Archive for september, 2006

Myrkvunin

september 28, 2006

Hugmyndin var góð. Fólk hafði samt greinilega mjög takmarkaðan áhuga á þessu. Nýbýlavegurinn í Kópavogi var glæsilega flóðlýstur af fyrirtækjunum sem þar hafa starfsstöðvar og BSÍ var með Batmanljóskastarana á fullum styrk.

Sérstaka athygli vakti þó að Háskólabíó tók ekki þátt í myrkvuninni. En hún var einmitt skipulögð í sambandi við upphaf alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík – sem fer fram í Háskólabíói. Áhugavert.

Þó svo að borgin hafi hvergi verið nærri því að myrkvast var þetta áhugavert. Ég hélt einhvern veginn að götulýsingin væri miklu stærri hluti af borgarljósunum. En það var varla að maður sæi mun. Jú vissulega var hann greinilegur á Skólavörðuholtinu, á Seltjarnarnesi og í Hlíðunum. En þess utan sá ég harla lítinn mun. Það var kannski naívt af manni að halda að 200 þúsund manns tækju sig saman á einu bretti og gerðu eitthvað saman.

Tilraunin var hins vegar góð, það var töluverð stemning fyrir þessu hjá þeim sem vissu af því yfirleitt. Mér finnst að þeir ættu bara að reyna þetta aftur á næsta ári.

Gleraugu

september 28, 2006

Í nótt dreymdi okkur Unu bæði um gleraugu.

Ekkert svona hér

september 27, 2006

Nú glápi ég töluvert á sjónvarp. Á meðal þess sora sem ég fylgist með er The Contender. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með gengur hann út á að tattúveraðir og nefbrotnir menn gráta og tala um börnin sín á milli þess sem þeir slást eins og óargadýr. Þátturinn er á vissan hátt á sama siðferðisstandard og Bumfight myndböndin sem voru vinsæl á netinu fyrir nokkrum árum, þar sem rónum var borgað fyrir að fremja líkamsmeiðingar á sjálfum sér og öðrum rónum. Boxurunum er nefnilega lofuð 500.000 dollara summa ef þeir standa uppi sem sigurvegarinn.

En hvað sem því líður. Þátttakandi einn sem nú er dottinn út heitir Norberto Bravo. Hann er, eins og nafnið gefur til kynna af suður-amerískum uppruna, ellegar latino. Hann tók upp á því að tala sérlega mikið um kynþátt sinn og það hversu stoltur hann sé af því að vera af þeim kynþætti. Svo var hann með svona slagorð sem hann sagði alltaf fyrir slaginn: „Viva la raza!“ eða „Lifi kynþátturinn!“. Reyndar sýndi þessi fjölskyldufaðir og tilfinningabangsi ekki af sér annað en góða hegðun og framkomu utan hringsins og virtist ekki vera haldinn hatri á mönnum af öðrum kynþáttum. En eitthvað segir mér þó að ef einn af hvítu gaurunum hefði sagt „Long life the race! Yeah!“ fyrir slagi þá hefði verið þaggað niður í honum hið snarasta.

Óviðjafnanlegur sunnudagur

september 25, 2006

Í gær hélt ég í gönguferð upp að Glym, hæsta fossi landsins. Þar hef ég farið áður en ekki á nákvæmlega þessum árstíma. Nú eru haustlitirnir í óðaönn við að sturla náttúruæsta Íslendinga og toga upp úr þeim gífuryrði um fegurð föðurlandsins. Ég er þar engin undantekning. Ekki var ég einn á ferð, enda komu með mér Una Sighvatsdóttir, Ásdís Eir Símonardóttir og Anna Samúelsdóttir. En gönguferðin var farin undir yfirskriftinni – „Frelsum kvenþjóðina frá áfengisbölinu“.

