Archive for mars, 2007

Memory lane

mars 30, 2007

Gríðarlega spennandi að fylgjast með MR-ingum hirða það sem þeir eiga með réttu í beinni útsendingu. Hafa verið með besta liðið undanfarin ár, en ekki fengið sínar tölvur og utanlandsferðir vegna samsæris, mútumála og spillingar. Er ekki við hæfi að Ríkisútvarpið gjaldi skólanum 15 ferðatölvur, 15 bækur um náttúru Íslands og sólarlandaferð fyrir 15 manns, nú þegar réttlætinu hefur verið þjónað?

MK-ingar áttu auðvitað aldrei möguleika.

Aldrei.

Loksins maður með mönnum

mars 29, 2007

Ég er búinn að virkja auðkennislykilinn.

Reiðisfjörður fullur af súrkáli

mars 28, 2007

Fyrsti súrkálsfarmurinn er kominn til Reiðisfjarðar. Tæplega 200 metra langt, 48 þúsund tonna flutningaskip, Sauerkraut Soldat, flutti farminn frá Ástralíu og var 44 sólarhringa á leiðinni. Súrkálsfarmurinn sem landað verður er 39 þúsund tonn sem reiknað er með að dugi til framleiðslu á 20 þúsund tonnum af áli og talið er að fyrsta kerið verði gangsett í nýju álveri Alcoa í Reiðisfirði um páskana.

Hvernig í fjáranum ætla menn að framleiða málm úr grænmeti? Spyr sá sem ekki veit!

Sjá hér: Frétt á mogganum

Ýmislegt

mars 28, 2007

The Jerry Springer Show

Ég hef átt í deilum við félaga minn undanfarið. Þær snúast um það hvort þáttur Jerry Springer sé leikinn eða ekki. Hann heldur því fram að þetta sé ekta, en ég tel að mest af þessu sé leikið.

Spaugstofan og þjóðsöngurinn

Kastljóss-Sigmar átti ágætis líkingu í því máli á blogginu sínu. Hann telur að menn ættu að setja Múhameð spámann þar inn í staðinn fyrir þjóðsöng og fána. Góður punktur hjá honum. Svo átti einhver annar þá ábendingu að virðing er áunnin og það er í raun fjarstæðukennt að lögbinda sjálfa virðingu fólks fyrir ákveðnum fyrirbærum. Annað hvort virðir fólk þau eða ekki. Ég get ekki séð að það sé beinlínis gert. En í lögum um þjóðsönginn er öll önnur meðferð á honum en sú hefðbundna bönnuð og í 1. mgr. 12. gr. fánalaganna er í það minnsta blátt bann við því að menn óvirði fánann í orði eða verki.

Engu að síður er þetta tvíeggjað sverð. Eða margeggjað (marg-eggjað, ekki mar-geggjað) ef slíkt sverð hefur einhvern tíma verið til. Ég er margklofinn í þessu máli, í herðar niður jafnvel.

Nú er það svo að fyrirbæri eins og þjóðsöng og þjóðfána mun ákveðinn hópur virða og halda mikið upp á. Næstum því óumflýjanlega mun einhver annar hópur innan samfélagsins fyrirlíta þessi fyrirbæri með jafnafgerandi hætti og fyrri hópurinn virðir þau. Annar hópurinn gerir sína afstöðu ljósa, og þá þarf hinn hópurinn að gera sína afstöðu ljósa, t.d. með því að setja upp pípuhatt í fánalitunum. Það gæti haft í för með sér álíka fána- og þjóðsöngsmenningu og er í Bandaríkjunum, þar sem heiður þessara fyrirbæra er hafður í hvað mestum hávegum. Menn klæðast fánajakkafötum og fánapípuhöttum og keyra um á bílum í fánalitunum og dreifa plakötum og miðum með fánanum á. Á hverjum íþróttaviðburði er fundin út ný leið til þess að þjösnast á þjóðsöngnum (sem fjallar um fánann nb.) með nýjum hætti – allt til þess að sýna ást fólks á föðurlandinu.

Nú gæti ég auðvitað sagt að mér væri alveg sama þótt sú yrði niðurstaðan, enda séu þetta bara skurðgoð sem ekki eigi að dýrka. En ég held að svarið sé samt á þá leið að mér sé ekki sama. Þessi bandaríski fánakúltúr hefur lengi farið í mínar fínustu. Ég verð samt að hafa þann fyrirvara á að ég veit ekki hvort fánamenningin þar vestra er vegna skorts á reglum um þetta, eða út af einhverju allt öðru.

