Bylgjur netnotkunar

febrúar 18, 2010

Fyrst var það ircið. Svo umræðuvefirnir. Eftir það fóru allir að blogga. Svo fóru allir á myspace.  Síðan Facebook. Eins og sést af þessari upptalningu er hver bylgja margfalt skemmtilegri en forveri hennar.  Facebook virðist ætla að standa af sér allnokkrar smærri öldur, svo sem twitter og buzz.

Ég veit ekki hvernig arftaki Facebook, framtíðarandlag netfíknar heimsbyggðarinnar, verður úr garði gerður. Ég sé fyrir mér einhvers konar tæki sem skráir sjálfkrafa niður allar athafnir fólks, tekur þær upp á myndband, greinir þær og setur svo upplýsingarnar á margmiðlunarformi inn á netið.

Það er pirrandi að í nútímanum þurfi fólk handvirkt að skrá niður allar athafnir sínar, taka myndir eða kvikmyndir af þeim og  setja þær svo á netið. Þetta á að vera sjálfvirkt.

Steve Cosser

febrúar 26, 2009

Nú liggur fyrir að ástralski auðmaðurinn Steve Cosser muni ekki eignast Árvakur hf. Þrátt fyrir að hafa haft ákveðna fyrirvara á gagnvart manninum er ekki laust við að tilhugsunin um hann sem eiganda hafi kitlað. Eigandi sem skilur ekki hvað stendur í blaðinu er sannarlega ekki líklegur til mikilla afskipta.

Mikið var rætt um að hann væri mögulega leppur fyrir einhvern auðmann. Með viðtölum við hann í ljósvakamiðlunum í fyrradag varð hins vegar dagljóst að það skipti engu máli hvort hann er leppur einhvers eða ekki. Hrokinn og yfirlætið sem kom fram í viðtali við Ríkissjónvarpið og Stöð 2 töluðu sínu máli.

Öllum er orðið ljóst að hrokafullir auðmenn eru ekki æskileg blanda við fjölmiðlarekstur. Þarna birtist hrokafyllsti auðmaður  sem sést hefur lengi á sjónvarpsskjánum. Samanburður hans á verðmati Árvakurs og sínu eigin heimili í Lundúnum var kristaltært dæmi um hugsanagang sjálfsánægðs furðufugls með Mídasarkomplexa. Fullyrðingar hans um að rógberar yrðu eltir uppi og á þeim tekið voru síðan afskaplega taktlausar.

Anima Umbra 2006 – smökkun

ágúst 27, 2008

Í gærkvöldi var rauðvín smakkað. Vínið nefnist Anima Umbra og er framleitt af Arnaldo Caprai á Ítalíu. Það er semsagt frá Úmbríu, en utan á flöskunni stendur að það sé ábending um alveg dæmigerða landafræði. Indicazione geografica tipica.

Ágætt italskt vin

Ágætt ítalskt vín

Smakkarar voru tveir, hinn valinkunni andans maður sjálfur og húskerlingin Una. Vanir vínsmakkarar slá oft um sig með fínum orðum sem gefa til kynna yfirburðaþefskyn, þegar þeir lýsa víntegundum. Slíkt þefskyn er ekki staðalbúnaður í mér. En…engu að síður var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég opnaði flöskuna og stakk nefinu langt niður í stútinn: Kanill.

Kanill, já kanill.

Ilmurinn var sterkur fyrst um sinn, en eftir að flaskan hafði fengið að standa á borðinu í 20 mínútur á meðan verið var að matbúa virtist ilmurinn dofna örlítið. Þegar það var komið í glösin var það ennþá meira svo og á endanum varð bragðið frekar milt, ekki jafnkryddað og stefnt hafði í fyrst. Annað bragð sem ég virtist merkja var einhvers konar lakkrískeimur, samt ekki eins og appollólakkrís heldur meiri blanda af því og einhverju öðru sem ég þekki ekki. En sú tilfinning varði varla nema í nokkrar sekúndur.

Að öðru leyti bragðaðist vínið eins og rauðvín, en ekki eins og eitthvað annað en rauðvín.

Það var ótvíræður kostur að þó við drykkjum alla flöskuna varð ég ekki leiður á bragðinu í endann. Ég hef oftar en einu sinni lent á flöskum sem eru góðar til að byrja með en eftir að neðar dregur fer bragðið að versna og í lokin er það orðið óþolandi vont. Þetta var svona jafngott alla leið, þó svo að fyllingin hefði mátt vera aðeins meiri fyrir minn smekk.

Vínið er litfagurt, ekki mjög dökkt.

Allt í allt er óhætt að mæla með Anima Umbra 2006. Ef maður á að gefa stjörnur myndi ég gefa þær á skalanum ein til fjórar og þetta fengi þá þrjár.

Ég skora á Óttar Völundarson að taka við keflinu í Vínkeðjunni.