Þessi gönguleið er fullkomin. Þetta byrjar á smá upphitun, gengið er eftir engjum í nokkrar mínútur þar til komið er að Botnsá, rennandi út úr gljúfri. Til þess að komast niður að ánni er gengið í gegnum helli (það er alltaf ævintýralegt að ganga í gegnum helli). Niður úr hellinum hleypur maður stjórnlaus og lendir í rauðgulu birkikjarri. Út úr kjarrinu kemur maður við árbakkann. Þar hefur verið komið fyrir trjádrumbi sem liggur af stórgrýti einu í ánni og yfir á hinn bakkann. Þegar yfir er komið tekur hinn eiginlegi göngutúr við. Gljúfurbarmurinn er genginn stall af stalli, ofar og ofar. Sífellt kemur fossinn betur í ljós og stöðugt minnkar áin á botni gilsins. Að lokum er toppnum náð og þá er kjörið að fá sér samloku, banana og kókómjólk í dúnmjúkum mosa. Þá er maður farinn að sjá Esjuna á ný og Hvalfjörðinn, Akrafjallið og Leirársveitina alveg út að Faxaflóa. Við þetta tækifæri skartar stóriðjan á Grundartanga sínu fegursta og blæs reykhringjum til afþreyingar.

Göngumenn tóku svo til við að komast yfir Botnsána fyrir ofan fossinn. Hún leynir sannarlega á sér hvað þetta varðar. Úr fjarlægð virðist hún varla ná nokkrum manni í ökkla en þegar betur er að gáð vantar alls staðar herslumuninn á að hægt sé að stikla yfir hana með góðu móti. Einn göngumaður stiklaði það þó í skjóli vatnsþolins göngutaus. En þegar ferðafélagið hætti við vegna kvenlegs eðlis þurfti hann að fara aftur til baka. Þá var prófað að vaða yfir á iljunum en það er lítt skemmtilegt. Úti í miðri á tók sig upp kvenlegt eðli í göngumanninum og hann skellti sér í skóna uppi á nibbu og stiklaði restina.

Niðurleiðin var löðurmannleg og engin blaðra hefur komið í ljós á iljum mínum. Ég mæli með því við alla sem eiga nokkra klukkutíma lausa að þeir skelli sér í þessa náttúruperlu og komi blóðinu á hreyfingu í fersku lofti og frábæru útsýni. Ég myndi birta myndir með færslunni ef ég kynni það.

Eftir göngutúrinn kíktum við á Hvalstöðina til þess að sjá hvort þar væri allt komið á fúllsvíng fyrir komandi átök. En ekki var þar mann að sjá. Við rennuna þar sem dýrin eru dregin upp synti mikill fjöldi seiða (ég er ekki viss, held þetta hafi verið ýsuseiði) sem spriklaði í yfirborðinu og gaman var að fylgjast með. Annars ekki mikið að sjá þar.

Svo var haldið heim á leið í kvöldsólinni.  Frábær dagur í alla staði.

Ruby Tuesday

september 25, 2006

Kvöldmaturinn í gær var snæddur á Ruby Tuesday uppi á höfða. Það arma hreysi fær nú ekki margar stjörnur í þetta skiptið. Þó svo þjónustan væri ágæt og borgarinn bragðgóður, þá var frönskuskammturinn herfilega lítill og pastaréttur Unu hálfkólnaður og alltof dýr. Falleinkunn hjá Ruby Tuesday. Fuss.

Divorce: Iranian style

september 21, 2006

Fór á myndina Divorce: Iranian style sem Magnús Þorkell Bernharðsson var að sýna í Öskju í gærkvöldi. Myndin var nokkuð góð, ansi fyndin á köflum. Gerist aðallega í dómshúsi í Tehran, þar sem klerkur reynir að leysa úr hjónabandsdeilum fólks.