Ég gæti semsagt verið fylgjandi reglum um þessi atriði af því að ég nenni ekki einhverjum hallæriskúltúr með þessi fyrirbæri. Hins vegar væru ástæðurnar ekki þær að ég og Una höfum alltaf fánahyllingu við sólarupprás og fellum tár saman þegar þjóðsöngurinn er sunginn á Laugardalsvelli. Grínið hjá Spaugstofumönnum særði mig ekki, mér fannst það frekar fyndið reyndar.

Þróunarkenningin

Skv. þessari mynd sem ég veit ekki hvort er áreiðanleg trúir minnihluti Bandaríkjamanna á þróunarkenninguna. Nú á ég líka í vandræðum með að gera það upp við mig hvort þessi og þessi séu að leika í grínþætti eða hvort þeir eru í alvörunni að reyna að sannfæra einhvern. Úff.

ATH!

mars 28, 2007

Hlægja er skrifað hlæja.

Mannsal er skrifað mansal.

Takk fyrir.

Ýmislegt

mars 20, 2007

Þessi færsla er ekki hugsuð sem samfelld pæling, bara nokkur atriði sem ég hef verið að pæla í undanfarna daga:

Víglundur Þorsteinsson sagði í Silfrinu á sunnudaginn eitthvað á þessa leið: 

,,Það er ekkert út frá Ríó-yfirlýsingunni og  þeim glóbölu skuldbindingum sem við höfum undirgengist sem þjóð sem segir annað en að Kárahnjúkavirkjun sé vatnsaflsvirkjun, uppfylli í einu ög öllu skuldbindingar um sjálfbæra þróun. Þá fóru menn að rífast og segja lónið fyllist á 400 árum. Og þá segi ég bara á móti, bíddu það má þá bara finna á 400 árum nýtingarmöguleika á leirnum og eðjunni sem sest til í lóninu. Það eru ýmsir kostir örugglega til í því…[]…það er ábyggilega ýmislegt sem hægt er að finna. Það eina sem ég er að segja…taka þessa umræðu úr þessum þraspotti og nálgast hana út frá uppbyggilegri framtíðarsýn. Ég ætla bara að segja þetta nákvæmlega svona: Ef við ekki nýtum okkar orkulindir á þessari öld og komandi öldum þá göngum við til baka og stopp á stóriðjuframkvæmdum og frestun á stóriðjuframkvæmdum þýðir stöðnun og stöðnun snýst svo yfir í samdrátt og samdráttur þýðir kauplækkun, samdráttur þýðir fækkun starfa, verðhjöðnun, verðlækkun á fasteignum…”

Áhugavert að Víglundur geti tekið “eitthvað annað”-pólinn eða ”þetta reddast”-pólinn þegar hann ræðir um hálandaleðjuna. Voðalega svipað því að segja “já menn verða bara að vinna við eitthvað annað en stóriðju”.

Við gerum bara eitthvað, þetta reddast mar. Þar af leiðir: Kárahnjúkavirkjun fellur undir sjálfbæra nýtingu auðlinda skv. Víglundi.

Framtíðarlandið vill að landsmenn og þingmenn skrifi undir sáttmálann sinn. Einhverjir hafa veitt því athygli að sáttmáli er oftar en ekki einhvers konar tvíhliða gerningur en ekki plagg sem einn semur og lætur aðra skrifa undir. Það er eitthvað til í þessu, enda sáttmálinn kannski helst til efnismikill. Gat nú gerst, menn eru eflaust svo innblásnir á fundum að þeir geta ekki sett tappann í byttuna.

Fyrsti punkturinn er blaður, og þriðji punkturinn veldur deilum. En annar punkturinn er góður. Af hverju ekki að láta hann duga? Það er heilbrigð skynsemi að skoða fyrst hverju maður ætlar að halda, og fórna svo rest, en ekki öfugt. Flestir ættu að geta skrifað undir punkt númer tvö. Þingmenn og borgarar vilja hins vegar yfirleitt ekki skrifa undir eitthvað sem þeir eru ósammála eða eitthvað sem þeim þykir vera innihaldslaust blaður og “eitthvað annað”-málflutningur. 

