Archive for nóvember, 2006

Að passa

nóvember 27, 2006

Já ég er föðurbróðir þessa dagana. Við Una sáum um að passa litla krílið á laugardaginn á meðan þau voru í brúðkaupi hjá Hafsteini og Hrefnu, sem er við þetta tækifæri óskað innilega til hamingju með daginn. Ég verð að segja að sú stutta er mjög skemmtileg, en langsamlega skemmtilegast var að gefa henni graut að borða. Hún gapti svoleiðis og geiflaði sig á meðan hún beið eftir næstu skeið og ég, óvanur maðurinn, hafði ekki undan við að láta „flugvélina koma fljúgandi með matinn“. Nokkrum sinnum gafst hún upp á mér og lokaði bara munninum, eftir að hafa haldið honum galopnum langtímum saman. Þetta tókst þó á endanum.

Ég þurfti svo frá að hverfa, en ég þurfti suður í Kópavog til þess að spila eignum mínum frá mér í fjárhættuspili. Una stóð því vaktina til miðnættis og svæfði Áslaugu Lilju með  (að sögn) undurfögrum söng sínum.

Rambar á barmi

nóvember 23, 2006

Það er alltaf skrýtið þegar fréttamenn segja Írak ramba á barmi borgarastyrjaldar. Svona svipað og að segja að ég rambi á barmi þess að vera frábær náungi. Ég er bara frábær náungi og það sjá allir heilvita menn.

http://mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1236990

Ábyrgð og kraftur

nóvember 23, 2006

…eru nú þau orð sem ég hef hvað mest óþol fyrir í pólitískri umræðu. Læt það nú vera þó menn slái um sig með þessu í prófkjörum og svona, en þegar þetta er farið að læðast inn í greinar sem menn skrifa á netið eins og ekkert sé eðlilegra verður stíllinn alveg einstaklega hjákátlegur. Sumir ofnota þetta þannig að maður veltir því fyrir sér hvort þeir borði CocoaPuffsið sitt líka með ábyrgð og af krafti, fari svo í sturtu og þvoi sér um hárið með ábyrgð en miðsvæðis af krafti.

nóvember 22, 2006

Vinsælasti sjónvarpskarakter í heimi

…það er hann Horatio Caine, leikinn af David Caruso. Eins og sést glögglega af þessum myndbrotum er þetta ótrúlega asnalegt, illa skrifað og alveg sérstaklega illa leikið.

007

nóvember 19, 2006

Já Bond er kominn aftur og hinn mjóslegni Brosnan, sem enginn trúði í raun að gæti gert flugu mein, er á bak og burt. Þessi Bond er svo sannarlega betri en sá síðasti sem átti ótrúlega slaka spretti í einhverri íshöll á Breiðamerkursandi. Ofbeldið er alveg prýðilegt, áhættuatriðin hressandi og gellurnar upplífgandi (en þó yfirleitt dauðar áður en yfir lýkur).

Það má þó segja að handritshöfundarnir hafi gersamlega misst sig í vitleysu þar sem ein af gellunum er kynnt til sögunnar. Bond er þá að tana sig úti í brimrótinu, nýkominn í kompaníið og rétt svo búinn að komast í getnaðarlimlestandi þrönga skýlu. Þá kemur hún berbakt ríðandi eftir ströndinni á hvítum hesti, íklædd júllustatífi og lendaskýlu við undirleik væminnar tónlistar, og hópur barna hleypur til hennar eins og hún sé Jesús kristur mættur á pleisið til að blessa liðið. Bond meikar ækontakt við hana á nótæm, bara undireins, þó svo hann sé einhvers staðar að tana sig úti í hafsauga, hundblautur.

Já svo tekur hann hana og stuttu síðar er hún steindauð. Já hann kann sko að tríta þær.

Til fjölmiðlamanna

nóvember 16, 2006

Ykkur er óhætt að róa aðeins niður fréttaflutninginn af Tom Cruise, Katie Holmes, Suri Holmes-Cruise og fyrirhuguðu brúðkaupi þeirra Cruise og Holmes. Holmes er helst fræg fyrir að vera með Cruise, en ferill Cruise er nú á niðurleið. Cruise er þar að auki í rugludallasamtökum sem aðhyllast sci-fi trúarbrögð og hefur dregið Holmes með sér inn í þá menningu. Spurning hvað Cruise-Holmes gerir í þeim efnum.

