Archive for maí, 2007

Margt hefur gerst

maí 26, 2007

…síðan ég skrifaði hér síðast, bæði í landinu og hjá mér. Ekki ætla ég að telja það allt upp, en m.a. kláraði ég prófin, kaus, varð nokkuð ánægður með niðurstöðuna, fór í hringferð um landið, fékk útlendinga í heimsókn, fór í ferð um gullna hringinn og um suðurland að Vík.

Vinnan byrjar á þriðjudag. Ég á afmæli á morgun.

Ég mæli með:

Íslandi. Þeir sem ekki hafa farið þangað drífi sig sem fyrst.

Próflok nálgast

maí 9, 2007

Í fyrramálið er síðasta prófið. Þá hef ég þreytt fimm próf síðan á mánudaginn í síðustu viku. Nokkuð þétt próftafla enda bara fimm skyldukúrsar teknir og þeir virðast raða þeim öllum fyrst á töfluna, en valið kemur svo á eftir. Ég held að þetta hafi farið ágætlega hingað til og hagfræðikrossaprófið í fyrramálið skelfir mig svosem ekki.

Næstu vikur eru svo nokkuð rækilega skipulagðar, en það fyrsta sem ég geri verður að fara í klippingu og láta skerða makkann. Eins og kunnugir vita er ég með eindæmum hárprúður maður.

Hann á afmæli í dag

maí 8, 2007

JFM lét gesti á karlakvöldi FH víst syngja fyrir sig afmælissönginn þegar hann mætti þangað ásamt frambjóðendum annarra flokka og fékk að halda stutta ræðu. Hefði maður sungið með?

Að fá spurninguna ,,hvað með að hafa JFM á framboðslista?“ er í mínum huga eins og að fá spurninguna ,,viltu ekki örugglega fá mysing á pizzuna?“

Ha, mysing? Nei.

The Mummy Returns

maí 6, 2007

Í gærkvöldi sýndi hið menningarlega Ríkissjónvarp allri alþýðu fræðslumynd um Egyptaland til forna og áhrif þess á nútímann (f. hl. 20. aldar). Hægt er að gera nokkrar athugasemdir við myndina en hér verður aðeins tæpt á einu atriði.

Í dulinni vin einni í eyðimörkum Affiríku, sennilega einhvers staðar við upptök Nílar, í Súdan geri ég mér í hugarlund, er pýramíði úr gulli. Ef Brendan Fraser kemur syni sínum ekki inn í pýramíðann fyrir sólarupprás á sjeunda degi frá því að sonurinn setur í flónsku sinni á sig tiltekið armband sem réttilega er í eigu The Rock, glímukappa frá Bandaríkjunum, fer illa fyrir syninum. Að morgni viðkomandi dags eru þeir kumpánar við pýramíðann og sólin tekur að rísa upp fyrir brúnir fjallanna.

En hér fipast henni Hollywood flugið. Þannig er mál með vexti að Brendan stendur á milli fjalls og mannvirkis með barnið í fangi sér, en sólin kemur upp fyrir fjallsbrúnina. Hann neyðist því til að hlaupa upp brekkuna að pýramíðanum áður en skugginn hopar alla leið þangað og sólin skín á hann. Sólin byrjar semsagt að skína á jörðina næst fjallinu og fikrar sig smám saman frá fjallinu og að pýramíðanum. Þetta sætti ég mig ekki við, en meðfylgjandi skýringarmynd ætti að sýna svart á hvítu hvernig þetta stenst ekki.

Skýringarmynd

 Mynd 1. Sýnt er hvernig Ríkissjónvarpið heldur lygum að alþýðunni.

Þriðji brandarinn

maí 4, 2007

Eins og margoft hefur komið fram sæki ég tilefni til að hlæja ekki langt yfir skammt. Ég er sjálfbær hvað þetta varðar. Hér er nýjasta verk mitt:

Q: Veist þú af hverju það er íslenskufræðingur starfandi á hverju einasta sædýrasafni sem hefur hákarla til sýnis?

————————————–

A:  Því þeir kunna háfamál.

Tilkynning

maí 3, 2007

Ég mun lesa bók að heimili mínu, annað kvöld á milli kl. 21.00 og 23.00

Áhugasömum er velkomið að koma og horfa á mig lesa bókina, en verið mætt snemma ef þið viljið vera örugg um að fá sæti.

Aðgangseyrir er vægur: 300 ISK.

Ég er svona 95% viss…

maí 2, 2007

…um að ég kaupi mér svona hjól eftir prófin sem afmælisgjöf til mín frá mér (áhugasamir mega hjálpa til með frjálsum framlögum). Þetta kostar einhvern 55.000 kall.

Hjól frá Markinu

Helstu upplýsingar um græjuna: (þetta hljómar mjög vel en ég veit ekkert hvað þetta þýðir)

Fjöldi gíra: 24

Stell: Ál 6061

Afturskiptir: Shimano Alivio

Framskiptir: Shimano FD-M330

Skiptihandföng: Shimano EZ-fire plus

Dempari: Suntour XCR læsanlegur 100mm

Gjarðir: 26″ Rigida ZAC 19 SL tvöfaldur ál

Bremsur: V-bremsur Scott Comp ál

Dekk: 26 x 2,0 Scott Manx 27 tpi