Blenzig.“ Nú er bleik brugðið ef mönnum þykir þetta ganga upp.

Gimli, snobbað fyrir Vestur-Íslendingum. How low can you go? Þetta eru afkomendur liðhlaupa og föðurlandssvikara.

Rectum Háskóla Íslands segi af sér hið snarasta.

Málfars

október 15, 2007

Orðið „þolinmæði“ virðist nú æ oftar ritað með vaffi. Þvolinmæði. Það er furðulegt.

Sú tilhneiging manna að kalla allt ferli er líka skemmtileg. Nýtt ferli sem ónefndur ofurbloggari Íslands notar í einni af sínum nýjustu færslum er biðferli. Semsagt ferli sem gengur út á bið. Biðferlið er þá væntanlega eins konar innskotsferli í hinu eiginlega ferli, sem getur verið hvað sem er, kannski að gifta sig. Ef kirkjan er fullbókuð langt fram í tímann tekur við biðferli, en ekki bið, eftir kirkjunni. Svo kallar hann „það að gifta sig“ hjónabandsferli. Ferli, ferli, ferli, ferli.

Af hverju ert þú að leita?
– af hverju? af því bara!
Nei ég meina, af hverju ertu að leita?
– af þessum hól.
Hvað meinarðu?
– hvað meina ég? ég týndi hjólinu mínu og það er gott að leita að því af þessum hól. Hér er víðsýnt mjög.

Samtíningur

október 11, 2007

Ég las það á glæru eftir danskan afbrotafræðing að 0,714% Bandaríkjamanna sitji nú í fangelsi. Það gerir um 2,16 milljónir manna. Þarna erum við að tala um töluvert magn réttlætis.

Ég heyrði borgarstjóra segja í Kastljósinu eitthvað á þá leið að „við erum ekki að selja neina þekkingu út úr Orkuveitunni“ Í kjölfarið fylgdi sú spurning í hverju hið 10 milljarða verðmæti lægi þá og svarið var „Nú bara í þeirri þekkingu og…“ og svo taldi hann upp sitthvað fleira. Ekki að þetta hafi skipt höfuðmáli, en – góður.

Ég heyrði í útvarpinu lag eftir Rúnar Júlíusson, að ég held. Ein ljóðlínan í þessu rokkaða lagi var svona: „ÞAÐ STENDUR HVERGI SKRIFAÐ Á BÓK HVERNIG LÍFINU HÁTTAÐ SKAL.“ Ég tel ríka ástæðu til að gera alvarlegar athugasemdir við þessa fullyrðingu og draga sannleiksgildi hennar í efa. Mætti til dæmis nefna tvö höfuðrit: Líkami fyrir lífið og Biblían.

Kominn heim

október 2, 2007

Á sunnudagskvöld snerum við Una heim frá för okkar til Króatíu. Nú hafa því bæst þrjú lönd í annars fátæklegt landasafn mitt, en mér hefur alltaf þótt asnalegt að telja ekki með þau lönd sem maður hefur séð að einhverju leyti. Það eina sem ég tel ekki með eru lönd sem ég hef fujsískt komið til en aldrei farið út fyrir flugvallarbygginguna. Ég hef því komið til: Noregs, Bandaríkjanna (New York, Flórída, Minnesota, Nevada, Kaliforníu), Kanada, Englands, Frakklands, Portúgals, Grikklands, Tyrklands, Ítalíu, Slóveníu og Króatíu.

Já þið lásuð rétt. Ég hef aldrei komið til Danmerkur. Ég hef aðeins millilent einu sinni á Kastrup. Einnig hef ég millilent á Arlanda, en tel mig þó ekki hafa komið til Svíþjóðar heldur. Formlega.

Króatía var afar næs. Ekki get ég sagst hafa kynnst öllu landinu en fékk nokkuð góða tilfinningu fyrir Istríu, skaganum sem gengur út í norðanvert Adríahafið. Króatía er mjög greinilega á menningarlegu áhrifasvæði Ítalíu og Þýskalands. Á opinberum skiltum er tungumálaröðin þessi: Króatíska, Ítalska, Þýska, Enska. Ætli það markist ekki af því að Ítölsk áhrif í gegnum söguna hafa verið meiri, en áhrif Þjóðverja meiri í seinni tíð, svona túrismaáhrif. Við dvöldum í bænum Poréč (Boreddsj) en fórum einnig til bæjarins Rovinj (Róvin) sem gengur í raun undir tveimur nöfnum, enda jafnoft kallaður Rovigno.

Tungumálakunnátta heimamanna er að því er mér virtist best í þýskunni. Þeir voru hræðilega lélegir í ensku, fyrir utan hótelstarfsmenn og þjóna á betri veitingahúsum, en ég heyrði þá eiginlega aldrei tala ítölsku. Ítölsk áhrif eru mikil á matargerðina, enda gera þeir mikið af pizzum og pasta og gera ís (sladoled) sem líkist víst þeim ítalska nokkuð. Allt þetta var mjög gott hjá þeim. En svo eru það þýsku áhrifin, sem birtast í því að ég þurfti að beita fyrir mig menntaskólaþýsku þegar ég keypti mér sundskýlu og sandala. „Vieviel für diese Badehose? Nein, das ist zuviel. Und diese? Ja ok, achtzich Kunen. Die Frau kauft die Schuhe für mich, ich habe kein geld. Danke schön.“

Einnig birtust þau í herfilegu úrvali matar á flestum ódýrari veitingastöðum við ströndina. Er það svo, ég spyr, er það svo, að þegar maður rís upp af sólarbeði sínu, dasaður og útataður í sólarvörn, að maður segi við sjálfan sig: Ég held ég fari og fái mér vínarsnitzel eða pönnusteikt svínakjöt með tómatsósu. Er það svo? Nei. Svo er ekki. Eftir göngu meðfram ströndinni næstsíðasta daginn fékk ég til dæmis að gæða mér á smjörsteiktum kjötfarshleifi með tómatsósu.

Ef ekki hefði verið fyrir hinn ágæta króatíska Pivo (bjór) hefði maður ekki látið bjóða sér þetta. Helstu tegundir af króatískum Pivo sem smakkaðar voru, voru Union, Ozjujsko og Favorit. Allt mjög góður bjór.

Einnig komumst við að því að kjörið hvítvín með sjávarréttum og pasta er hið Istríska Malvazija hvítvín. Sérlega létt og leikandi, ávaxtakennt og auðvelt í drykkju, borið fram vel kælt. Þeir gera fín vín þarna. Tókum auðvitað með okkur heim tvær flöskur, eina Malvaziju og eina Cabernet Sauvignon, einnig Istríska.

Það kom mér hins vegar á óvart hversu hátt verðlagið þarna var. Það var bara alls ekkert svo ódýrt. Tvær manneskjur úti að borða á flottasta staðnum í bænum gátu alveg farið með 10.000 kall á einu kvöldi, með víni og svona.

Skemmtileg upplifun átti sér stað á miðvikudaginn. Þá vorum við í Rovinj og það gerði mikið þrumuveður og úrhellisrigningu, afbrigðilega mikla fyrir árstímann. Í gamla bænum þar er stór hæð og jafnframt engin niðurföll eða holræsi, enda bærinn frá tímum Rómarveldis og gangstéttirnar líka. Á hálftíma breyttust götur í árfarvegi og stigar breyttust í fallegar fossaraðir sem minntu á Ísland. Skemmst er frá því að segja að við urðum hundblaut á leiðinni á rútustöðina.