Archive for júlí, 2007

Hlaup VIII

júlí 30, 2007

Skráði mig í 10 kílómetrana þann 18. ágúst næstkomandi. Það er því eins gott að halda sig við efnið. Ég mun láta 5.000 kallinn renna til styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Hef hlaupið þessa vegalengd nokkrum sinnum nú þegar, sem var þónokkur sigur út af fyrir sig til að byrja með. Er að berjast við að koma tímanum undir 60 mínútur. Í dag hljóp ég þetta á 63 mínútum.

Ég veit ekki hvaða tíma ég á að stefna á þann átjánda. Kannski 55 mínútur.

Rigning

júlí 29, 2007

Eftir alla þessa sólardaga truflar það mann lítið að það sé hellidemba úti. Helst langar mann bara út í rigninguna. Þessi dagur, eins og allir aðrir dagar í sumar, verður góður. Ég er búinn að sofa út eftir að hafa grillað hamborgara og spilað fótbolta uppi í Hvalfirði í gær. Nú tekur við 5 klukkustunda afslappelsi og mögulega útihlaup (úúú tabú-orð!) þangað til ég fer í sjötugsafmæli ástkærrar frænku minnar, Guðrúnar Pétursdóttur eða Unnu eins og hún er oftast kölluð.

Svo er aðsend grein í blaðinu í dag sem er skemmtileg. Nú hef ég bæði verið kallaður áróðursblaðamaður af versta tagi og verið talinn „leggjast lágt“ við skrif mín. Af öllu sem ég hef skrifað í sumar hefur þessi blessaða grein um Mývatn vakið mestu viðbrögðin.

Hér er svo stutt ljóð í tilefni rigningarinnar:

Einu sinni átti ég hest,

situr úti í götu,

þarna siglir einhver inn,

sitt af hvoru tagi.

Stiklað á stóru

júlí 26, 2007

Það er skrýtið þegar miklir spekingar kunna ekki samræðulist. Það lætur þá stundum líta út fyrir að vera algjörir bjánar. Það er líka skrýtið þegar fólk kann mannkynssöguna utan að en áttar sig ekki á einföldum og almennum kurteisisreglum í mannlegum samskiptum.

Ég er að hugsa um að ganga á Botnssúlur á mánudaginn. Áhugasamir hafi samband.

Sá umræður á malefnin.com um frétt sem ég skrifaði um Mývatn. Þar er ég ásakaður um að vera áróðursblaðamaður af versta tagi. Það finnst mér stórkostlega fyndið. Í umræðunum tekst einhverjum netverja meira að segja að túlka fréttina sem argasta áróður, nema bara í þveröfuga átt við málshefjanda. Það gæti bent til þess að fréttin hafi verið nokkuð ballanseruð…

Hóran sem settist í hásæti Danadrottningar og tók af sér nektarmyndasyrpu fær heiðursverðlaun vikunnar.

Samanburður á verkum

júlí 17, 2007

Hannes Hólmsteinn Gissurarson – Hvar á maðurinn heima?

Fræðileg umfjöllun um kenningar Machiavellis, John Locke, Platóns og fleiri spekinga.

Gillzenegger – Hvar á kjeadlinn heima?

Rit sem spratt fullskapað fram úr hugarfylgsnum meistarans þegar hann mundi ekki hvar hann átti heima eftir hressilegt skemmtanahald.

Nýr vinkill á málið

júlí 17, 2007

Friðbjörn Orri Ketilsson hæðist að foreldrum Madeleine McCann í nýlegri færslu á blogginu sínu. Hann tiltekur þar þrjá möguleika sem hann telur að séu í stöðunni, en gleymir einum. Það er möguleikinn á því að ræningi/ræningjar stelpunnar ætli að halda henni fanginni. Natascha Kampusch fékk að upplifa það, en Wolfgang Priklopil, hélt henni fanginni í átta ár í kjallaranum heima hjá sér, þangað til hún slapp frá honum í ágúst í fyrra.

Samkvæmt rökfærslu Friðbjarnar Orra var það rangt af foreldrum Madeleine að reyna að höfða til mannlegra kennda í ræningjanum, sem ekki er vitað hvað ætlaði sér með stúlkuna, því það gæti haft neikvæð áhrif á getu hans til þess að stunda viðskipti með hana. Friðbjörn Orri klikkir svo út með smá kaldhæðni í lokin og stillir þar foreldrum Madeleine upp sem vonda fólkinu í málinu og gerir lítið úr því sem þau hafa mátt þola, en þau vita ekki hvort barninu þeirra er haldið föngnu, það komið í þrældóm hinum megin á hnettinum eða búið að nauðga því og myrða það:

„Flott hjá þessum foreldrum.

