Archive for janúar, 2007

Rúnturinn, Ómar Ragnarsson, Kaffitár, Margrét Sverrisdóttir

janúar 31, 2007

Menn keppast nú við að úthúða Ómari Ragnarssyni fyrir hugmynd hans um að endurvekja rúntinn í Reykjavík. Hugmyndin finnst mér persónulega ekkert sérlega góð, en menn eru kannski að gera aðeins of mikið úr mótsögninni, að náttúruverndarsinninn skuli hvetja til aukins útblásturs. Í fyrsta lagi lagði hann til að rúntinum yrði breytt til fyrra horfs svo að hann yrði meira orginal og menn gætu keyrt í tvístefnu á honum, ekki bara einstefnu eins og hann er í dag. Heldur fólk að það sé enginn rúntur í borginni í dag? Það er auðvitað rúntur niður Laugaveginn, Bankastrætið og Austurstrætið niður á Ingólfstorg, í kringum það og svo Hafnarstrætið til baka. Munurinn yrði sennilega hverfandi.

Núllar þessi hugmynd semsagt út baráttu Ómars gegn mörghundruðþúsundtonna álverum og milljarðalítra uppistöðulónum? Er hann bara í bullandi mótsögn og búinn að skjóta sig í fótinn? Varla. Það var þá allavega ekki stór byssa sem hann skaut sig með.

Ég er hins vegar ósammála þessum hugmyndum hans af aðeins praktískari ástæðum. Svona rúntur er fyrir hendi í mörgum smærri bæjarfélögum úti á landi og virkar þar ágætlega. Þar mætast menn á rúntinum, (t.d. á Akranesi) og spjalla saman. Þar búa hins vegar aðeins nokkur þúsund manns. Ég held einhvern veginn, ef ég á að segja eins og er að stemningin hér verði meira þannig að maður sitji í bílnum sínum með eitthvað bláókunnugt fólk á hinni akreininni, alveg ofan í manni. Það verði minna um spjall og meira um að menn reki speglana hver í annan og fari svo að slást. Nóg af klikkuðu liði í bænum um helgar. Auk þess held ég að Austurstrætið verði ekki lengur staður fyrir gangandi vegfarendur því vegurinn þarf auðvitað að verða helmingi breiðari. Það er líka til trafala á daginn þegar engin bílastæði verður að fá í Austurstrætinu.

———————————–

Að öðru. Kaffitár rekur matsölu í Þjóðminjasafninu þar sem ég sæki tíma. Verðlag þar er algjörlega fáránlegt. Ég hafði ekki tíma til að borða morgunmat í morgun því ég vaknaði helst til seint og var því að sálast úr hungri. Því var ég tilneyddur að versla þar.

Nú geri ég mér grein fyrir því að þetta er voða fínt, og þessi kaffistofa er eðlilega aðeins dýrari en aðrar því þangað kemur mikið af gestum safnsins sem eru til í að gera vel við sig eftir skemmtilega skoðunarferð um safnið. Þetta er ekki „eatery“ þar sem hópar manna í hádegismat koma og hakka í sig hamborgara og franskar. Ég er heldur ekki að segja að menn megi ekki verðleggja vörur eins og þeim sýnist. Ég er að furða mig á því að fólk sjái sér fært að versla við staðinn.

Þarna keypti ég Sól safa, að ég held 200ml, sem kostaði 240 krónur. Það er svívirðilegt. Ef við lítum á lítersflöskuna í Bónus af sama safa sem kostar um 150 krónur og gerum ráð fyrir að hún sér þar á 40% álagningu, má skjóta gróft og hóflega áætlað á um 700% álagningu hjá Kaffitári. En þá reyndar geri ég ekki ráð fyrir að hinar minni umbúðir auki lítaverðið eitthvað. Verum sanngjörn, segjum 680% álagning.

Einnig keypti ég lítið Baguette brauð með skinku og osti. Það var sko ekkert gourmet-neitt, frekar þurrt og ekkert á því. Það var líka mjög smátt í sniðum. Samanlagt borgaði ég fyrir þessi tvö ítem, um 650 krónur, man ekki nákvæmlega hvað það var mikið. Ég segi bara „sjitt“.

—————————

Margréti Sverrisdóttur er tíðrætt um hugsjónir sínar. Það hefur einhvern veginn alveg farið framhjá mér fyrir hvað hún stendur. Auðvitað get ég einungis kennt sjálfum mér um það. En hún ætti að skella sér í kynningarátak til þess að ná til hinna tregari kjósenda, eins og mín.