Spekingar spjalla

júlí 8, 2008

A says:
ein spurning hérna
A says:
ef þú ert með tvö A4 blöð
B says:
aha
A says:
sem eru eins að öllu leyti nema…
A says:
annað þeirra er 0,5mm á þykkt
A says:
en hitt er 1mm á þykkt
A says:
er þá 1mm þykka blaðið tvisvar sinnum stærra en hitt?
A says:
ætlarðu bara að hunsa mig?
A says:
þetta er spurning um orðalag, ekki eðlisfræði
A says:
eða stærðfræði
B says:
spurningin fjallar sem sagt um merkingu orðtaka á borð við „helmingi stærra,“ „tvöfalt stærra“ o.þ.h.
B says:
ég er bara ekki klár á því
B says:
ég held allavega að það sé rétt að segja að 10 sé helmingi stærra en 6
B says:
en 5
B says:
meina ég nú
A says:
nei ég er ekki að tala um þau tvö hugtök
A says:
ekki bæta neinu við
A says:
taktu bara það sem ég sagði
A says:
og dæmdu um réttmæti þess
B says:
ég er einfaldlega ekki fær um það
A says:
þykka blaðið tekur allavega 2x meira rúmmál en þunna blaðið
B says:
en mér finnst ekki lógískt að segja að 1mm sé tvisvar sinnum þykkara en 0,5mm
B says:
vegna þess að „tvisvar sinnum þykkara“ finnst mér vísa til mismunarins, sem er 0,5mm, og það er aldeilis ekki tvisvar sinnum 0,5mm
A says:
þetta er reyndar bull í þér
A says:
helber vitleysa
A says:
auðvitað er það tvisvar sinnum stærra
A says:
2 sinnum 2 er fjórir
A says:
þar af leiðandi er fjórir 2 sinnum stærra en 2
A says:
það er augljóst
A says:
0,75 er helmingi stærri tala en 0,50 því helmingur af 0,5 eru 0,25 og 0,5+0,25 eru 0,75
B says:
hvað ertu þá að spyrja mig ef þú veist svarið?
A says:
sko, þú ert bara að tala um eina fokking tölu, ég er að tala um freakin’ hlut sem er þrívíður
A says:
hlutirnir tveir eru jafnstórir á tvær víddir
A says:
en misstórir á eina
A says:
gerir þá munurinn á einni vídd það að verkum að hluturinn sé 2x stærri en hinn (þ.e. í málfarslegum skilningi)
B says:
þegar talað er um að X sé stærra en Y þá er miðað við helminginn af X, en ekki helminginn af Y
B says:
svo 0,75 er ekki helmingi stærri en 0,5 heldur er 1 helmingi stærri en 0,5
A says:
það er rangt hjá þér
B says:
nei
A says:
ok, hvað er þá tvisvar sinnum stærra en 0,5?
B says:
það veit andskotinn
A says:
skv. þinni lógík 1,5
A says:
en þú sérð að:
0,5×3=1,5 svo að 1,5 er þrisvar sinnum stærra en 0,5, ekki tvisvar sinnum stærra
A says:
„B says:
þegar talað er um að X sé stærra en Y þá er miðað við helminginn af X, en ekki helminginn af Y“
þetta var einfaldlega röng fullyrðing
B says:
nei
B says:
http://www.visindavefur.hi.is/svar.php?id=699
A says:
tökum nokkrar KJARNAsetningar úr þessari vefsíðu:
A says:
„Rökréttasta svarið samkvæmt hlutfallareikningi yfirleitt væri 30.“
A says:
„Jafnframt virðist sem gamla málvenjan sé á undanhaldi í þróun tungumálsins.“
B says:
so?
A says:
„Eins virðist ekki verulegur ágreiningur um það að talan 40 sé þriðjungi stærri en 30.“
B says:
ekki í samræmi við þessa gömlu málhefð
A says:
FUCK gamlar málhefðir
B says:
ok ok . goddamn
A says:
aðalástæðan fyrir því að ég vil hafa þetta eins og ég vil hafa þetta er sú að skv. þinni notkun þá hafa orðasamböndin „helmingi stærra“ og „tvisvar sinnum stærra“ sömu merkingu
A says:
bæði þýða 2 sinnum X
A says:
og þá er ekki til neitt tungutamt orðalag fyrir 1,5 sinnum  X
A says:
skilurðu mig?
B says:

A says:
ætlarðu nú að játa þig sigraðan og snúast á sveif með mér?
B says:
jájájájájá
B says:
og þín afstaða var aftur hver?
A says:
ég man það ekki

Er mér spurn?

júní 13, 2008

Hvaða viðhorf ætli háhyrningar hafi til hvalveiða? Líklega jákvætt viðhorf, þar sem þeir leggja sjálfir stund á þær. En þar sem háhyrningar eru sjálfir hvalir, hvaða viðhorf ætli hvalaverndunarsinnar hafi þá til háhyrninga? Og þá gæti maður áfram spurt sig, hvað ef háhyrningarnir eru að veiða dýr af tegundum í útrýmingarhættu? Er þá rétt að hindra slík hvaladráp með þvingandi aðgerðum gegn háhyrningum, til dæmis lífláti?

Hvernig er annars háhyrningakjöt? Er það einhver óætur andskoti? Er ekki í háhyrningum og siðlausu framferði þeirra gegn tignarlegustu verum jarðarinnar, hvölum, fundinn snertiflötur hvalveiðimanna og hvalaverndunarsinna?

