Archive for október, 2006

Mælska

október 31, 2006

„When i was coming up, it was a dangerous world and we knew exactly who the they were. It was us versus them and it was clear who them was. Today, we’re not so sure who the they are, but we know they’re there.“

– George W. Bush, í janúar árið 2000.

Alþjóðastjórnmál

október 30, 2006

Ég skil alveg af hverju alþjóða þetta og alþjóða hitt er svona vinsælt þessa dagana. Kenningar í alþjóðastjórnmálum eru skemmtilegt efni. Hins vegar þykir mér leiðinlegt hvað námið gengur mikið út á ákveðnar yfirlitsbókmenntir. Þ.e. bækur sem fjalla um bækur sem skipta máli. Af hverju ekki bara að láta okkur lesa bækurnar sem skipta máli?

Þetta á nú samt ekki að vera neitt röfl hérna, kennslubókin í þessu námskeiði, The globalization of world politics er mjög vel upp sett, vel skrifuð og vönduð. En það væri gaman ef bara ein eða tvær bækur eftir einstaka fræðimenn væru á dagskránni. Maður verður bara að muna það þegar tími gefst að lesa einhverjar skruddur eftir þá Mearsheimer, Waltz og félaga.

Að kaupa bók

október 29, 2006

Ég fór í göngutúr í dag til þess að hressa mig við áður en ég færi að læra. Þá flaug mér í hug að kíkja í bókabúð og sjá hvort þar væri að finna bækur sem ég gæti notað sem heimildir í ritgerð. Í bókabúð Máls og menningar sá ég að jólabókaflóðið er byrjað og borðin hafa verið hlaðin af nýrri snilld. Ég tók upp sýningareintak af bók sem heitir Svavar Pétur og 20. öldin. Hún ef gefin út af Nýhil og er eftir Hauk Má Helgason. Eftir að hafa þvegið hendur mínar á saurblaðinu fletti ég á upphafssíðuna. Þar er tilvitnun. Oft hefja höfundar bækur sínar á einhverjum fleygum orðum stórmenna eða hugsuða, einhverri magnþrunginni pælingu sem inniheldur í raun allt sem bókin hefur að segja. Tilvitnunin var svona:

What’s the difference between tómið and tómarúmið? Is it like tomheden and tomrummet in Danish (the former being emptiness itself, the latter being an empty room/space)?

– posted on Sigur Rós’s website on 10-5-2005 at 17.31 by Bjössi –

og fyrir neðan stendur: kom upp við leit að íslenskun á ,,null and void“, til þýðingar á tryggingaskilmálum.

Nú þótti mér það tíðindum sæta að einmitt sú bók sem ég tók til nánari skoðunar þarna búðinni, af öllum þeim þúsundum bóka sem þar er að finna, skyldi hefjast á tilvitnun í vin minn, Björn Flóka. Hann er nú orðinn svo merkilegur maður að skáldsaga skuli hefjast á tilvitnun í hann. Ég las svo áfram og á fyrstu blaðsíðunni (bls.7) stendur meðal annars:

„Ég er búinn að vera hér í 47 ár og nokkrar eilífðir. Eilífð eitt: þegar ég var barn. Eilífð tvö: þegar ég varð ástfanginn. Eilífð þrjú: þegar ég varð aftur ástfanginn. Eilífð fjögur: þegar ég gleymi mér við að steikja fisk eða dotta í árabát og fleira þess lags, það er allt sama eilífðin. Eilífð fimm: þegar Una dó.“

Þá stóð ég upp og keypti bókina.

Börn

október 28, 2006

Ég fór í kvikmyndahús í gær. Sá íslensku myndina Börn. Hún var bara mjög góð. Gísli Örn Garðarsson var samt ekkert svakalega trúverðugur sem ofbeldishundur, en ég býst svo sem við því að alvöru handrukkarar séu ekkert mjög trúverðugir sem slíkir heldur.

Almennt mjög mjög vel leikin mynd. Ætli þið séuð ekki öll búin að sjá hana fyrir löngu. En ef ekki, skelliði ykkur þá.

GT

október 25, 2006

Ég var að kveikja á því að mig langar alveg ofboðslega mikið í tvöfaldan gin&tonic núna. Ég vissi að mig langaði í eitthvað. En nú veit ég það. Það er nákvæmlega þetta sem mig langar í. Tvöfaldur gin&tonic með fullt af klaka, limesneið og dass af sódavatni á móti tónikkinu. Bragðmildur, ferskur, sterkur, kaldur.

Aaahhhh…

Hvalveiðar III

október 25, 2006

Nú er málið umdeilt mjög, og þess vegna hefi ég fundið leið til þess að sameina blóðþorsta Íslendinga og væmni hins enskumælandi heims. Hvalveiðum verði haldið áfram, en í því skyni að vernda náttúruna og hlífa svo tignarlegum skepnum við bráðum dauða verði þetta einungis (og þessu verði fylgt eftir af festu) svonefndar catch and release veiðar.

