Archive for febrúar, 2007

Oddadómarinn ég

febrúar 23, 2007

Ég dæmdi MorfÍs keppni í fyrsta skipti í langan tíma í gærkvöldi. Við áttust FG og Borgó, en Borghyltingar unnu keppnina og fara því í úrslitin. Keppnin var skemmtileg. Borghyltingar áttu fyrri umferðina hjá mér, reyndar með minni mun en ég hélt, því ég var með þá hærri í ræðu og svörum en FG-inga hærri í málflutningi og geðþótta. Hins vegar átti meðmælandi FG-inga, Hekla, frábæra seinni ræðu og vann að mínu mati rökræðuna að miklu leyti í þeirri ræðu. En þetta var opið umræðuefni og því réðust úrslit nokkuð mikið á mælsku og orðalagi. Hún náði að orða þetta vel þarna og svaraði hörkuvel líka.

Svo er auðvitað góð æfing fyrir mann að fara upp í pontu við og við og halda eins og eina óundirbúna ræðu. Ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að segja fyrirfram þarna í gær, einhverjir brandarar virkuðu, aðrir ekki. Enginn skandall þó.

Eitthvað virðist ræða vinar míns, MDN, hafa farið fyrir brjóstið á fólki síðast þegar hann dæmdi FG í 8-liða úrslitum. Og var því sungið mjög langt lag um hann í liðsstjóraræðu FG-inga. Ég hafði gaman af því lagi, en það var allt allt of langt.

Ræðumaður kvöldsins var svo auðvitað fundarstjórinn. Hún var svo röggsöm. Fleiri svona fundarstjóra. „USS! EKKERT RÁP!“

———————-

Í kvöld er förinni heitið í Blásali hjá meistara Jens Þórðarsyni sem ætlar þar að halda upp á þá staðreynd að besti fjórðungurinn af lífi hans er búinn og kemur aldrei aftur. Við fjölmennum því vinir hans á 12. hæðina og hughreystum hann með gjöfum og faðmlögum.

Úúúú

febrúar 14, 2007

Færustu heimspekingar reita nú hár sitt yfir stöðunni sem ég er í:

Ég nenni ekki á árshátíð skorarinnar því ég þekki engan í skorinni.

Ég þekki engan í skorinni af því að ég fer ekki á árshátíðina.

Íslensk úrvalsævintýri

febrúar 11, 2007

WC-lesningin þessa dagana eru íslensk úrvalsævintýri. Í gær las ég ævintýri um kerlingu sem át allar smjörbirgðir heimilisins frá karli sínum. Þegar upp komst um verknaðinn laug hún því að manninum að fluga hefði étið smjörið. Lokaði karlinn þá húsinu og gekk berserksgang þar inni. Endaði sagan svo með því að kerlingin barði karlinn af alefni í andlitið með sleggju, að hans beiðni.

Hvað er að gerast?

febrúar 11, 2007

Nú í hádeginu kveikti ég á sjónvarpinu til þess að sjá hádegisfréttirnar á Stöð 2 og Silfrið. Sagði Una þá að ég væri alveg eins og pabbi minn, alltaf hlustandi á fréttir.  Því næst hellti ég Kellogg’s Special K í skál og hugðist snæða það. Mælti hún þá: „Af hverju seturðu svona mikið í skálina? Þú verður að passa að mjólkin fari ekki öll út fyrir þegar þú hellir henni yfir.“ Hafði ég þá á orði að hún einnig líktist einhverjum af eldri kynslóð.

„…og Allah er í raun ekkert annað en grimmur eyðimerkurguð…“

febrúar 8, 2007

Þeir eru alltaf í stuði á Omega.

Vövði

febrúar 7, 2007

Þeir sem ekki hafa séð Vörutorgið á Skjá einum eru að missa af miklu. Þar er verið að reyna að selja fólki margskonar hluti. Þ. á m. er líkamsræktartæki sem ég man ekki alveg hvað heitir, VibraMaxx eða eitthvað álíka. Fyrir utan það að tækið er augljóslega algerlega gagnslaust er kynningin á því stórskemmtileg. Þjálfunin virðist byggjast aðallega upp á því að gera sömu æfingar og maður gerir venjulega, nema með víbrator á rassinum á sér á meðan.

Kynnirinn hefur kosið að þýða ekki orðið cellulite, og segir því að tækið komi í veg fyrir að „sellúlít“myndist á líkamanum.

Þá vekur ein fullyrðingin athygli mína öðrum fremur. Sýnd  er mynd af manneskju sem situr með iljarnar á titraranum og lætur kálfana á sér titra. Kynnirinn segir þá að tækið virki öll vöðvaviðbrögð líkamans. Það er því eins gott að vera búinn að plasta stofuna áður en tækið er notað.

Ég ætla ekki að fara mikið meira út í þetta, sjón er sögu ríkari, en hæst ber eflaust að kynnirinn virðist ekki kunna að segja orðið „vöðvi“. Hann segir síendurtekið „vövði“.