Archive for desember, 2006

Sjávarfangið og Hetja hafsins

desember 29, 2006

Íslendingar eru fallegt fólk. Stafar það ekki síst af gríðarlegu fiskáti þeirra í gegnum aldirnar. Þetta er alkunna. Það var því af miklum rausnarskap sem Hetja hafsins, Björn Þór Sigurbjörnsson, kom í heimsókn á vinnustað minn í fyrradag og afhenti mér þar sjávarfang í kassavís. Um 30 kílógrömm af ýsu voru það heillin, endurgjaldslaust. Það er því engin hætta á því að einungis muni mörlandinn Önundr nærast á kryddpylsu, hvítlauksolíu og taglhnýtingum (tagliatelle) á útmánuðum eins og stundum hefir brunnið við.

Já, táp og fjör og frískir menn finnast hér á landi enn. Stúlkur, hetjan er á lausu og er það sagt að meydómur kvenna sem líta hana augum fái ekki að kemba hærurnar.

Haf

Kofi Annan lætur senn af starfi aðalritara

desember 28, 2006

Kofi Annan

Jól

desember 27, 2006

Þetta var heldur óhefðbundið í ár. Aðfangadagskvöld hjá bróður mínum, með hreindýrssteik sem var meyrari en allt. Jóladagur heima í Háholtinu með rjúpur á boðstólum. Annar í jólum hjá föðursystur minni – með asísku þema! Satay kjúklingur og karrýlamb. Mjög gott. Við skulum segja að ég sé ekki vannærður.

Jólagjafirnar voru ekki af verri endanum. Ég fékk alvöru göngujakka, þriggja laga, frá 66°Norður, göngustafi (með innbyggðum áttavita takk fyrir), bakpoka með öllum réttu ólunum og hólfunum og bókina Íslensk fjöll – gönguleiðir á 151 tind.

Ég ætla mér því fljótlega að fara og festa kaup á legghlífum og broddum og þá er ég bara nokkurn veginn græjaður. Ég er nú þegar búinn að sjá nokkra tinda í bókinni sem eflaust skarta sínu fegursta með mig ofan á sér. Þess má geta að Una fékk næstum því allan gallann í jólagjöf – nýja gönguskó, göngubuxur, göngusokka, göngujakka.

Þar að auki fékk ég dúkristu eftir Höskuld Björnsson sem ég er að reyna að ákveða hvar skuli hanga, salt og piparkvarnir (sem koma sér mjög vel), eina bók um fánýtan fróðleik og aðra um margnýtan fróðleik. Lítið fór fyrir skáldsögunum en ég fékk þó Konungsbók eftir Arnald Indriðason. Svo voru það auðvitað sessurnar sem við Una fengum. Við erum nefnilega iðulega að drepast í afturendunum eftir að hafa setið á borðstofustólunum okkar í hálftíma eða lengur. Forláta rauðar sessur með hvítum doppum prýða nú heimilið. Ostaskeri bættist í skúffuna og jóladúkur á stofuborðið (stílað á Unu reyndar en ég nýt góðs af þessu líka).

Á morgun er það svo bara vinnan. Það er nú frekar fúlt. Ég er svona að fatta það núna. En ég treysti því bara að enginn sé að fara að leggja parket fyrir nýja árið.

Gleðileg jól

desember 23, 2006

Vinum, kunningjum og öðrum lesendum þessarar síðu óska ég gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Plötusnúður

desember 20, 2006

Ef ég væri plötusnúður myndi ég kalla mig DJ Drogba.

Próf, skata, efnafræði

desember 18, 2006

Nú lýkur prófatímanum á morgun. Ég er hér í alveg ómögulegri stemningu að læra fyrir próf í félagsfræðikenningum hjá Stefáni Ólafssyni. Þannig er mál með vexti, að þó svo námskeiðið sé sossum ágætt, og hressandi að fá góðan skammt af jafnaðarstefnunni beint í æð frá Stefáni í hverri viku, þá fór helgin í eitthvað spennufall. Ég var semsagt í prófi á miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Sú törn endaði með því að ég lagðist til hvílu um kl. 13 á föstudag með undarlega stingi og verki hvarvetna í höfðinu og svaf fram á kvöld. Fengum við þá heimsókn frá velgjörðarmönnum okkar, foreldrum Unu, sem útbjuggu hlaðborð síldarkræsinga og lagðist ég svo í lokrekkju mína að nýju skömmu eftir miðnætti. Andleysi var ríkjandi á laugardaginn, en um kvöldið fór ég í skötuboð hjá foreldrum mínum. Skatan var mild og góð. Hamsatólgin var snarkandi og Una kvartaði ekki mikið undan óþef þegar ég kom heim. Löng sturta og pakki af sægrænu wrigley’s extra felldu skötuna í gleymskunnar dá.