Andri Snær er hins vegar mjög sáttur við sáttmálann og segir að það sé þá bara þeirra mál sem ekki vilji skrifa undir hann ef þeir finna einhvers staðar deal-breaker. Þeir verði þá bara að rökstyðja þá ákvörðun sína. Núnú…ég hélt að tilgangurinn væri sá að ná samstöðu um eitthvað, ekki að finna frumlega leið til þess að geta haldið áfram að rífast um ókomin ár…

Framtíðarlandið eru reyndar samtök sem vilja draga umhverfisverndarumræðuna upp úr þraspottinum eins og Víglundur, eða gefa sig út fyrir það. Lyfta henni á hærra plan. Hugmyndirnar í sáttmálanum eru góðra gjalda verðar. Hins vegar er markaðsfræðingurinn þeirra ekki að hjálpa til með því að hanna þetta “grátt eða grænt” slagorð og merki. Það setur annað-hvort-eða brag á málflutninginn og fólk sem nennir varla að lesa sáttmálann er ekki heillað með þessu merki. Malbik eða blóm, veldu!

Staðbundin réttlætiskennd

mars 16, 2007

Ég á erfitt með að skilja þá afstöðu sumra, að þyngd refsinga sé óumdeilanleg ef hún er í samræmi við hefðina í því landi þar sem brotið var framið. Það er algengt að menn segi t.d. að fólk sem brýtur af sér í Bandaríkjunum eigi skilið að vera í viðbjóðslegum, lífshættulegum og mannskemmandi fangelsum þar í landi hálfa ævina – af því að það vissi (?) að refsingar þar væru harðar.

Hins vegar ef afbrotamaður, hvers mál fær meðferð fyrir íslenskum dómstólum, verður viðfangsefni umræðna um þyngd refsinga og einhver gerir kröfu um harða refsingu er annað uppi á teningnum. Þá predika menn fylgni við fordæmi og hefð dómstóla við ákvörðun refsingar, ekki má mismuna brotamönnum!

Um mitt blogg og annarra

mars 12, 2007

Undanfarin misseri hef ég mjög litla nennu haft í að skrifa um stjórnmál og almenn málefni sem eru í umræðunni hverju sinni. Nokkrum sinnum hef ég skrifað slíka færslu og svo strokað það allt út því mér finnst ég engu hafa við að bæta o.s.frv. Það er frekar að ég skrifi um eitthvað sem mér finnst smávægilegt.

En ég les nú moggabloggið eins og aðrir og mun nú hafa alltof mörg orð um það. Um Smáralindarbæklinginn mætti segja, eins og einhver er eflaust búinn að segja, að þrátt fyrir ofsafengna framgöngu lektorsins góða er forsíðumyndin dálítið skrýtin. Sennilega hefði ég ekki leitt hugann að því nema vegna þess að umræðan kom upp, en myndin sendir að mínu mati samtímis út ósamræmanleg skilaboð. Þetta er fermingarþema og fermingin gengur víst út á að komast í fullorðinna manna tölu (eða er eitt skref á þeirri leið).

Klæðnaðurinn á stelpunni er fullorðinslegur og kannski meira í átt við klæðnað á 18-20 ára manneskju en fermingarbarni (háir hælar, háir sokkar, þröngar buxur usw.) en stellingin er á sama tíma einhvers konar vísun í Línu langsokk að sögn fulltrúa Smáralindar. Persónulega fannst mér stellingin ekki kynferðisleg. En svo er stelpan umkringd einhverjum böngsum og taufígúrum. Og hvað er þá myndin að sýna? Maður veit það ekki alveg, stelpu sem hermir eftir Línu langsokki, leikur sér að böngsum en klæðir sig samt eins og hún sé tvítug. Slík mynd gefur einhvers konar blendin skilaboð og býður upp á hvers kyns túlkun, saklausa og ekki svo saklausa. Það ræðst af þeim sem á horfir. Þá hefði verið betra að leggja áherslu á „námsmanninn“ eða „íþróttamanninn“ eða einhvern æskilegan hluta af lífi unglings sem ætlar sér að verða eitthvað í lífinu; mynd sem er flott en jafnframt eindregin og býður aðeins upp á þá túlkun átti að koma áleiðis og enga aðra. Unglingur er þegar allt kemur til alls einhvers konar millistig á milli barns og fullorðinnar manneskju og því þýðir ekkert hálfkák þegar kemur að þeim skilaboðum sem við gefum þeim, og þeim skilaboðum sem við látum gefa frá sér.

Ætli málið sé ekki bara að myndin á forsíðunni sé frekar vanhugsuð (eins og viðbrögð lektorsins) og kannski frekar innantóm. Það er alveg hægt að gagnrýna þessa mynd, svo mikið er víst.