Lauflétt og leikandi

janúar 28, 2007

Ég er að hugsa um að hætta að skrifa á íslensku og gerast rithöfundur á esperantó. Það er stórkostleg hugmynd. Þá munu menn lesa hin viðbjóðslegu verk mín jafnt í Japan og Kína sem í Önundarfirði. Hvers vegna ætti ég að skrifa fyrir Íslendinga? Að skrifa gagnlegar bækur handa Íslendingum, það er eins og að hella úr einum hjólbörum af kúamykju yfir Góbíeyðimörkina.

Hver lét þessi orð falla?

Óvenjuleg úrslit

janúar 27, 2007

Leikur Þjóðverja og Frakka fór Þýskaland 29, Frakkland 26. Það kom þó fljótlega í ljós eftir leikinn að Frakkar höfðu eftir allt saman farið með sigur af hólmi, enda var verið að spila nóló.

Keine macht den Drogen

janúar 26, 2007

Ágæti lesandi, ekki vera eins og stelpan sem afgreiddi mig á bensínstöðinni um daginn. Hún var svo þunglynd að hún gat ekki talað upphátt. Hún hvíslaði bara. Og svo þegar fólk sagði „ha?“ þá ranghvolfdi hún augunum af pirringi, yfir þessu heimska fólki sem ekki skildi þjáningar hennar. Hún meikaði það þó að sýna mér hvar sonaxbónið var í hillu og rétt svo meikaði að selja mér það. Hún mátti samt eiginlega ekki vera að því, enda var hún í óðaönn að túlka þjáningu sína á rúðustrikað blað. Þar blasti við einhvers konar manga-teiknimynd af mjög þunglyndri mannveru með barnalegt andlit og stór augu sem sat og horfði sljóu augnaráði inn í tómið.

Þessi lífsreynsla mín gengur mjög í berhögg við þá æskulýðsímynd sem dregin var upp innan á kápu stílabókann sem ég notaði í Menntaskólanum. Þar var mynd af fjórum ungmennum; tveimur af germönskum kynstofni, einu af asísku bergi brotnu og einu þeldökku. Öll brostu þau breitt. Svarti maðurinn var með dredda og sá asíski var nörd. Allir í góðu formi, allir glaðir. Ekkert vesen. Fyrir ofan stóð „Keine macht den Drogen.“

Af hverju er hún ekki eins og hressu þýsku krakkarnir? Ég er bara mjög sjokkeraður og ósáttur.

Jaxlinn, drossían og fjarsýnin.

janúar 24, 2007

Dagurinn í dag er merkilegur fyrir margar sakir. Una fór, að eigin sögn, í auðveldustu endajaxlatöku sögunnar. Liggur við að tennurnar hafi hrunið úr henni við það eitt að sjá tannlækninn.  Fórum svo í sjónmælingu og komumst að því að við erum glámskyggn mjög, eins og við höfum verið undanfarna áratugi. Stærsta afrek dagsins er þó óumdeilanlega það að ég keypti drossíu. Þetta er því fyrsti dagur ævi minnar sem ég á tvo bíla. Þarf þó að selja Golfinn á næstunni.

Nýi vagninn er Volvo 850, árgerð 1994. Pláss. Svo mikið pláss.

Sunnudagur í Skorradal

janúar 21, 2007

Ég hafði það af að vakna klukkan 07:30 í morgun og keyra Unu í vinnuna. Svo keyrði ég áfram út úr bænum og upp í Skorradal. Það er asnalega langt síðan ég hef komið þangað. Það var síðasta sumar. Til skammar. Þar hitti ég Davíð móðurbróður minn í fjósinu og hitti köttinn Púka sem nú er að verða 13 ára held ég. Hann var í fullu fjöri í dag, rétt eins og þegar ég var 14 ára í sveit á Grund. Og reyndar gerði hann nákvæmlega það sama núna og hann gerði alltaf þá. Að bíða eftir manni ofan á fjöl við fremstu jötuna og reyna að klóra í mann þegar maður gekk framhjá. Gott að hann er bara sáttur við sama gamla brandarann eins og 1997.

Þarna hitti ég líka frænda minn og frænku, Melkorku Sól og Davíð Pétursbörn. Þau eru lík foreldrum sínum og ansi sniðugir krakkar. Davíð var ekki farinn að tala neitt að ráði síðast þegar ég sá hann.