Í skötuboðinu var ég felmtri sleginn yfir gríðarlegri kunnáttu manna við borðið í bruggfræðum og efnafræði tengdri bruggun. Ég var þar yngsti gesturinn og meðalaldur annarra sennilega um 60 ár. Allir höfðu þeir upplifað strangari hömlur á áfengisverslun hér á landi og höfðu því að sjálfsögðu viðað að sér tæknilegum upplýsingum um það hvernig ætti að brugga hitt og þetta. Lýsti einn gesturinn aðferðum sínum í smáatriðum, hvernig hann hafði fundið út hvaða efni innihéldu alkóhól eða væri hægt að eima alkóhól úr – og að sama skapi hvernig hann sneiddi framhjá hömlum yfirvalda með góðri þekkingu sinni. Ég kann ekki skil á þessum sögum, en út í þau efni sem innihéldu alkóhól var semsagt oft blandað ákveðnum efnum sem voru álíka rokgjörn og alkóhólið, þ.e. gerðu eimun erfiða. Felldi hann þau efni þá út með viðbótarefnum í blöndurnar, eða með taktískum vatnsgusum hér og þar. Allir kunnu sögur af misnotkun lækna og dýralækna á aðstöðu sinni, til að redda starfsmannafélögum fyrirtækja og stofnana áfengi fyrir árshátíðir sínar. Flestir þekktu lyktina af gambra og höfðu drukkið sitt eigið heimabrugg og búið í fnyknum af því ákveðinn tíma árs. Að þessu var mikið hlegið.

En ég sem aldrei hef þurft að glíma við yfirvöld hvað þetta varðar (nema með veskinu) var alveg óviðræðuhæfur um þessi mál. Allskostar fáfróður. Algjört englabarn. Algjört beibí. Bara vanur því að sötra mitt rauðvín, hvítvín, minn bjór og mitt G&T eins og sönnum herramanni sæmir. Ekkert basl með bruggtæki, hef ekki átt ólögleg viðskipti við lækna og dýralækna, hef ekki svolgrað í mig viðbjóðslegum landa o.s.frv. Segir þetta manni ekki eitthvað?

Jú, ef áfengið væri bannað hefði mér gengið betur á efnafræðinni í MR! Andskotans frelsi.

Frh.

desember 18, 2006

Það er annars eins gott að rugla ekki virðulegum Patróni saman við Mr. Pathrone Royal Iron Master.

Slátrun í beinni

desember 18, 2006

Næsta sólarhring munu allir blogga um Kompás. Ég hef fátt um þáttinn að segja efnislega, enda ekki hægt að dæma menn seka út frá fjölmiðlaumfjöllun.

1. Munurinn á þessari umfjöllun og umfjöllun DV um málið fyrir vestan er að hér virðast fjölmiðlamenn vinna með og fyrir meinta þolendur, eða e-a af þeim a.m.k. DV vann hins vegar beinlínis í óþökk meintra þolenda og eyðilagði fyrir þeim málið með því að knýja manninn til þess að fremja sjálfsvíg áður en nokkra vitræna niðurstöðu var hægt að fá í það. Hann dó því hvorki dæmdur né sýknaður og fórnarlömbin uppskáru bara óumbeðna umfjöllun og áreiti, eftir því sem maður kemst næst.

2. Helsti gallinn var sá að segjast vera með alls konar hitt og þetta undir höndum – en ætla alls ekki að sýna það, af því að það væri svo ógeðfellt. Til hvers var þá verið að seinka þættinum til hálfellefu? Til hvers var verið að vara sérstaklega við atriðum í þættinum? Til þess að geta sýnt Guðmund Jónsson að rúnka sér heima í sófa og tala sænsku? Hvað sannar það fyrir mér per se? Jú, að hann rúnki sér og kunni sænsku.

?

desember 16, 2006

Átt þú bíl?

– Nei, átt ÞÚ bíl?

Ja, ekki á ég bíl, þannig að þú hlýtur að eiga bíl.

– Nei, þvert á móti á ég ekki bíl. Þess vegna hlýtur þú að eiga bíl.

Q&A

desember 14, 2006

Q: Ef konan þín væri komin níu mánuði á leið og þú færir með hana á fæðingardeildina þar sem hún fæddi ekki barn heldur tvöfaldan ostborgara með sósu, lauk, papriku, gúrkum og öllu tilheyrandi, myndir þú þá borða hann?

A: Mér þykir laukur ekki góður.

Q: Nei ok, en þú skilur samt hvað ég er að fara, ekki satt?

A: Nei, það get ég ekki sagt.