Sami lektor talar á blogginu sínu um Kastljósið og hvernig það blandar saman sorglegum umfjöllunarefnum og léttara efni. Við lesturinn skynjaði maður að slíkt virðist fara mjög í taugarnar á henni. Að viðtöl við þolendur ofbeldis væru sýnd í sama þætti og dansatriði eða viðtal við leikskáld um nýtt leikrit þótti henni ekki gott. Þannig væri verið að þvinga fólk til þess að hlæja ofan í þjáningar Breiðavíkurdrengjanna, og að Breiðavíkurmálið væri sett í „skemmtilegt samhengi“!

Þessu er ég ósammála. Áhorfendur hafa í fyrsta lagi fjarstýringu við höndina og geta lækkað í tónlistaratriðinu eða skipt um stöð ef þeir eru eftir sig eftir alvarlegt viðtal. Það gerði ég í það minnsta eftir einhver Breiðavíkurviðtöl. Í öðru lagi er það ekkert samhengi að eitt atriði komi á eftir öðru. Það er einkenni þáttar eins og Kastljóss, samanborið við t.d. leikið efni, að næsta atriði er einmitt ekki í neinu samhengi við það sem á undan fór. Í tilfelli Kastljóssins virkar það ágætlega. Breiðavíkurviðtöl voru ekkert „álegg í samloku skemmtiatriða“ eins og hinn meistaralega ósmekklegi lektor hélt fram á blogginu sínu.

En það er samt samræmi í þessu hjá henni, þ.e. skoðun hennar á Kastljósinu og viðbrögð hennar við fermingarbæklingnum. Viðbrögðin voru ofsafengin og vanhugsuð, og hvort tveggja særandi fyrir stelpuna á myndinni og mjög til þess fallin að grafa undan málstað og trúverðugleika róttækra feminista og væta „bitrar piparjúnkur“-stimpilinn úr bleki. Það er því óhentugt fyrir hana að jafnólík atriði séu sýnd hvert á eftir öðru í Kastljósinu. Þau krefjast þess að hún dansi með fyrir framan sjónvarpið þegar salsaatriðið er í gangi, gráti svo með ekkasogum yfir viðtalinu, skellihlæi svo að leikna innslaginu og slái sér á lær í lokin. Þetta er henni ofviða, hún nær sér ekki úr „samhenginu“ og hlær í gegnum allt viðtalið (ósmekklegt hjá mér?).

Ég efast um að það hefði verið betra hjá Kastljósinu að helga heilan langan þátt málinu og sýna öll viðtölin á einu eða tveimur kvöldum, svo bloggarar eins og lektorinn gætu sest við lyklaborðið að lítt athuguðu máli og viðhaft stóryrði og fúkyrði. Þess í stað var umfjölluninni dreift á mörg kvöld og fólk látið átta sig á því sem var verið að segja frá smátt og smátt.

Kannski hefði verið betra að sýna henni myndina af forsíðu fermingarbæklingsins smátt og smátt, einn bita úr púsluspilinu á hverju kvöldi, og leyfa henni að átta sig á myndinni smátt og smátt. Þá hefði hún kannski ekki þurft að taka færslurnar sínar út af blogginu og skapa sér slæma ímynd.

Belgir

mars 10, 2007

Hér er ekki átt við belgi almennt, heldur nánar til tekið ólátabelgi. Slíkir belgir hafa stundum verið að klifra upp á þakið á lesherberginu hér á Freyjugötunni og dansa línudans (e. walk a tightrope, ekki linedancing) ofan á veggnum sem lokar okkur af frá Þórsgötunni, fyrir þá sem kunnugir eru. Hefur þetta verið mér til takmarkaðrar armæðu en mér hefur ekki litist á þennan línudans, þar sem krakki sem hrynur 3 metra niður á steypta stétt gæti farið illa út úr viðskiptum sínum við hana. Kom ég mér því fyrir í dyragættinni núna áðan og ávarpaði einn belginn þegar hann var að spóka sig á þakinu. Ég bað hann um að vera vinsamlegast ekki að þessu og þakkaði honum svo fyrir samstarfið. „Já“ sagði hann.