Nú er það væntanlega ekki þversnið af þjóðinni sem kemur inn í dómsalinn með vandamál á borð við getuleysi eiginmannsins eða áfengisneyslu hans, ofbeldi gagnvar fjölskyldunni eða eitthvað í þá áttina. Sennilega eru þau hjón sem koma þar inn samansett af áræðinni og klárri konu og svo einhverjum karli með lélegan karakter – hann er léleg fyrirvinna, fíkill, ofbeldismaður eða eitthvað álíka…en jafnframt hálfgerður ræfill.

Ég býst ekki við því að allar konur þori að fara fyrir rétt með mál eins og getuleysi karlsins, því eflaust er karlinn líklegur til einhverra illverka ef þær láta sér detta það í hug. En myndin kom semsagt þannig út að þarna kæmu klárar og vel máli farnar konur sem tuskuðu til karlana sína og sneru á kerfið en hlógu svo á bak við kuflinn þess á milli.

Klerkurinn virtist vera nokkuð sanngjarn – innan þess ramma sem kóraninn gefur honum auðvitað – og málsaðiljar máttu grípa fram í fyrir honum og rökræða við hann nokkuð frjálslega. Hins vegar var útgangspunktur hans alltaf sá að karlinn væri sá sem leitaði eftir skilnaði og konan hlyti að vilja vera áfram hjá karlinum. Annað væri ómögulegt. Konan sagði „ég vil skilnað! ég vil skilnað!“ og þá sagði dómarinn: „Hann tekur við þér aftur ef þú gerir þig sæta heima fyrir og hagar þér vel“ og þá sagði hún „Ég hef engan áhuga á því! Ég vil skilnað!“ og þá kom eitthvað á borð við „Vonandi vill hann taka aftur við þér“.

Svo var sýnt frá sáttafundi þar sem fjölskyldur karls og konu sem áttu í hjónabandserfiðleikum hittust, aðallega einhverjir frændur, og ræddu málin og reyndu að komast að niðurstöðu. Þar var eiginkonan viðstödd og stjórnaði umræðum með harðri hendi, en hún var einmitt 16 ára.
Áhugaverð mynd og skemmtileg. Stutt…e-ð um 80 mínútur á lengd. Held að það sé hægt að fá hana á bókhlöðunni.

Ráðleggingar

september 20, 2006

Ég tel að ráðleggingar mínar til háttvirts utanríkisráðherra muni koma sér vel fyrir framboð okkar til Öryggisráðs sameinuðu þjóðanna. Hún spurði mig hvort að brandarinn „Gilligilli-offsenfeffer-katseneller-Kofi Annan“ væri góður icebreaker á milli hennar og aðalritarans. Ég sagði henni að svo væri ekki, enda hefði þetta ekki nógu alþjóðlega skírskotun.

Á meðan ég man

september 20, 2006

Ég hef orðið þess áskynja að nýtt æði sé að renna yfir þjóðina nú þegar Magni hefur sungið sitt síðasta í Bandaríkjunum. Ég ríð því á vaðið og tek fullan þátt í þróuninni: Hér eftir mun ég verða kallaður Capacent Önundur.

Éttu…

september 20, 2006

Á Select við bókhlöðuna keypti ég mér samloku í gær. Þangað kom inn maður rétt á eftir mér, lagði hann fartölvutösku sína á afgreiðsluborðið og sagði eitthvað við afgreiðslumanninn, ég held að það hafi verið eitthvað á borð við: „Takið þið við fartölvum?“ Svar afgreiðslumannsins var hreint og beint „nei“. „Jú“ sagði aðkomumaðurinn þá. „Nei, það höfum við aldrei gert og munum aldrei gera“ sagði afgreiðslumaðurinn til ítrekunar.

Þá gaus upp mikil bræði í aðkomumanninum og hann sagði „ÉÉHHHTUUU….helvíti“, en hann koðnaði hálfpartinn niður eftir fyrra orðið. Þar lét hann við sitja, tók töskuna sína og hvarf út í iðandi mannlíf höfuðborgarinnar.