Svo fór ég inn á Vatnsenda og hitti Magnús Norðdahl og Auði Kömmu. Við Magnús skelltum okkur svo í tveggja tíma göngutúr upp á Skorradalshálsinn en ofan af honum sáum við yfir Borgarfjarðardalina og norður að Baulu, en einnig var þetta nýtt og skemmtilegt sjónarhorn á Skarðsheiðina. Hún hefur mörg andlit. Þetta var kærkomið tækifæri til þess að prófa hina nýkeyptu mannbrodda. Þeir eru auðvitað snilldargræjur og ég sé ekki eftir þeim kaupum þó ég viti vel að það hafi verið okrað heldur mikið á mér við það tækifæri. Á göngunni komumst við á slíkan stað að hvert sem við litum sáum við hvergi merki um tilvist mannkynsins (fyrir utan okkur sjálfa), aðeins grjót, fjöll, snjó og himin. Það var þægilegt.

Við hlustuðum svo á landsleikinn í útvarpinu á leiðinni í bæinn og gerði það ferðina síst ánægjulegri. Svo var endaði dagurinn í pizzuveislu úti í Garðabæ og almennu tsjilli.  Sunnudagar eru uppáhaldsdagarnir mínir.

Áhugavert

janúar 19, 2007

Steingrímur J. Sigfússon sagði í fréttum nú í kvöld að málþóf væri sterkasta tæki þingsins til þess að hafa hemil á framkvæmdavaldinu. Fyndinn gaur.

Sunnudagur á Suðurnesjum

janúar 14, 2007

Í dag fórum við Una í bíl- og göngutúr um suðurnes. Byrjað var á því að fá brúklegan bíl lánaðan. Því næst var haldið á bensínstöð þar sem 140 lítrum af olíu var dælt á bílinn. Ekki þýðir að verða uppiskroppa. Svo var haldið suðrettir og beygt til vinstri inn á Grindavíkurafleggjarann. Keyrðum til Grindavíkur.

Þangað hef ég ekki komið síðan ég man ekki hvenær. En svo virðist sem þar sé almenn gríðarlega snjóþungt því þar eiga allir stóra jeppa og þar aka allir um á vélsleðum eins og ekkert sé eðlilegra. Held ég hafi séð um 8 vélsleða á þeim 5 mínútum sem ég var innan bæjarmarka. Jafnmarga bíla sá ég. Við keyrðum svo að litlu fjalli sem heitir Festarfjall og er rétt austan við bæinn. Það gengur í sjó fram og er brimsorfið. Það tók enga stund að ganga upp á það, en þar tókum við flottar myndir sem ég birti kannski þegar ég hef komið þeim yfir á tölvuna.

Hér er ágætismynd sem við tókum uppi á Festafjalli. Dálítið eins og stillimynd á Omega samt! Sól

Þarna var gaman að djöflast á bílnum í snjónum (enginn gróður var skaðaður í ferðinni). Svo keyrðum við aftur í gegnum Grindavík og vestrettir út að Reykjanesvita og framhjá Reykjanesvirkjun og komum svo framhjá Höfnum til Keflavíkur. Ég fann fyrir tómleikatilfinningu þegar ég keyrði framhjá Höfnum. Erfitt að lýsa því en, kannski hægt að hugsa sér að ef maður deyr, en fer hvorki til helvítis né himna þá fari maður í Hafnir. Nú blöskrar einhverjum. Það er samt fallegur staður á sérstakan hátt. Verst fyrir íbúana að þar virðist vera rennibraut fyrir þotur niður á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.

Svo keyrðum við á alþjóðahringtorgið sem býður upp á þá skemmtilegu valmöguleika: Reykjavík – Heimurinn – Sandgerði. Við völdum Sandgerði. Keyrðum þangað útettir og á móti okkur tók illviðri sem varð hvergi annars staðar vart en einmitt í Sandgerði og Garði. Það var léttskýjað alls staðar annars staðar. Meira að segja í Keflavík. Við skrensuðum í gegnum Sandgerði og keyrðum svo að Hvalsnesi þar sem Íslandsvinurinn Wilson Muuga heldur til. Það kom mér á óvart hversu ótrúlega langt uppi í fjörunni skipið er. Þetta er ekki nema smá spotti. Það var líka spotti þarna sem bundinn hafði verið utan um stórgrýti og náði alveg út í skipið. En það er víst ekkert grín að komast svona smávegalengd þegar það gerir kolvitlaust veður. Það fékk danski sjóliðinn sem fórst þar um daginn að reyna. Sá maður verður að teljast hafa verið sérlega óheppinn með yfirmenn.

Þarna borðuðum við nestið okkar og drukkum heitt súkkulaði. Þetta var kaldhranalegt pikknikk svo ekki sé meira sagt. Súkkulaðið geymdum við í hitabrúsa sem Una fékk frá verktakafyrirtækinu Eykt. Brúsinn virkaði ljómandi vel og hélt súkkulaðinu rjúkandi heitu frá því að við hituðum það klukkan hálfellefu þar til við drukkum það að ganga fimm.

Mynd hér af skipinu: (Wilson Muuga).