Ég setti mig svo í stellingar, hugsaði: „Bannsettir óþekktarormar sem gengur ekkert gott til! Koma eflaust og grýta húsið með máfseggjum og tvíbökum! Uppeldið nú til dags, í mínu ungdæmi…“ En nei. Þeir eru snarhættir þessu og leika sér nú á hættuminni hátt á svæðinu. Það er von eftir allt…

Matur

mars 10, 2007

Ég hef nú áttað mig á því af hverju bloggþurrð mín stafar. Það er tíðindaleysi í lífi mínu. Því ákvað ég að skapa grundvöll fyrir tíðindi með því að bjóða góðu fólki til matar að heimili mínu. Ég reyndi að bjóða og bjóða og bjóða, en sífellt afboðuðu menn sig til veislunnar. Þetta endaði því á fimm manna veislu, Magnús, Auður, Varði og Sandra kíktu á mig og nutu góðs af. Þau eru öll frábær. Kvöldið var mjög skemmtilegt. Þetta var asískt þema, en ég efast um að hægt sé að skilgreina matseldina út frá einhverju einu landi. Eflaust sambræðingur af kínverskum og thailenskum áhrifum aðallega. Þetta voru tveir réttir í aðal og svo eftirréttur. Eftirfarandi var etið, en þess má geta að um var að ræða tilraunaeldamennsku af minni hálfu:

Kjúklinganúðluréttur:

500 gr. af kjúklingafillet, einhverskonar afrískir baunabelgir frá Kenýu, rauð paprika, einn pakki af Thai Choice traditional núðlum.

Leiðbeiningar:

Setjið olíu á pönnu og steikið baunabelgjaígildi og papriku við vægan hita, skerið kjúklingafillet í strimla og setjið á pönnu. Þvoið viðbjóðslegar hendur yðar rækilega. Hitið vatn að suðumarki og setjið allar núðlurnar út í, sjóðið í 5 mínútur. Kryddið kjúkling og grænmeti með pipar, kóríander, kjúklingakryddblöndu og hverju sem ykkur dettur í hug. Hellið vatni af núðlum og setjið kalt vatn yfir þær. Látið liggja í kalda vatninu í nokkrar mínútur. Hellið svo vatninu aftur af núðlunum og skellið þeim á pönnuna með bravúr. Kryddið ennfrekar, chilli skaðar ekki. Bætið við chilli-hvítlauks-engifersósu út á núðlurnar í ríflegu magni. Setjið í skál, hrærið vel saman og berið fram.

Hrísgrjón:

2 bollar af basmati hrísgrjónum, ekkert smjör enda viljum við að hrísgrjónin festist svolítið saman. 2 tsk. salt, 3 bollar vatn. Sjóðið þar til hrísgrjónin eru reddí. Þetta er hæfilegt fyrir 5 manns sirka sem meðlæti.

Sjávarréttaveisla: 

Sjávarréttir að eigin vali, í þetta skiptið var eftirfarandi: Eitt hnakkastykki af ýsu (mediumflaki), risarækjur (eitt vakúmbréf), smáhörpudiskur (eitt vakúmbréf), venjulegar rækjur (að vild), ein dós af smámaísstönglum, bambus, vatnaðar cashewhnetur, blaðlaukur, eitt stórt mangó (einungis aldikjötið, skorið í teninga), 2. egg, asian home gourmet sósa.

Leiðbeiningar:

Byrjið á því að setja blaðlauk og olíu á pönnuna og hita upp, þegar byrjað er að snarka í skella menn hnetum, bambus, maísstönglum og mangó út á. Athugið að gott er að vera búinn að undirbúa mangóið fyrir fram þar sem nokkurn tíma getur tekið að flysja það, ná því af steininum og skera það í teninga. Brjótið eggin í litla skál og hrærið rauðurnar saman við hvíturnar, kryddið með chilli. Þegar vel er farið að krauma í þessu öllu er sjávarfanginu einfaldlega skellt á pönnuna. Fiskurinn er þá skorinn í grófa bita og halarnir eru hafðir á risarækjunum. Eftir mjög skamma stund (ekki ofsteikja fiskinn) er asian home gourmet sósunni (2 dollur) bætt út á. Eggjunum er svo hellt saman við. Þau stikna og þykkja sósuna mjög mikið og gefa skemmtilega áferð, auk þess að auka enn á próteingildi máltíðarinnar. Berið fram snarkandi heitt í fallegri skál.

Bláberjaostakaka:

Innihald: Bláberjaostakaka.  Leiðbeiningar: Keyrið út í Krónuna, kaupið ostaköku á 791 krónu. Hún er dásamleg.

Með aðalréttinum var drukkið Riesling hvítvín en Syrah rauðvín með ostakökunni. Ég veit ekki hvort það var rétt match en það fúnkeraði í það minnsta listavel í kjaftinum á mér.

Eftir mat hófust svo umræður um fermingarbækling Smáralindar, Varði dansaði línudans og Magnús talaði tungum. Mjög gott kvöld. Vinna á morgun.