Hvalveiðar

október 24, 2006

Hvað sem hverjum finnst um hvalveiðar, rök með og á móti og allt það, þá er sennilega ekki til verri talsmaður atvinnugreinarinnar hér á landi en einmitt forvígismaður hennar.

Mýrin

október 23, 2006

Mjög góð mynd. Theódór Júlíusson á stórleik sem skíthællinn Elliði, látið hann fá einhvers konar verðlaun eða fálkaorðu. Ég hef enga sérstaka gagnrýni á myndina nema það sem alltaf má búast við þegar mynd er gerð eftir bók, ég hafði ekki sé persónurnar fyrir mér eins og þær birtast. En það er svosem engin gagnrýni. Ég hafði séð Erlend fyrir mér feitari, þreyttari og lifðari. Ingvar E. Sigurðsson er samt góður.

Svo var það áhugavert að í kreditlistanum var tekið fram að Kári Stefánsson hefði veitt aðstoð við handritsþróun. Sammældist okkur sem vorum í bíó um að í staðinn fyrir að kvikmyndagerðarmennirnir fengju að filma svona mikið í húsi íslenskrar erfðagreiningar hefði Kári fengið að koma meðrökum miðlæga gagnagrunnsins að í myndinni. Hann sést þar leika sjálfan sig í viðtali við Kastljósið, útlistandi kosti gagnagrunnsins, algerlega í bakgrunni. Svo er karakterinn sem Magnús Ragnarsson leikur látinn svara hugleiðingum Erlends um gagnagrunninn, þ.e. að í honum séu geymd fjölskylduleyndarmál, framhjáhöld og sjúkdómar sem vísindamenn krukki svo í. Það var samt snyrtilega gert og þau sjónarmið ekki sett fram sem viðhorf þeirra sem gerðu myndina, heldur viðhorf íslenskrar erfðagreiningar.

Samtöl voru öll nokkuð eðlileg, nema á einum stað, bara einum, fékk maður svona týpískan aulahroll yfir einhverri línu sem karakter er látinn segja. Það er þegar Erlendi er sagt úr hverju „Kola“ dó. Amma hennar segir eitthvað á borð við „taugatrefjaheilaæxli“ (eða eitthvað) og Erlendur svarar ábúðarfullur: „ah…júrófíbrómatósis“ (eða eitthvað). Mjög hallærisleg lína, sem þjónaði þó þeim algerlega praktíska tilgangi að halda áhorfendum við efnið og minna þá á tenginguna við Auði Kolbrúnardóttur sem dó úr því sama.

Senan þar sem Sigurður Óli kemur að Elliða þar sem hann er að drepa Rúnar Gíslason og eltir hann út í mýri telst einn af hápunktum myndarinnar. Ótrúlega fyndin sena.

Nú svo að lokum er það spurningin hvaða mynd ætti að gera næst eftir sögum Arnaldar. Fyrir mína parta segi ég Grafarþögn. Ég hef nú ekki lesið allar bækur Arnaldar, en Grafarþögn er að mínu mati sú langbesta sem ég hef lesið, töluvert sterkari en Mýrin. Sjaldan hef ég lesið bók þar sem jafnvel tekst til að byggja upp trúverðuga karaktera og láta lesandann finna til samúðar með þeim. Auðvitað væri kostnaðarsamt að gera myndina því þá þyrfti að endurvekja gamla tíma, með öllum þeim búningum, húsbúnaði, bílum og umstangi sem þarf til þess. Sú mynd yrði líka ansi niðurdrepandi og sorgleg á köflum en eflaust góð.

Langreyðið

október 22, 2006

Í þessari frétt á mbl.is má sjá myndasýningu af langreiðinu sem var landað í Hvalfirði fyrir skemmstu. Notkunin á orðinu langreyða í þeirri myndasýningu er til fyrirmyndar.

Hver vill fita okkur?

október 19, 2006

Bakþankar Fréttablaðsins í dag eru ritaðir af Dr. Gunna. Það er alltaf gaman að lesa bakþankana, stundum eru þeir mjög skemmtilegir og útpældir og stundum algjört rugl. Dr. Gunni byrjar ekki vel í þetta skiptið þegar hann segir: „Stærri helmingur heimsbyggðarinnar dregst sífellt aftur úr, vannærður með rifbeinin út í loftið en minni helmingurinn, og þar á meðal við, verður að sama skapi feitari.“

Það er ekki oft sem menn hrista lesandann af sér á fyrstu metrunum en Dr. Gunni fer nálægt því þarna með því að tala um misstóra helminga einnar heildar. Þetta kemur bara eitthvað svo klaufalega út.

Helmingur