Þeir hljóta að vera ánægðir með þessa sumarrispu sína.“

Ljóðlína

júlí 13, 2007

Ég var lítill kall og ég lék mér við ströndina.

Hlaup VII

júlí 12, 2007

10 kílómetrar voru hlaupnir á rétt rúmlega klukkutíma í dag. Þar með er ég í betra hlaupaformi en ég hef nokkru sinni verið í. Það er gott.

Hlaupið var:

Freyjugötu, Barónsstíg, Egilsgötu, Snorrabraut,Flókagötu, Miklatún, Miklubraut, Kringlumýrarbraut, Bústaðaveg, að Perlunni, niður í gegnum skóginn á Flugvallarveg til Nauthólsvíkur, Ægisíðu, Suðurgötu, Hringbraut, Hljómskálagarð, Bragagötu, Freyjugötu.

Hlaupatími 1:05

Ég gerði kort í þetta skipti. Kortið er tileinkað Konráði Jónssyni

Hlaupahringur 8

Geðveikur?

júlí 12, 2007

Ég var að keyra heim úr vinnunni áðan. Ég lýsi eftir fólki sem hlustaði á útvarpsfréttir á miðnætti. Mig minnir að fréttaþulur hafi verið Sigvaldi Júlíusson. Sigvaldi Júlíusson er flott nafn (vil ég ekki bara giftast Sigvalda Júlíussyni? spyrjið þið. Svarið er nei.).

Allavega, ég var að keyra heim úr vinnunni áðan. Útvarpsfréttir voru í gangi, rétt eftir miðnætti. Þar sem Sigvaldi var að lesa einhverja frétt ruddist einhver trufluð og djöfulleg rödd fram í útsendinguna og sagði „BLESS BLEEESS!“

Þetta var eins og gefur að skilja fáránlega krípí, eins og unga fólkið segir. Ég leit í baksýnisspegilinn til að aðgæta hvort Linda Blair sæti nokkuð í aftursætinu, öll blóðug í klofinu. Svo var reyndar ekki. Fréttanef mitt segir mér þó að slíkt hefði þótt tíðindum sæta. Ég sé fyrir mér fyrirsögnina: BLÓÐUGUR KVENDJÖFULL FINNST Í AFTURSÆTI SÆNSKRAR GLÆSIBIFREIÐAR Á HRINGBRAUT.

En sem fyrr segir lýsi ég eftir fólki sem hlustaði á sama fréttatíma og heyrði þessa djöfullegu rödd. Það þýðir víst ekki að hlusta á vefupptökuna. Annað hvort er ég geðveikur eða þetta var klippt út úr upptökunni áður en það var vistað á netinu.

Einnig gæti verið að útvarpið mitt hafi pikkað eitthvað upp úr svona iTrip græju.

Látið mig vita. Endilega.

Fullur tankur

júlí 10, 2007

,,Af hverju ekki að hafa fullan tank af Guðs blessun?“ spurði maðurinn á Omega.

Kunningi minn einn er hortugur maður og svaraði því til:

,,Af hverju ekki að hafa fullan tank af hoppaðu upp í rassgatið á þér?“

Hlaup V

júlí 9, 2007

Já nú hef ég bloggað nokkrum sinnum um annað en hlaup. Og hvað gerist þá? Kemur eitthvað feedback? Eru allir sáttir því ég blogga um annað en hlaup? Nei. Ekkert. Þess vegna mun ég nú blogga aftur um hlaup.

Á fimmtudaginn var hringurinn lengdur aðeins. Ekki býðst kort því ég nenni ekki að klippa þau saman.

Hlaupið var eftir Freyjugötu, Barónsstíg, Eiríksgötu, Snorrabraut, Miklubraut, Lönguhlíð, upp að Perlu, niður eftir stóra göngustígnum í gegnum skóginn, niður í Nauthólsvík, Ægisíðu, Suðurgötu, Hringbraut, Hljómskálagarð, Bragagötu, Freyjugötu. Leið sennilega um 9 km.

Var bara nokkuð góður á því eftir hlaupið en ég veit ekki hvað ég var lengi. Tíminn sennilega ekkert til að hrópa húrra fyrir, en þó hlaupið alla leiðina og heldur hraðar en áður.