Nei, samt, í alvörunni. Mér er ekki spurn.

Vistakstur eða sparakstur?

júní 10, 2008

Ég er byrjaður að ástunda hann. Það fer auðvitað eftir hvötum og viðhorfum bíleigandans hvort nafnið hæfir betur. Sjálfur lít ég mun frekar á þetta sem sparakstur en vistakstur, enda er mér mjög umhugað um budduna mína en skítsama um umhverfið.

Hlaup

maí 26, 2008

Það er á dagskránni að klára þennan hring í vkunni. Veit ekki af hverju myndin kom svona lítil út, ég hef gert eitthvað vitlaust. En þetta er semsagt frá Freyjugötunni út á Lindarbraut á Seltjarnarnesi, meðfram sjónum inn í Nauthólsvík og svo upp í Kringlu og heim. Eitthvað á sautjánda kílómetra. Mér segir svo hugur að síðustu metrarnir verði ekkert ánægjulegir.

Ausafjárkreppa

maí 1, 2008

…spurning hvort þessi innsláttarvilla í frétt mbl.is sé ekki fæðing lýsandi nýyrðis fyrir núverandi efnahagsástand. Nei, ég segi bara svona.

Óvísindaleg könnun

apríl 30, 2008

Eftir umræður mínar við Þórð Gunnarsson, hagfræðinema og blaðamann, sem dulbýr sig nú, meðal Bauna, í baráttunni, gegn erlendum vogunarsjóðum, um afreksíþróttir, hef ég ákveðið, að framkvæma hér óformlega könnun, á hlutfallslegum svalleika tveggja fyrirbæra. Fyrirbærin, eða athafnirnar, sem hér um ræðir, eru ólík. Annað þeirra, er Iron Man þríþrautin, svokallaða. Hún felst í 3,86 km sundi, í sjó eða stöðuvatni, 180 km hjólreiðum og maraþoni, öllu, á að minnsta kosti 17 klst. Hitt, er að klífa Everestfjall, í Nepal. Fjallið, er um 8848 metra hátt.

Því spyr ég lesendur: Hvort afrekið, veitir meiri montréttindi? M.ö.o., ef Everestfari og Járnmaður, mætast í sama herbergi, hver er þá kóngurinn?

(Kommusetning í þessari bloggfærslu var í boði dómsmálaráðherra.)

Viðburðaríkur dagur eða ég flýg, ég flýg

apríl 27, 2008

Farið var í skírnarveislu hjá Árna Helgasyni og Sigríði Dögg Guðmundsdóttur. Nafn dóttur þeirra, sem var skv. afar traustum heimildum skírð í gær, var tilkynnt. Auður Freyja. Sterkt nafn. Gott nafn. Fallegt nafn. Matur var þar afar góður en síðuritari stóðst þó marsipankökuna, enda í átaki.

Hér víkur sögunni að atburði dagsins markverðum hinum síðari og tengist hann fyrrnefndu átaki. Í kvöldmat var snædd einhvers konar ofursamsetning næringar fyrir hlaupara, miðað við árangurinn í hlaupi því er farið var er sól gekk til viðar. Sjaldan eða aldrei hefur síðuritari gefið jafnsannfærandi til kynna, með hlaupum, að andskotinn sé á hælunum á honum. Hin eftirsóknarverða samsetning var 1944 réttur að austrænni forskrift, tvö linsoðin egg og einn banani. Dýnamít.

Nú! Hlaupið gekk nánar til tekið afar vel framan af og lauk svo skyndilega með falli. Hlaupið hafði verið vestur í bæ og með Ægisíðu til baka, yfir Öskjuhlíðina og með Kringlumýrarbraut í norðurátt. Síðuritari hljóp ekki á gangstéttinni heldur grasinu, af heilsuverndarástæðum. Það voru mistök. Einhverra hluta vegna var járnhringur úr 3mm þykkum vír hálfniðurgrafinn í grasinu. Síðuritari hljóp á um 12 km/klst með lappirnar beint í vírinn og flaug eftir það láréttur um skamma hríð. Fyrst hefði mátt halda að hann væri að taka á loft eins og Ofurmennið. Það hefði líka verið rökrétt framhald af fyrri hluta hlaupsins. Svo var þó ekki. Lendingunni er erfitt að lýsa en við skulum bara vona að margumrædd lending íslenska hagkerfisins í yfirstandandi samdrætti verði mýkri. Þetta var engin snertilending að hætti Geirs H. Haarde. Síðuritari lenti á bringunni og skoppaði af grasinu á steypta stéttina, rann eftir henni og staðnæmdist. Að svo búnu öskraði hann, fyrst og fremst af undrun en um leið af sársauka. Þetta gerðist til móts við Listabraut, mitt á milli heimilis Konráðs Jónssonar og Háskólans í Reykjavík.

Afraksturinn er helaum öxl, hruflaður handleggur, stífur háls og aumur nári. Haldið var beint í læknakandídatsskoðun á Bergþórugötunni, þar sem sjúkdómsgreiningin var „væg krambúlering“ og „hallærislegur klæðnaður“.