Archive for júní, 2007

Síðuhaus

júní 30, 2007

Síðuhaus hljómar eins og ægilegt lýti á mannslíkama. En hér er átt við efsta hluta netsíðu sem þessarar. Hér var í nokkra daga rauður haus með rjómaþema. Hann hlaut ótrúlega dræmar viðtökur miðað við gæði. Svo virðist sem lesendur kunni ekki lagið:

Mér þykir góður rjómi,

hann er það besta sem ég fæ.

Síðan kemur reyktur, steiktur lundi.

Síðan kemur loðið skott af hundi.

Síðan vakna ég af værum blundi,

buxnalaus!

Hér hefi ég því sett upp nýjan haus. Þetta er Hreðavatn. Njótið.

Mótorhjól

júní 30, 2007

Þessi mótorhjólaumræða er einhvern veginn alltaf eins. Fyrst segja allir að mótorhjólamenn séu vondir. Svo er talað við ranga mótorhjólamenn (þessa á chopperunum) sem koma málinu ekkert við. Þeir segja: „Hey, við erum nú ekki allir svona vondir.“ Svo er það búið. En fíflin á racer-hjólunum halda alltaf áfram að keyra eins og bjánar.

Einnig virðist þetta alltaf bara snúast um hraðann, en auðvitað ætti þetta líka að snúast um það hvernig þeir fara ekki eftir neinum reglum að því er virðist. Fara yfir á rauðu, virða ekki biðskyldu, fara á milli bíla á ljósum og framfyrir og svo framvegis

Hlaup V

júní 27, 2007

Á sunnudag var hlaupið úr Lundarreykjadal niður á Hvítárvelli. Leiðin var rétt um 9 km. Ekki býðst kort að þessu sinni.

Einnig vil ég vekja athygli á gæðum sundlaugarinnar í Borgarnesi. Hún er afburðagóð.

Þá er fegurð Hreðavatns slík að það er illa gert af þeim sem reyna að hylma yfir hana og fela Hreðavatn frá okkur hinum. Skógurinn, eyjarnar, vatnið, húsin. Allt  fullkomið.

Hlaup IV

júní 19, 2007

Hlaup hafa nokkuð tafist vegna almenns skemmtanahalds og vinnu. Í þetta skipti var flugvallarhringur hlaupinn öðru sinni en dálítið lengri leið þó. Nú skreið þetta rétt upp fyrir 8 kílómetra.

Hlaupahringur 7

Mynd 1. Hafist er fóta við Freyjugötu 25B. Hlaupið er Haðarstíg, Nönnugötu, Njarðargötu út að flugvelli, Suðurgötu, Ægisíðu, Flugvallarveg, Bústaðaveg, Miklubraut, yfir göngubrautina við Tanngarð, upp á Gömlu-Hringbraut, Barónsstíg, Mímisveg, Sjafnargötu, Njarðargötu, Freyjugötu.

Hlaup III

júní 15, 2007

Jæja. Ekkert lát er á hlaupum. Ég var ávíttur harðlega fyrir að fá mér risavaxna og viðurbjóðslega kökusneið í vinnunni í dag. Ég lét mér það að kenningu verða og át einungis létt kjúklingasalat og ávexti í kvöldmat, ásamt brauði er innihélt engan unninn sykur, meira að segja bara engan sykur. Gott brauð. En hringurinn var semsagt lengdur og fór nú í rétt um 7500 metra. Talnaglöggir sjá í hendi sér að það eru um 7,5 kílómetrar. Í þetta skipti var líka ekkert gefist upp í brekkunni. Hún var hlaupin.

Hlaupahringur 6

Mynd 1. Hafist er fóta við Freyjugötu 25B og farið Freyjugötu, Barónsstíg, Eiríksgötu, Snorrabraut, Bústaðaveg, Flugvallarveg, Ægisíðu (stíginn), Suðurgötu, Hringbraut, gegnum Hljómskálagarðinn, Bragagötu, Freyjugötu. Athugið að myndin hefur verið klippt saman úr tveimur kortum og vegalengdirnar af þeim lagðar saman í u.þ.b. 7500 metra. 