Hvað ætli þessi færsla skili mér mörgum heimsóknum frá leitarvélum?

Iðrun Árna

nóvember 14, 2006

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins var viðtal við Árna Johnsen. Í fréttayfirlitinu var sagt að Árni iðraðist gjörða sinna hér um árið og að hann teldi menn sem ekki iðruðust slíks vera með hjarta úr steini.

Í viðtalinu kvað hins vegar við annan tón. Vissulega sagði Árni það sem kom fram í yfirlitinu, hann hreyfði varir, kjálka og tungu svo út komu þessi orðasambönd. En eitthvað annað lá á bakvið. Hann lýsti atferli sínu sem „tæknilegum mistökum“ sem „enginn tapaði á“ og tók jafnframt fram að  margir aðrir hefðu verið viðriðnir sama mál en sem betur fer [lesist: fyrir einhvern djöfulsins ákæruskandal] hefði hann verið sá eini sem var ákærður. Og tók hann svo fram að það væri þá eins gott að það hefði „lent á“ breiðu baki.

Úr þessum orðum er ekki hægt að túlka annað en að manninum sé gersamlega fyrirmunað að sjá eftir því sem hann gerði. Orð hans um tæknileg mistök sem enginn tapaði á eru hrein sönnun þess. Menn geta gerst sekir um formleg brot og efnisleg brot. Ef maður brýtur gegn málsmeðferðarreglu vegna vankunnáttu eða flýtis er engin ástæða fyrir hann til þess að iðrast gjörða sinna. Þetta var bara smá tæknifeill. Ég tala nú ekki um ef enginn skaði er skeður. Til hvers að iðrast fyrir slíkt?

Þar að auki virðist hann bölva „öllum hinum“ sem áttu hlut að máli í sand og ösku og telur sig hafa tekið skellinn fyrir allt liðið (hverjir svo sem það nú eru). Hann var fórnarlamb en er bara með svo ofboðslega breitt bak að hann tók dóminn á sig fyrir hina. Nokkurs konar frelsari.

Hvaða kjaftæði er þetta?

9000 manns – ein ruslafata

nóvember 13, 2006

Una er alls kostar ósátt við smæð ruslatunnunnar í nestishorni Þjóðarbókhlöðunnar – Landsbókasafnsins – Háskólabókasafnsins. Hafði hún á orði hér fyrir skömmu að það væri óásættanlegt að í 9000 manna stofnun eins og Háskóla Íslands væri einungis ein ruslafata. Þrátt fyrir að sæta gagnrýni vildi hún þó hvergi hvika frá þeirri fullyrðingu og naut fulltingis systur sinnar.

Una byggir undir skoðanir sínar með því að ýkja aðstæður lítið eitt.

„Ég kem aftur“

nóvember 9, 2006

Þessi fleygu orð sagði Valdimar Leó Friðriksson eftir slakan árangur sinn í prófkjöri nú fyrir skemmstu. Ekki veit ég hvers vegna hann kaus að vitna í Schwarzenegger við þetta tilefni. Kannski einhvers konar hótun. En ég hefði talið það eiga mikið betur við að hann vitnaði í James Spader. Hann hefði til dæmis getað sagt: „I’m not going to sit on this balcony forever. I’m beginning to feel like a potted plant.

James og James

Brandari

nóvember 7, 2006

Ég skrifaði einhvern tíma um það á gamla bloggið að það væri ekki hægt að semja brandara. Ég hef þó ekki gefist upp og reyni enn að semja brandara. Eins og alltaf veltur vægi hans á broddsetningunni sem kemur í endann. En hér er afraksturinn, þetta er semsagt knock-knock brandari.

KNOCK, KNOCK

– WHO’S THERE?

VÍKINGUR HEIÐAR ÓLAFSSON, PÍANÓLEIKARI.

– VÍKINGUR HEIÐAR ÓLAFSSON, PÍANÓLEIKARI WHO?

NEI, ÞAÐ VAR ENGINN PÍANÓLEIKARI Í WHO!