Við slógum því föstu að kirkjan þarna úti við Hvalsnes sé kirkjan sem var í Mýrinni.

Vil ég að lokum þakka almættinu fyrir að hafa skapað Reykjanesskagann. Ef það hefði ekki tekið sér tíma til þess hefði dagurinn í dag ekki verið svona skemmtilegur.

Smá uppfærsla

janúar 3, 2007

Gott kvöld. Færslur hafa verið stopular. Af mér er það helst að frétta að ég er bara alltaf í vinnunni og er að spá í að fá mér nýjan bíl. Það er mér ekki ljúft að keyra ’95 VW Skrjóð um götur bæjarins og einungis nýlega varð mér ljóst að það er mér heldur ekki skylt. Hægt að kalla þetta vakningu.  Þannig að ef þið þekkið einhvern sem vill kaupa 11 ára gamlan VW Golf með endurnýjaðri kúplingu, pústi, pönnu og öxli þá látið þið mig bara vita. Hann var sprautaður árið 2000 minnir mig svo lakkið er nokkuð fínt bara, svona þegar drullan hefur verið skoluð af honum. Verð mjög umsemjanlegt en það má segja að uppsett sé 150.000.

Hvað á maður að fá sér í staðinn? Ég er að hugsa um kannski Ford Focus. Ku vera lág bilanatíðni.

Maður fylgist með fréttunum eins og aðrir þó lítið fari fyrir tjáningu á þessum síðum um þau efni. Kannski að heimurinn geti komist af án magnaðrar túlkunar minnar í bili?  Vil þó segja það að myndir frá aftöku Saddams Hussains sýndu aðeins eitt. Dauðarefsingar eru ógeðfelldar.

Skólinn byrjar svo seint svona eftir jól. Ekki fyrr en 15. janúar. Það er svosem fínt að geta verið í vinnunni aðeins lengur og unnið fyrir skólabókum og ýmsum startkostnaði annarinnar. Svo ekki sé talað um fyrrnefnd bílakaup.

Um skaupið vil ég reyndar leggja orð í belg. Þetta skaup var fyndið að mínu mati. Get ég þar nefnt Magnadjókið (húsmóðirin var fyndnust þar), Plútódjókið, Ólívur Ragnar Grímsson, Baugsdjókið, hverjum er ekki drullusama hvað Sirrý er að gera? og Andra Snjávar eftirherman fyndin líka.

Auðvitað var sitthvað sem var ekki fyndið. T.d. Jón Gnarr að hóta að berja fólk var ekkert fyndið. Nektarmyndir fyrir Geir og Jón í varnarmálinu, ekkert fyndið. Sjálfum finnst mér reyndar að Geir Jón hefði átt að vera fenginn til að leika bæði Geir og Jón, en það er annað mál.

Sitthvað má telja til. Maður hefur svo aftur heyrt fjölda fólks rakka þetta skaup niður og telja þetta jafnvel vera móðgun við landsmenn og endanlega réttlætingu fyrir einkavæðingu Ríkissjónvarpsins. Það er fólkið sem fattaði ekki brandarana og varð svo móðgað þegar því var sagt af útvarpsstjóra að það væri með lélegt skopskyn. Það er auðvitað bara nokkuð fyndið út af fyrir sig að taka skaupinu svona alvarlega. Þannig að þegar fólk skammast í útvarpinu yfir þessu er eins og skaupið sé ennþá í gangi. Mjög skemmtilegt.

Skellti mér á Kalda slóð í fyrradag. Það var ágætis skemmtun en eins og alltaf var miðinn of dýr. 1200 kall. Einhvers staðar sá ég því fleygt að handrit myndarinnar hafi verið skrifað og endurskoðað allt að 50 sinnum áður en farið var í tökur. Skýrir það kannski miðaverðið?  Að kvikmynd og -argerðarmönnum ólöstuðum tel ég að það sé hreinlega ekki nauðsynlegt að skrifa handrit 50 sinnum til að fá þessa útkomu. Svona nokkuð medioker plott verð ég að segja. En ágætt engu að síður.

Allir leikarar stóðu sig ágætlega, en mér fannst Helgi Björns bera af sem trúverðugur ógnvekjandi náungi með greindarvísitölu aðeins undir 100. Aníta Briem kom skemmtilega á óvart og var bara góð, en ég hef aldrei séð hana áður þrátt fyrir að mikið hafi verið látið af gríðarlegum frama hennar í erlendri kvikmyndagerð. Sá eini sem fór eitthvað í taugarnar á mér var Hjalti Rögnvaldsson sem var helst til stirður. Já og svo kyssast Elva Ósk og Þröstur Leó aðeins of mikið með tungunum.