Hlaup II

júní 13, 2007

Hér er nýjasti hringurinn, náði ekki alveg að klára. Gekk svona 300 metra í lokin. En þetta er semsagt komið í ca. 6 kílómetra. Þetta litla útskot þarna hjá gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar er auðvitað hringurinn sem göngubrúin leiðir mann. Jájá, það skal engu sleppt úr þessari mælingu.

Hlaupahringur 4


Mynd 1. Hafist er fóta við Freyjugötu 25B. Farið er Freyjugötu, Barónsstíg, Egilsgötu, Flókagötu, Skaftahlíð, Miklubraut, Gömlu-Hringbraut, yfir Hringbraut á göngubrú og eftir göngustíg að Sæmundargötu, Sæmundargötu út fyrir HÍ, Suðurgötu, Hringbraut, gegnum Hljómskálagarð, Bragagötu, Freyjugötu.

Hlaup

júní 11, 2007

Ég er ekki mikill hlaupagikkur, en ég reyni. Nú er ég búinn að vera að bæta mig sífellt undanfarið og lengi hringinn smám saman. Hann er nú kominn upp í ca. 5 km (sjá mynd 1.) og endar á brekkunni frá Miðbæjarskóla og heim á Freyjugötu 25B sem er alveg við Hallgrímskirkju. Enn sem komið er má segja að sá hluti leiðarinnar sé farinn „gangandi með skokkstíl.“

Hlaupahringur

Mynd 1. Hafist er fóta við Freyjugötu 25B. Farið er Njarðargötu, Eiríksgötu, Frakkastíg, Bergþórugötu að Snorrabraut. Karlagötu, Gunnarsbraut, Flókagötu, á ská yfir Klambratún, Miklubraut, Gömlu-Hringbraut. Sóleyjargötu, inn í Hljómskálagarð við Bragagötu, meðfram Tjörninni vestan megin að Ráðhúsi, Vonarstræti, upp með Miðbæjarskóla á Laufásveg, Skálholtsstíg, Freyjugötu.

Tuð

júní 11, 2007

Ég ætlaði að tuða um aksturslag vélhjólamanna hér. En nú nenni ég því ekki.

Það er skýjað.

Fyndið

júní 7, 2007

Ég á fyndinn vin sem heitir s.

s says:
ég fór í gymmið í morgun. geðveikt duglegur
Önundr says:
núnú, ég ætla einmitt út að hlaupa eftir hádegið
Önundr says:
er að pæla í að taka kannski 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu
s says:
nice
s says:
af hverju bara 10? af hverju ekki 100 eða 1000?

Fréttir

júní 4, 2007

Það getur verið gaman að horfa á fréttir.

Í fyrsta lagi var það fréttin hennar Þóru Arnórsdóttur um mávinn í Leirvogshólmanum. Hver er dularfulli gamli maðurinn sem kom í hólmann? Af hverju hvarf hann fyrir þremur árum? Hvert fór hann? Hver var hann? Dularfulla, gamla manninn bar margoft á góma í þessari löngu frétt. Ég held að Þóra þurfi að fá þau Jonna, Önnu, Finn og Dísu til þess að leysa gátuna og lenda í dálitlum ævintýrum í leiðinni.

Svo var það fréttin hans Sigurfinns um sjávarútvegsmálin og þorskkvótatillögur Hafrannsóknastofnunar. Hann var í Garði, held ég, og tók þar nokkra starfsmenn útgerðar tali. Hann talaði við verkstjórann í fiskvinnslunni, en hann hét Þorsteinn. Svo talaði hann við stýrimann, Þorstein að nafni. Einnig ræddi hann við skipstjóra og útgerðarmann sem hét Þorsteinn. Ekki nóg með þetta heldur ræddi hann við fiskverkakonuna Þorsteinsínu.
Ég krefst þess að Sigurfinnur hætti þrálátri mismunun sinni gegn fólki sem ekki heitir nöfnum sem byrja á ,,Þorstein-„. Þetta er sjúkt.